Eitt af því sem ég áttaði mig á, þegar ég kom til New York í fyrsta sinn, var að þarna var ég staðarkunnugur. Umhverfið á mörgum stöðum í borginni var ekki nýtt fyrir mér, og jafnvel smáatriði í daglegu lífi, eins og staðsetningar á tilteknum bekkjum í almenningsgörðum, pylsuvagnar á götuhornum, götuskilti eða litlar verslanir, virtust kunnugleg. Hvers vegna er þetta?
Ástæðan fyrir þessum hughrifum mínum er meðal annars sú að New York er fyrir augunum í gegnum afþreyingariðnaðinn svo til alla daga. Í mínu tilfelli, verandi á 36. aldursári, þá var New York-skotin menning sérstaklega áhrifamikil í gegnum afþreyingariðnað og tísku á árunum 1990 til 2000. En það hafa komið mörg slík skeið á undanfarinni öld, þar sem menningar- og listastraumarnir frá borginni hafa kryddað tilveru fólks um allan heim, og verið áhrifamiklir í mótun tíðarandans.
Nokkrir staðir í borginni, sem lifnuðu við í huganum, voru sérstaklega eftirminnilegir, og ég spurði mig hvers vegna ég kannaðist við þá, hvar þeir höfðu birst.
Ljóslifandi höfðu þeir birst mér í gegnum menningar- og listastrauma sem tengjast borginni órjúfanlegum böndum.
Það er þannig með menningar- og listastarf að það verður seint metið til fjár af einhverri nákvæmni, og oft er það ósýnilegt. Þegar fólk er farið að efast um gildi þess, þá er hollt að staldra við og horfa í kringum sig. New York er ekki einstök hvað þetta varðar, heldur frekar boðberi þessara tíðinda og staðfesting á mikilvægi þeirra.
Grand Central
Stórvirkið Grand Central er með mögnuðustu byggingum New York borgar. Hún hefur verið vettvangur ótal listgjörninga í gegnum tíðina. Meðal annars má nefna lokasenuna í Carlitos Way, frá 1993, þar sem Benny Blanco frá Bronx hverfinu birtist skyndilega.
Litla Ítalía
Kvikmynd Martin Scorsese, Goodfellas, kemur upp í hugann hér, og einnig myndirnar um Guðföðurinn. En það sem ég tók eftir helst var að kvikmyndin Leon eftir Luc Besson, frá 1994, þar sem Gary Oldman biður undirmann sinn um að ná í „alla“ til að stöðva Leon, gerist þarna öll. Í myndinni eru falleg skot af götumyndinni og húsunum sömuleiðis, ekki síst þegar leigumorðinginn þrammar með tólf ára stúlku sér við hlið – og kaktusinn – milli gistiheimila.
Empire State
Myndirnar af verkamönnunum sem voru lausir við lofthræðslu eru vissulega eitt af því sem kom upp í hugann, þegar upp í Empire State var komið. En einn áhrifamesti listamaður Bandaríkjanna – og New York borgar um leið – rapparinn Jay Z, hefur líka fengið mann til að muna vel eftir Empire State, og mörgum öðrum kennileitum borgarinnar. Alicia Keys, sem syngur lagið Empire State of Mind, er líkt og Jay Z fædd og uppalin í New York. Hún er jafnframt á lista yfir frægustu „drop out“ nemendur í Columbia háskóla. Hún hætti eftir mánuð í háskólanáminu og ákvað að einbeita sér að tónlistarferlinum, sem þá þegar var á fleygiferð.
47. stræti, vestanmegin
Það kann að hljóma undarlega, en ég kannaðist eitthvað við mig á 47. stræti, þegar ég kom þangað fyrst. Það voru myndir sem maður sá þar sem ég hafði séð áður. Martin Scorsese, hver annar, leikstýrði meistaraverkinu Taxi Driver, frá 1976 með Robert De Niro í aðalhlutverki, og fóru tökur að miklu leyti fram á þessu svæði. Magnþrungin spenna myndarinnar, og eftirminnileg samtöl, koma þarna upp í hugann.
Central Park
Margt er hægt að telja til hér – ótalmargar senur, tónlistarmyndbönd og fleira – en ég sá John McClane koma akandi á taxa, skapandi stórhættu, í gegnum garðinn.
Manhattan
Sjónvarpsþættirnir Sex and The City eru fyrir löngu búnir að skapa sér sess í sögu sjónvarpsþáttanna. Þeir gefa góða innsýn í lífið á Manhattan. Þegar út fyrir það svæði er farið, dregur yfirleitt til tíðinda í þáttunum. Samanber þegar Miranda Hobbes ákveður að flytja til Brooklyn. Sem var auðvitað óhugsandi.
Madison Square Garden
Þegar John Starks tróð yfir Chicago Bulls, í úrslitakeppninni 1993. Ef það var eitthvað sem ég man sterkt eftir úr æsku, sem tengist New York, þá eru það viðureignir New York Knicks og Chicago Bulls í úrslitakeppni NBA-deildarinnar. Allt var reynt til að stoppa Michael Jordan og félaga, en sigurinn lenti yfirleitt að lokum hjá Bulls. Jordan lék sjaldan betur en í Madison Square Garden, en hann er fæddur og uppalinn í New York, nánar tiltekið í Brooklyn.
Wall Street
Það er auðvelt að nefna Wall Street eftir Oliver Stone, frá árinu 1989 hér. Það var ekki það sem kom upp í hugann, heldur tiltekið atriði úr kvikmyndinni. Þegar Gordon Gekko heldur ræðu á hluthafafundi, og segir þau fleygu orð; „græðgi er góð“. Hann gleymist stundum að hann bætt við; „græðgi er rétt“. Að lokum fór þó illa fyrir honum.
Plaza Hotel
Það var ekki ég sem fékk flugu í höfuðið þegar þetta hótel blasti við, við Central Park skammt frá 59. stræti. Heldur sonur minn. Þarna kom Kevin sér fyrir í Home Alone 2, og hafði það fínt, eftir að hafa átt stutt samtal við Donald Trump. Það er árlegur viðburður hjá hótelinu að leyfa fólki að koma við og taka myndir, til að máta sig í jólastemmninguna sem Home Alone kallar fram hjá mörgum.
Coney Island Boardwalk
Darren Arronofsky ber ábyrgð á því að þetta svæði virtist kunnuglegt. Í hinni mögnuðu, en jafnframt átakanlegu, Requiem For a Dream, gengur Jared Leto um svæðið sem fíkniefnasjúklingurinn Harry Goldfarb.