Óhætt er að sega að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra standi nú í ströngu, vegna þrýstings frá hagsmunagæslufólki sjávarútvegsins hér á landi í tengslum við viðskiptabann Rússa gagnvart Íslandi.
Útgerðarfyrirtækin telja að þau verði af tíu til tólf milljörðum árlega, og áhrifin séu mikil í öllu hagkerfinu. Íslandi þurfi að hugsa um sína hagsmuni, og því eigi ekki að taka þátt í þvingunaraðgerðum gagnvart Rússum, svo að það geti opnast fyrir viðskipti þangað.
Gunnar Bragi hefur marg áréttað að fullveldi ríkja sé ekki metið til fjár, og það sé mikilvægt fyrir Íslendinga að muna, að þátttaka okkar í alþjóðasamstarfi bandalagsríkja skipti landið sköpum. Ekki komi til greina að skipta um stefnu í málinu.
Gunnari Braga barst mikilvægur liðsauki, í þessu kalda stríði sínu í dag, þegar sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Robert Cushman Barber, birti grein á vef sendiráðsins og á Facebook síðu þess, sem Morgunblaðið hafði neitað að birta. Þar færir hann rök fyrir mikilvægi þess að halda uppi refsiagðerðum gegn Rússum.
Greinin er eftirfarandi:
Mig langar til þess að bregðast við því sem kom fram í frétt Morgunblaðsins þann 4. janúar sl. um refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn Rússlandi vegna aðgerða þeirra í Úkraínu.
Bandaríkin eru staðföst í þeirri trú sinni að það þurfi að halda áfram refsiaðgerðunum gegn Rússlandi þar til landið uppfyllir skuldbindingar sínar samvæmt Minsk-samkomulaginu. Þessum refsiaðgerðum var komið á til þess að bregðast við alvarlegum brotum á alþjóðlegum reglum og fullveldi þjóða á uppbyggilegan og gætinn hátt án þess að grípa til vopna. Við treystum öll á og verðum að vernda alþjóðlegt kerfi, sem útheimtir virðingu fyrir fullveldi þjóða. Án þessarar grundvallarreglu stafar hætta að okkur öllum. Þess vegna er mikilvægt að allar þjóðir, sem halda grundvallarlögmál réttarríkisins í heiðri, standi saman.
Varðandi það sem kemur fram í greininni um að Bandaríkin hafi sótt um undanþágur fyrir rússneska varahluti í þyrlur langar mig að taka fram að í nóvember 2015 leyfðum við sendingu á slíkum varahlutum sem afganski herinn þarfnaðist fyrir Mi-17 þyrlur sínar. Þessir varahlutir féllu undir refsiaðgerðir er snúa að takmörkun á útbreiðslu gereyðingarvopna, sem settar voru á samkvæmt bandarískum lögum um slíkar takmarkanir að því er varðar Íran, Norður-Kóreu og Sýrland. Þessir varahlutir falla ekki undir refsiaðgerðir vegna Úkraínudeilunnar. Þessi aðgerð hafði þann takmarkaða og ákveðna tilgang að aðstoða öryggissveitir Afgana í baráttu sinni gegn hryðjuverkum.
Bandaríkin, líkt og Ísland og aðrar þjóðir, hafa fundið fyrir afleiðingum refsiaðgerðanna vegna Úkraínudeilunnar og gagnaðgerðum Rússa. Við vitum að þessu fylgir kostnaður. Sem dæmi má nefna að á milli áranna 2014 til 2015 minnkaði útflutningur frá Bandaríkjunum til Rússlands stórlega vegna refsiaðgerðanna, og varð landbúnaðurinn fyrir mestum skakkaföllum.
Við sýnum því skilning að aðgerðirnar hafa haft áhrif á íslenskan sjávarútveg og vitum að þær geta haft þungbær áhrif á sum byggðarlög á landsbyggðinni. Engu að síður teljum við mikilvægt að við sem bandamenn í Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) höldum áfram að standa vörð um nauðsynlegar grundvallarreglur sem eru í húfi ef við ætlum að draga úr árásargirni og viðleitni til að breyta landamærum með vopnavaldi.“
Þetta er skýrt, og vel fram sett hjá sendiherranum. Spennandi verður að fylgast með því, hvort átakalínurnar í utanríkisþjónustunni íslensku, milli útgerðarinnar og síðan sjálfrar utanríkisstefnunnar sjálfra, verða enn skýrari en þær eru nú þegar orðnar.