Í pælingum Kjarnans hinn 9. janúar 2016, er vitnað í eftirfarandi orð sem féllu á fundi Samtaka Atvinnulífsins: „Á sama tíma er öldruðum að fjölga ört, sem kallar á endurskoðun heilbrigðiskerfisins“. Fróðlegt er að skoða hvað gert er í heilbrigðiskerfinu í ljósi þessara orða.
Besta leiðin til að bregðast við fjölgun aldraðra, er að stuðla að því að þeir haldi heilbrigði sínu, hreysti og atgervi sem allra lengst. Því er það afar sérstakt að sá geiri heilbrigðiskerfisins, sem helst stuðlar að því, er skorinn niður við trog sem aldrei fyrr. Þar er ég að tala um sjúkraþjálfun.
Á hrunárunum var skorið meira niður í endurhæfingu/sjúkraþjálfun en nokkrum öðrum geira heilbrigðiskerfisins. Síðan þá hefur lítið verið bætt í og jafnvel skorið enn meira niður. Nefni ég því til dæmis lokun endurhæfingarrýma Hrafnistu á síðasta ári, lokun fjórðungs endurhæfingarrýma á Kristnesi við Akureyri sem tilkynnt var í desember sl. og nú síðast uppsögn á aðstöðu sjúkraþjálfara á hjúkrunarheimili Vopnafjarðar, eina sjúkraþjálfarans í byggðarlaginu.
Ekki er þetta eina hindrunin sem mætir þeim sem þarf á sjúkraþjálfun að halda, heldur var sett reglugerð, sem gerir það að verkum að almennur sjúklingur fær enga niðurgreiðslu á þjónustu sjúkraþjálfara fyrstu 5 meðferðarskiptin og þarf því að greiða þau að fullu úr eigin vasa.
Gríðarlega mikilvægt er að eldri borgarar hafi greiðan aðgang að sjúkraþjálfun. Það dytti vonandi engum í hug að rífa lyf af öldruðum einstaklingi sökum sparnaðar, en rétt er að benda á að meðferð sjúkraþjálfara, þjálfun og æfingar er engu minni meðferð við mörgum þeim kvillum sem hrjá aldraða en lyf. Rannsóknir hafa sýnt að áhrif þjálfunar og hreyfingar hefur gríðarlega jákvæð áhrif á líkamlega færni og andlega líðan eldra fólks og því hefur verið haldið fram að væri til lyf sem hefði jafn breiðvirk meðferðaráhrif og þjálfun, væri það kallað kraftaverkalyf.
Rannsóknir hafa sýnt að aldraðir sem njóta þjálfunar eru mun líklegri til að geta verið heima lengur, ekki síst ef þeir í framhaldi fá þjónustu sjúkraþjálfara heim. Sjúkraþjálfun á hjúkrunarheimilum er ekki síður mikilvæg. Þjálfun sem gerir öldruðum einstaklingi kleift að vera sjálfbjarga á salerni í stað þess að þurfa aðstoð 1 – 2 aðstoðarmanna getur ekki annað en verið sparnaður, að ógleymdum þeim auknu lífsgæðum sem slíkt felur í sér. Þessi sparnaður kemur hins vegar ekki fram á fyrsta degi og er því freistandi fyrir aðþrengda framkvæmdastjóra hjúkrunarheimila að spara aurinn með því að skera niður þjónustu sjúkraþjálfunar. Sú staðreynd að með því sé krónunni hent er gert að seinni tíma vandamáli.
Sé ráðamönnum alvara í því að bregðast á skynsamlegan hátt við fjölgun aldraðra þá er stórfelld efling sjúkraþjálfunar og almennrar endurhæfingar lykillinn að lausn þess stóra verkefnis.
Höfundur er formaður Félags sjúkraþjálfara.