Kristín Þorsteinsdóttir, ritstjóri fréttastofu 365, gerir leiðara sem skrifaður var á Kjarnann á miðvikudag og umræður sem áttu sér stað í Morgunútvarpi Rásar 2 á fimmtudagsmorgun um viðtal við fanga á Kvíabryggju að umtalsefni í Fréttablaðinu í dag. Þar ætlar hún mér ýmislegt sem vert er að svara fyrir.
Svo virðist sem ritstjóri 365 hafi einfaldlega ekki hafa lesið leiðarann eða hlustað á viðtalið sem hún vitnar í og gagnrýnir. Hún leggur út frá því að skrifin hafi snúist um að ákvörðun fréttastofu hennar um að taka viðtal við þrjá menn sem hafa verið dæmdir til þungrar refsingar í Al Thani-málinu svokallaða hafi verið liður í samsæri. Því fer fjarri.
Fyrirsögn leiðara Kjarnans - Stóra samsærið - vísar í það að þeir sem hafa verið dæmdir í fangelsi vegna hrunmála líta svo á að samfélagið allt hafi framið samsæri gegn þeim, ekki að viðtalið sjálft hafi verið slíkt samsæri.
Þá sagði í leiðara Kjarnans að viðtalið hafi verið liður í herferð sem gengur út á að mennirnir hafi verið dæmdir að ósekju og að á Íslandi sé ekki alvöru réttarríki fyrst það hafi verið niðurstaða dómstóla. Þar er átt við það sem mennirnir sögðu í viðtalinu, ekki tilurð viðtalsins sjálfs. Það kemur skýrt fram.
Í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 á fimmtudag kom skýrt fram í mínum orðum að það væri ekkert athugavert við það að taka viðtal við menn sem afplánuðu refsingu. Fyrir því eru mörg fordæmi. Raunar hafi viðtalið verið mjög athyglisvert, vegna þess sem viðtalsefnin sögðu um meinta aðför nánast alls samfélagsins gegn sér. Það er því beinlínis rangt að ætla mér að hafa haldið því fram að viðtal sem þetta eigi ekki rétt á sér.
Þá gerði ég aldrei lítið úr fréttamanninum sem tók viðtalið, enda veit ég nákvæmlega hvaða kostum hann býr yfir. Ekkert í leiðaranum segir hann vera þátttakanda í einu eða neinu, heldur segir mjög skýrt að viðtalið - skilaboðin sem viðtalsefnin komu á framfæri – væri liður í skipulagðri herferð. Ég var enn síður að gera lítið úr þeim blaða- og fréttamönnum sem starfa á miðlum 365. Þar starfar mjög öflugur hópur heiðarlegra fjölmiðlamanna. Ég ætla þeim sannarlega ekki að vera peð eða ganga erinda eins eða neins.
Ég hef hins vegar þá rökstuddu skoðun að þeir starfi við afleitar aðstæður vegna þess að stjórnandi þeirra taki þátt í herferð sem snýst að hluta um frelsi þess manns sem stýrir fyrirtækinu öllu. Sú þátttaka birtist, að mínu mati, í fréttamati og skoðanaskrifum ritstjórans.
Mitt huglæga mat
Það er sannarlega ekki fólgin nein vænisýki í þeirri ályktun. Mjög öflugur hópur lögmanna, almannatengla og annarra sem tengjast mönnum sem hlotið hafa dóma í hrunmálum er, og hefur mjög reglulega um langt skeið, skrifað greinar, veitt viðtöl eða nýtt samfélagsmiðla til að koma á framfæri þeim skilaboðum að framið hafi verið réttarmorð á þeim sem hafa verið dæmdir til fangelsisvistar í hrunmálum. Ég skil það líka mjög vel að vel gefið fólk sem hefur bæði efni á og færi til að berjast fyrir frelsi sínu með öllum tiltækum ráðum geri það.
Mitt huglæga mat er hins vegar það að þessi herferð birtist einnig mjög skýrt í völdum fréttum og skoðanagreinum í tveimur af stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækjum landsins. Mitt huglæga mat er það að æðsti stjórnandi fréttastofu 365 hafi sýnt það í verki að hún slái sama takt og hinn öflugi hópur sem þátt tekur í herferð dæmdu mannanna. Það eru margir fleiri sem hafa þá skoðun að öflugum miðlum 365 hafi verið beitt af stjórnendum sínum með þessum hætti gegn dómskerfinu. Meðal annars fyrrum dómsmálaráðherra landsins.
Það er mitt huglæga mat að þetta hafi ritstjórinn sýnt í leiðaraskrifum í apríl í fyrra, þar sem hún ákvað meðal annars að segja frá innihaldi aðsendrar greinar eftir dómara í Aurum-málinu þrátt fyrir að dómarinn hafi ákveðið að birta greinina ekki. Í leiðaranum sagði m.a.: „Það er nauðsynlegt að upplýsa hvort sérstakur saksóknari laug þegar hann sagðist ekki hafa vitað um tengsl Sverris og Ólafs Ólafssonar. Niðurstaða Hæstaréttar er óboðleg, og má ekki verða endahnútur þessa máls. Nú taka fjölmiðlar við."
Þessi skrif rímuðu mjög við skrif hennar á opinberum vettvangi sem birst höfðu áður en Kristín varð ritstjóri.
Einn sakborninga í Aurum-málinu svokallaða, er Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður eiganda 365 og sá sem stýrir fyrirtækinu. Máttur fjölmiðla 365 er gríðarlega mikill og skoðanamyndandi, enda öflugasta net sjónvarps-, útvarps-, prent- og netfjölmiðla sem til er á Íslandi.
Þegar ritstjóri fréttastofu stærsta einkarekna fjölmiðils landsins segir: „Nú taka fjölmiðlar við“ varðandi endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í máli sem snertir eiginmann eiganda miðilsins, sem ritstjórinn hefur unnið fyrir árum saman í ýmsum störfum, þá er það mitt huglæga mat að standa ekki á sama.
Einhliða framsetning
Í kjölfar þessa kom mikill uppsláttur Fréttablaðsins, stærsta dagblaðs landsins, á fréttum um að Ólafur Ólafsson hefði einungis verið dæmdur í fangelsi á grundvelli þess að um „rangan Óla“ hafi verið rætt í símtali sem rætt er um í dómi Hæstaréttar. Allir sérfræðingar sem blaðið ræddi við um þessa túlkun sína voru aðilar sem höfðu bein tengsl við sakborninga eða höfðu áður tjáð sig um að þau brot sem þar væru undir væru alls ekkert lögbrot, löngu áður en að niðurstaða dómstóla lá fyrir. Þessum fréttaflutningi var fylgt eftir með frekari leiðaraskrifum þar sem tekið var undir þá túlkun.
Það er mitt huglæga mat, eftir að hafa lesið dóm Hæstaréttar í Al Thani-málinu og ráðfært mig við ýmsa löglærða menn, að slík einhliða framsetning sé í besta falli til þess fallin að afvegaleiða lesendur sem hafa ekki lesið dóminn eða rætt við sérfræðinga um hann. Að ákvörðun stjórnanda fjölmiðilsins um að keyra á þessari framsetningu í forsíðufréttum í Fréttablaðinu dag eftir dag hafi ekki verið til þess að upplýsa lesendur heldur hluti af herferð sem miðar að því að grafa undan trúverðugleika íslenska réttarkerfisins. Þetta mat var einnig hægt að rökstyðja vegna þess að Hæstiréttur var að fara að taka fyrir mál tengt Jóni Ásgeiri nokkrum dögum eftir að öll þessi umfjöllun Fréttablaðsins átti sér stað.
Varðandi hitt fjölmiðlafyrirtækið sem nefnt var í samhengi við umrædda herferð þá er það mitt huglæga mat að ýmis skrif sem þar hafi birst sýni svart á hvítu að stjórnendur þess hafa tekið mjög harða afstöðu með því að ekkert réttaríki sé á Íslandi vegna hrundóma.
Að rannsóknir á hendur bankamönnum séu „ofsóknir“ og að niðurstaða þeirra sé réttarmorð. Þessi skoðun birtist ítrekað í leiðurum í DV og er því ekkert leyndarmál. Hún birtist meira að segja í Völvu blaðsins fyrir árið 2016 og henni hefur síðan verið haldið á lofti fréttasíðum sem tengjast DV.
Mismunandi afsláttur
Í leiðara ritstjóra Fréttablaðsins í dag segir hún að engin herferð sé í gangi, þótt hún hafi varað við stemmningu gagnvart ákveðnum þjóðfélagshópi í fyrri leiðurum sínum. „Í því felst ekki sú skoðun að ekki skuli rannsaka lögbrot, heldur ábendingar um að stigið skuli varlega til jarðar og hvergi gefinn afsláttur af reglum réttarríkisins,“ segir Kristín.
Það er erfitt að skilja þessa pillu. Ég hef aldrei haft fyrirfram mótaðar skoðanir gagnvart niðurstöðu dómsmála. Það blasti aldrei við í mínum huga að það væri sjálfgefið að brot hrunmanna væru ólögleg. Dómstólar hafa hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að svo sé.
Í skrifunum sem ritstjórinn er að gagnrýna er líka skýrt kallað eftir opinni efnislegri umræðu fagmanna um niðurstöður dóma í stað þess að umræðan sé einhliða á þann veg að réttarkerfið sé ónýtt vegna þess að það dómar í hrunmálum hafi skilað sakfellingum.
Við Kristín erum alveg sammála um að enginn afsláttur eigi að vera gefinn af reglum réttaríkisins, en á mismunandi forsendum. Ég er þeirrar skoðunar að réttarríkið sé ekki sjálfkrafa ónýtt þegar ríkir menn eru dæmdir í fangelsi á meðan að ritstjóri 365 er þeirrar skoðunar að það séu einmitt slíkar niðurstöður sem ónýti réttarríkið.