Ólafur Ragnar Grímsson hættir senn sem forseti Íslands, eins og hann gerði kunnugt á nýársdag, en forsetakosningar fara fram 25. júní.
Ferill Ólafs Ragnars er merkilegur og það hafa skipst á skin og skúrir á löngum ferli, eins og von er. Hann er líklega slyngasti stjórnmálamaður sem Ísland hefur átt, hvað sem líður skoðunum fólks á honum. Enginn maður í stjórnmálasögu landsins hefur með viðlíka hætti skipt um bakland og eignast framhaldslíf - og sinn áhrifaríkasta tíma - eftir að hafa staðið berskjaldaður og trausti rúinn eftir hrun fjármálakerfisins.
Það gerði hann eftir hrunið, að miklu leyti, þó hann hafi alltaf átt sína hörðu vini og óvini.
Stærsta málið
Eitt atriði sérstaklega, er svartur blettur á hans ferli, að mínu mati, sérstaklega í ljósi þessi hvernig hann beitti málskotsréttinum á ferli sínum, á grundvelli auðskiljanlegra raka sem hann gerði opinber í tilkynningum.
Það er að hafa ekki vísað lögum sem heimiluðu Kárahnjúkavirkjun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru mestu mistök Ólafs Ragnars.
Bygging Kárhnjúkavirkjunar, á grundvelli 40 ára raforkusölusamnings við Alcoa, er stærra mál fyrir Ísland heldur en hin málin sem Ólafur Ragnar vísaði til þjóðarinnar. Fyrst fjölmiðlalögin (sem aldrei fóru alla leið til þjóðarinnar) og síðan Icesave-málin, þar sem þjóðin átti lokaorðið í tvígang. Þessi mál eru ekki jafn stór og langtímasamningurinn við Alcoa, í ljósi stærðarhlutfalla hans í samhengi við þjóðarbúið og orkuauðlindir þjóðarinnar.
Gildir til 2048
Hinn 10. janúar 2003 var samningur við Alcoa samþykktur í stjórn Landsvirkjunar og var samið um 40 ára viðskiptasamning frá fyrsta orkuafhendingardegi, sem er óuppsegjanlegur á þeim tíma. Að loknum 20 árum frá orkuafhendingu - það er árið 2027 - munu aðilar hefja viðræður um mögulegar breytingar á orkuverðinu, en ekkert er fast í hendi í þeim efnum. Núgildandi samningur gildir til árið 2048, eða í 33 ár í viðbót.
Miklu meira virði
Það hefur komið í ljós, að þeir sem gagnrýndu viðskiptasamningana við Alcoa og langtímabindingu þeirra, höfðu rétt fyrir sér. Sér í lagi vegna þess, að orkuauðlind Íslands var miklu meira virði til lengdar litið, heldur en raforkuverðið sem samið var um sagði til um.
Þegar Alþingi samþykkti lög um Jökulsá á Brú og Jökulsá á Fljótsdal, 16. apríl 2002, þá hafði Ólafur Ragnar tækifæri til þess að leyfa þjóðinni að eiga síðast orðið um þessa ráðstöfun á auðlind þjóðarinnar. Ef ekki þá, þá á öðrum tímapunktum þar sem lög voru samþykkt sem heimiluðu framkvæmdina. En það gerði hann ekki, þrátt fyrir að deilurnar um virkjunaráformin séu líklega djúpstæðustu deilur sem farið hafa fram á Íslandi í seinni tíð.
Léttvægt í samanburði
Enginn þarf að efast um að fjölmiðlalögin voru afskaplega léttvæg í samhengi við Kárahnjúkavirkjun. Icesave-málin áttu fullt erindi við þjóðina, enda er henni treystandi til að fara með lokaorðið í stórum málum, en þó ekki jafn skýrt og reyndin var með lögin um Kárahnjúkavirkjun. Þar var stór hluti orkuauðlinda þjóðarinnar undir, og stærri fjárhagslegir hagsmunir í húfi í ljósi áratuga viðskiptasamnings sem virkjunaráformin byggðu á.
Það er með ólíkindum að orkuverðið og samningarnir sem lágu til grundvallar þessari risaframkvæmd - sem kostaði fyrirtæki almennings, Landsvirkjun, vel á annað hundrað milljarða (miðað við núverandi gengi; allt á lánum í erlendri mynt) - hafi ekki legið á borðinu, skýrt og skilmerkilega sett fram fyrir almenning, þegar gengið var frá málinu, Alþingi samþykkti og forsetinn síðan staðfesti. En þannig var það, eins og ótrúlegt og það hljómar nú.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þessum tíma hvað lýðræðisþróun varðar, ekki síst vegna dýpri áhrifa af upplýsingabyltingu sem fylgt hefur sífellt meiri áhrifum internetsins. Vel má hugsa sér að svona yrði málið aldrei afgreitt í dag.
Miklir almannahagsmunir
Til þess að setja hlutina í samhengi, með tölum, þá verður að horfa til þess hversu umfangsmiklir þessir viðskiptahagsmunir eru. Alcoa kaupir 37,5 prósent af þeim megavattstundum rafmagns sem Landsvirkjun selur, en heildar rekstrartekjur Landsvirkjunar í fyrra vegna seldrar raforku námu um 438 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 57 milljörðum króna. Sé miðað við fyrrnefnt hlutfall Alcoa í þessum viðskiptum þá er það ríflega 21 milljarður króna á ári.
Þegar samið var við Alcoa, og lög samþykkt á Alþingi sem heimiluðu þessa mestu ríkisframkvæmd Íslandssögunnar, þá lá fyrir að umhverfisvæn orka Íslands var að vaxa mikið í verði, og eftirspurn eftir henni að aukast.
Ekki síst þess vegna bentu margir þeirra sem gagnrýndu virkjanaframkvæmdirnar málefnalega en af mikilli festu, eins og Guðmundur Páll Ólafsson heitinn, að með þessum viðskiptasamningi við Alcoa væri verið að fara út í risavaxna framkvæmd á grundvelli hagsmuna fyrirtækisins, en ekki komandi kynslóða á Íslandi.
Nú, meira en þrettán árum eftir að lögin um virkjanaframkvæmdirnar voru samþykkt, liggur fyrir að greining þeirra sem voru að gagnrýna viðskiptasamninginn - samhliða náttúruverndarbaráttu - var rétt. Yfirstjórn Landsvirkjunar hefur beinlínis staðfest þetta, og talar nú opinskátt um að ekki sé verjandi að selja raforku á undirverði til álframleiðenda í ljósi þess hversu mikil eftirspurn er eftir orkunni hér á landi og hún mikils virði.
Breytt staða í heiminum
Niðurstaða loftslagsráðstefnunnar í París - sem Ólafur Ragnar vék sérstaklega að í síðasta ávarpi sínu á nýársdag - þar sem náðist samkomulag þjóða heimsins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þrýsta þar með á um að vistvæn orka verði notuð í framtíðinni í meira mæli, meða hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi, eykur enn eftirspurn eftir orku á Íslandi. Til dæmis eru miklir möguleikar fyrir hendi þegar kemur að sölu á raforku um sæstreng, eins og Ólafur Ragnar benti á sjálfur í fyrrnefndu ávarpi. Í þeim viðskiptum er beinlínis opinbert, að margfalt hærra verð fæst fyrir hvert megavatt af rafmagni heldur en álframleiðendurnir greiða.
Það er grátlegt fyrir Ísland að sitja uppi með þennan áratuga óuppsegjanlega samning við Alcoa, í ljósi stöðu mála í orkumálum heimsins og virði orkuauðlinda þjóðarinnar. Það er ekki hægt að segja annað, en að þessi langtímabinding stórs hluta orkuauðlinda þjóðarinnar við Alcoa, sé með verstu afleikjum sem íslenskir stjórnmálamenn hafa komið að. Núverandi kynslóð Íslendinga hefði örlítið hreinni samvisku í málinu ef hún hefði fengið beina aðkomu að málinu í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu. Ólafur Ragnar fékk tækifæri til þess að setja málið í dóm þjóðarinnar en gerði það ekki.