Þegar ég lít yfir árið, þá sé ég hefðahelguð átök um sömu málefnin og árið þar á undan, áratuginn þar á undan, öldina þar áður. Alltaf það sama í mismunandi búningum nýrra og nýrra leikenda fyrir sömu tegund af ólíkum hagsmunum. Það sem stóð helst upp var m.a. að sú manneskja sem margir hræddust og var oft kölluð Móri er orðin að dúllulegum karli sem enginn óttast lengur. Þá er ljóst að við erum með tvo keisara, annan algerlega nakinn í sinni hubris bólu, takandi einkennilegar ákvarðanir um hluti sem vart falla undir embættið. Sá hinn sami skilur engan og enginn skilur hann og hefur þá þurft að fá sérstakan Útskýrara til að útskýra fyrir þingi og þjóð hvað Keisarinn átti við í alvörunni.
Stjórnarfarið er eins og frekar illa skrifað útþynnt tilbrigði af örsögu eftir H.C. Andersen með Samuel Beckett útfærslu á söguþræði í anda Beðið eftir Godot. Ef maður les gamlar sögur, hvort heldur ævisögur eða skáldsögur eftir Atómskáld, þá er ekki erfitt að sjá að alltaf er tekist á um sömu hlutina, persónur og leikendur mis áhugaverðir eða skilvirkir. Meðal annars þess vegna tók ég þátt í að búa til kerfisbreytingaflokkinn Pírata. Píratar eru hvorki vinstri né hægri flokkur. Það er í raun og veru enginn vinstri né hægri flokkur til, það er þrálát mýta. Spyrja ætti, hvernig samfélag er hérlendis, er það sósíalískt eða er það kapitalískt eða kannski blanda? En hvernig samfélag vill þessi þjóð vera? Ég held að langflestir líti til hins norræna velferðarsamfélags sem það módel sem fólk vill halda áfram að byggja á, þar sem grundvallar þjónusta á að vera fjármögnuð úr sameiginlegum sjóðum.
Ég er mjög fylgjandi því að grundvallar borgararéttindi séu virt en vil helst ekki að kerfið verði foreldri mitt. Ég er EKKI vinstri manneskja, ég er EKKI hægri manneskja, ég er raunsæismanneskja sem á mér stóran draum um samfélag þar sem fólk tekur virkan þátt í að móta bæði nærumhverfi sitt sem og heildræna stefnu um samfélag sitt. Píratar leggja mikla áherslu á að beint lýðræði verði lögfest. Okkar markmið er að yfirfæra meiri ábyrgð og vald til fólksins. Kannski erum við einskonar nútíma Hrói Höttur, sem tekur valdið frá hinum valda-meiru og færir það til fólksins, svona fyrst að við erum að tala um ævintýr í þessari grein. En það er ekki eitthvað sem gerist á einni nóttu né endilega víst að fólk vilji yfirhöfuð þiggja þetta vald, því með valdi fylgir ábyrgð og aðgengi að upplýsingum og þess vegna finnst mér ógæfulegasta þróunin hérlendis á þessu ári vera það sem er að gerast á fjölmiðlamarkaði, en hlutverk fjölmiðla er að stuðla að upplýstri umræðu um mikilvæg þjóðfélagsmál.
Það er mjög lítið ef nokkurt gagnsæi um það hver fjármagnaði t.d. DV og bæjarblöðin sem voru keypt upp á einu bretti. Framsókn eignaðist sitt litla fjölmiðlaveldi sem vex og vex á meðan fótunum er kippt undan RÚV með ótrúlega skringilegum svikum á loforðum ráðherra sem hreinlega var sendur til baka með skottið á milli lappanna á sér eftir ítrekaðar tilraunir til að koma loforði og stefnu sinni í gegnum ríkisstjórnina. En þetta er ekkert nýtt, það virðist ganga illa fyrir ráðherra þessarar ríkisstjórnar að ná fram loforðum sínum vegna þess að það eru stíflur í ríkisstjórnarsamstarfinu sem má ekki segja upphátt hverjar eru en allir vita samt af, þess vegna er þessi keisari nakinn að teikna jólakort í gömlu fangelsi á milli þess að hann leitar að fortíðinni í gömlu eyðibýli á Norð-Austurlandi.
En þó að margt sé hægt að læra af fortíðinni þá búum við í nútíðinni og þurfum að horfa til framtíðar en ekki fortíðar nema til að endurtaka ekki mistök þau sem eru viðvarandi vandamál í stjórnsýslunni okkar, vandamál sem einkennast af voldugu framkvæmdavaldi og óskiljanlegu flækjustigi á öllum sviðum þar sem landlæg spilling fær að grassera án þess að hægt sé almennilega að koma höndum á það né beina kastljósi að vandamálunum, því þessi vefur er orðinn svo samofinn ættarveldum og hagsmunum að ómögulegt er að sá hver ber ábyrgð á hverju.
Píratar hafa áhuga á búa til öðruvísi kerfi sem myndi leysa af hólmi hin gömlu, en það er ekki hægt að gera það nema að kafa ofan í núverandi kerfi og opna þau upp á gátt svo hægt sé að rekja þau í sundur án þess að almenningur líði fyrir það. En áður en til kerfisbreytinga verður snúið þarf að byrja á réttum stað og það eru forsendur kerfis, ramminn, kassinn sem hýsir stýrikerfið. Það vill svo vel til að kassinn er nú þegar til: nýja stjórnarskráin okkar sem var búin til með ríkri aðkomu almennings sem núverandi þing hefur algerlega kosið að hunsa eftir sögulega uppgjöf fyrrverandi þings sem var komin á lokasprettinn og lagði upp laupana þrátt fyrir að leiðin að lokamarkinu hafi verið snertanleg.
En það þurfti þriðja stærsta fjármálahrun heimssögunnar til að vekja fólk til meðvitundar um rétt sinn til að hafa áhrif á valdhafa í krafti fjöldans. Sitjandi ríkisstjórn var vikið frá ásamt seðlabankastjóra og stjórnendur fjármálaeftirlitsins voru þvingaðir til að segja af sér vegna algers vantrausts á þær stofnanir sem þeir fóru með forystu um eftir hrun. Það er einstakt í sögu landsins. Í kjölfar þess þá varð fólk sér meðvitaðri um vald sitt og settar voru fram kröfur um grundvallarbreytingar í samfélagi okkar til að fyrirbyggja að sambærilegir viðburðir gætu átt sér stað að nýju. Kröfurnar endurómuðu í stjórnarskrárvinnu þeirri sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili. Ferlið í þeirri vinnu var algerlega einstakt á heimsmælikvarða vegna aðkomu og samráðs við almenning og frumvarpið sem lagt var fram innihélt valdtilfærslu frá yfirstjórn landsins til fólksins í landinu. Það er því ekkert skringilegt að þeir sem fara fyrir embættum sem um valdtauma landsins hafa haldið um áratugaskeið hafi ekki verið skemmt og gert sitt til að tryggja að þessi stjórnarskrá fólksins færi ofan í dimmustu skúmaskot og allt gert til að tryggja að þetta aðhaldstæki og uppgjör við gamla Ísland yrði aldrei að veruleika.
En hvað er það í nýrri stjórnarskrá sem valdhafar óttast? Er það 6. greinin? Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna. Eða er það 9. greinin: Yfirvöldum ber ætíð að vernda borgarana gegn mannréttindabrotum, hvort heldur sem brotin eru af völdum handhafa ríkisvalds eða annarra. Kannski er það 11. greinin: Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skal tryggð. Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Varla getur það verið 13. greinin; Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög. Vonandi óttast valdhafar ekki 14. greinina; Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að tjá hugsanir sínar. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi. Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu.
Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi. Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna fyrir dómi. Kannski er 15. greinin sem veldur titring í herbúðum keisaranna, kæmi mér ekki á óvart; Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum. Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum. Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af.
Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur. Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda. Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma. Nú eða 16. greinin um Frelsi fjölmiðla; Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum. Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.
Það eru ótalmargar greinar í nýju stjórnsýslunni sem myndi breyta svo miklu og búa til traustari grunn en þessi stöðugi kviksandur sem virðist vera undir stjórnskipan landsins, ráðherragreinarnar eru hrein og bein nauðsyn en lítið um þær fjallað.
I.
86. gr. Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds hver á sínu sviði. Þeir bera hver fyrir sig ábyrgð á málefnum ráðuneyta og stjórnsýslu sem undir þá heyrir. Geti ráðherra ekki fjallað um mál vegna vanhæfis, fjarveru eða annarra ástæðna felur forsætisráðherra það öðrum ráðherra. Enginn getur gegnt sama ráðherraembætti lengur en átta ár.
88. gr. Hagsmunaskráning og opinber störf. Ráðherra er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf á meðan hann gegnir embætti. Sama gildir um störf í þágu einkafyrirtækja og opinberra stofnana þótt ólaunuð séu. Í lögum skal kveðið á um skyldu ráðherra til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.
89. gr. Ráðherrar mæla fyrir frumvörpum og tillögum frá ríkisstjórn, svara fyrirspurnum og taka þátt í umræðum á Alþingi eftir því sem þeir eru til kvaddir, en gæta verða þeir þingskapa. Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi. Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og tekur varamaður þá sæti hans.
90. gr. Stjórnarmyndun. Alþingi kýs forsætisráðherra. Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra. Er hann rétt kjörinn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillöguna. Að öðrum kosti gerir forseti Íslands nýja tillögu með sama hætti. Verði sú tillaga ekki samþykkt fer fram kosning í þinginu milli þeirra sem fram eru boðnir af þingmönnum, þingflokkum eða forseta Íslands. Sá er flest atkvæði hlýtur er rétt kjörinn forsætisráðherra. Hafi forsætisráðherra ekki verið kjörinn innan tíu vikna skal Alþingi rofið og boðað til nýrra kosninga. Forsætisráðherra ákveður skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og skiptir störfum með þeim, en ráðherrar skulu ekki vera fleiri en tíu. Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti. Forseti veitir forsætisráðherra lausn frá embætti eftir alþingiskosningar, ef vantraust er samþykkt á hann á Alþingi, eða ef ráðherrann óskar þess. Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra og veitir þeim lausn. Ráðherrar undirrita eiðstaf að stjórnarskránni þegar þeir taka við embætti.
91. gr. Vantraust. Leggja má fram á Alþingi tillögu um vantraust á ráðherra. Í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans. Ráðherra er veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.
92. gr. Starfsstjórn. Eftir að forsætisráðherra hefur verið veitt lausn ásamt ríkisstjórn sinni situr hún áfram sem starfsstjórn uns ný ríkisstjórn er skipuð. Sama gildir ef þing er rofið. Ráðherrar í starfsstjórn taka aðeins þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til rækslu starfa þeirra.
93. gr. Upplýsinga- og sannleiksskylda. Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd allar upplýsingar, skjöl og skýrslur um málefni sem undir hann heyra, nema leynt skuli fara samkvæmt lögum. Þingmenn eiga rétt á upplýsingum frá ráðherra með því að bera fram fyrirspurn um mál eða óska eftir skýrslu, samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum. Upplýsingar sem ráðherra veitir Alþingi, nefndum þess og þingmönnum skulu vera réttar, viðeigandi og fullnægjandi.
95. gr. Ráðherraábyrgð. Ráðherrar bera lagalega ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Bóki ráðherra andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnar ber hann þó ekki ábyrgð á henni. Ábyrgð vegna embættisbrota þeirra skal ákveðin með lögum. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákveður, að undangenginni könnun, hvort hefja skuli rannsókn á meintum embættisbrotum ráðherra. Nefndin skipar saksóknara sem annast rannsóknina. Hann metur hvort niðurstaða rannsóknarinnar sé nægileg eða líkleg til sakfellingar og gefur þá út ákæru og sækir málið fyrir dómstólum. Nánar skal kveðið á um rannsókn og meðferð slíkra mála í lögum.
Hetja ársins er án efa Umboðsmaður Alþingis. Jákvæð þróun er að fjöldinn allur af mjög frambærilegum óháðum fjölmiðlum hafa sprottið fram og er það einlæg ósk mín að næsta ár muni einkennast af upplýstri umræðu um grundvallarbreytingar þær sem við þurfum að ráðast í til að geta nýtt okkur skapandi hugsun með tækniþróun til að nýta þau tækifæri sem í þeim felast til að búa til réttlátara samfélag þar sem hagsmunir almennings séu hafðir að leiðarljósi til langrar framtíðar en ekki þessi hringavitleysa sem við búum við í dag.
Höfundur er þingmaður Pírata.