Átakalínur í íslenskum stjórnmálum verða sífellt greinilegri á ný. Það virðist ljóst að þjóðin er mjög sundruð í mörgum lykilmálum og að lífssýn fólks á sitthvorum pólnum er nánast eins og svart og hvítt. Kjarninn í þessum átökum er annars vegar sá hópur sem góða fólkið kallar freka kallinn og hins vegar sá hópur sem freki kallinn kallar góða fólkið.
Þótt báðir pólarnir séu nokkuð klassískir í pólitískum átökum þá er líka ýmislegt sem hefur bæst við þá umfram þessa nýju nafnagift.
Freki kallinn
Freki kallinn er íhaldssamur. Hann er ánægður með íslenskt samfélag eins og það er og hefur verið. Honum finnst ekkert tilefni til þess að breyta einhverju sem er ekki bilað og frábærar hagtölur undanfarinna ára staðfesta það. Hann aðhyllist toppinn-niður stjórnsýslu þar sem sterkir leiðtogar hafa vit fyrir óupplýstum almúganum, vill að íslenskt hagkerfi byggi á frumvinnslugreinum og að varðstaða verði slegin um rekstrarform þeirra. Svo lengi sem sjávarútvegur, landbúnaður og orkubúskapur skapi störf þá sé aukaatriði hvort einhverjir hagnist á rekstrinum eða hvort ríkið þurfi að borga með skipulaginu. Hann vill lægri skatta og telur að of háar bætur letji fólk frá heiðarlegri vinnu.
Freki kallinn vill standa vörð um kristin gildi og telur þau vera hornstein íslenskrar menningar og siðferðisvitundar. Því er hann mjög andsnúinn aðskilnaði ríkis og Þjóðkirkju og lætur fátt fara meira í taugarnar á sér en kröfur góða fólksins um að skólar hætti að fara með börnin þeirra í helgihús á hátíðardögum. Nema þegar það fer fram á að Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur úr Vatnsmýrinni. Eða aðförin að einkabílnum. Freki kallinn þolir ekki aðför Gísla Marteina þessa lands að bílnum og malbikinu.
Freki kallinn er þjóðmenningarlega sinnaður, er mjög efins gagnvart allri alþjóðasamvinnu og vill alls ekki fjölmenningarsamfélag á Íslandi. Hann hræðist að innflytjendur og flóttamenn muni hirða störf af Íslendingum og valda glundroða í samfélaginu með því að ota sínum lífsskoðunum fram í stað þess að aðlagast því sem fyrir er.
Hann er andsnúinn nýrri stjórnarskrá og finnst gott að vita af Ólafi Ragnari á Bessastöðum til að hafa vit fyrir stjórnmálamönnunum ef þeir nýta lýðræðislegt umboð sitt á rangan hátt. Honum finnst kynjakvótar mjög óréttlátir og er fylgjandi því að lögreglumenn geti borið byssur, ef ske kynni að þeir þyrftu á þeim að halda.
Góða fólkið
Góða fólkið er frjálslynt og telur sig umbótasinnað. Freka kallinum finnst það hins vegar vera barnaleg og einföld niðurrifsöfl sem halda að það séu endalausir peningar í ríkisseðlaveskinu til að borga fyrir mannúðargæluverkefnin þeirra.
Góða fólkið vill aukið beint lýðræði, nýja stjórnarskrá og botn-upp stjórnsýslu. Það mælir ekki lífshamingju í fermetrum, bankainnstæðum eða bílafjölda. Það vill búa minna, hjóla eða labba og flokka ruslið sitt.
Góða fólkinu finnst að stjórnskipan landsins og hlutverk ríkisvaldsins eigi að breytast með tíðarandanum. Að samfélagssáttmálinn sé dýnamískur, ekki meitlaður í stein. Það er þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að reka trúfélag né að bjóða upp á kristinfræðikennslu samkvæmt aðalnámskrá. Góða fólkið vill taka við sem flestum flóttamönnum og innflytjendum og telur þá auðga samfélagið menningarlega og efnahagslega. Það er fylgjandi alþjóðasamvinnu, vill að auðlindanýting sé grundvöllur fjölbreyttara atvinnulífs en ekki aðalforsenda þess. Því finnst beinlínis fáránlegt að ríkið beiti sér fyrir byggingu áburðarverksmiðju eða álvers til að skapa störf á landsbyggðinni en segist tilbúið að borga hærri skatta fyrir meiri þjónustu, menningu og sterkara velferðarnet.
Þrátt fyrir að vera hæfilega markaðssinnað þá hafnar góða fólkið brauðmolakenningunni um að auður sumra hristi mylsnu niður til allra hinna og bæti með því allt samfélagið. Góða fólkið vill mun fremur beita ríkisvaldinu til að draga úr misskiptingu auðs og stéttamyndun. Og það vill að valdi fylgi skilyrðislaus ábyrgð sem valdhafar þurfi að axla geri þeir mistök.
Það er oft stutt í vandlætinguna hjá góða fólkinu. Þá breytist ætlað umburðarlyndi í heiftúðlega andúð gagnvart skoðunum þeirra sem horfa öðruvísi á heiminn en með þeirra góðu gleraugum. Þrátt fyrir allt frjálslyndið er alltaf ein skoðun „réttari“ en önnur.
Hinir
Flestir Íslendingar eru einhversstaðar á gráa svæðinu á milli þessarra tveggja póla, en hallast örugglega nær öðrum frekar en hinum. Þeir eru sammála sumu í málflutningi beggja, ósammála öðru og áskilja sér rétt til að hafa ekki skoðun á hinu. En umræðan skilgreinist því miður af pólunum.
Í grunninn eru þetta enn sömu pólitísku átök sem átt hafa sér stað áratugum saman. Einstaklingshyggja á móti heildarhyggju. Íhaldssemi gegn frjálslyndi. Þjóðrækni á móti alþjóðasamstarfi. Frjálshyggja á móti jafnaðarmennsku/sósíalisma.
Upplýsinga- og tæknibylting undanfarinna ára, sem hefur kúvent aðgengi almennings að upplýsingum og umræðu, hefur hins vegar breytt farvegi átakanna. Þau eiga sér ekki lengur stað í gegnum forystumenn stjórnmálaflokka, á kaffistofum eða í fermingarveislum. Þau nú fara fram án milliliða og takmarkana á internetinu.
Mjög áhugavert verður að sjá hvor póllinn verður ofan á eftir næstu kosningar. Hvorki freki kallinn né góða fólkið mun ráða því. Það munu hinir gera.