Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók á móti fyrsta hópi sýrlenskra flóttafólksins sem boðin hefur verið búseta á Íslandi þegar hópurinn lenti á Keflavíkurflugvelli síðdegis í dag.
Í tilkynningu sagði forsætisráðherra að honum þætti „ánægjulegt að hafa getað átt stund með fjölskyldunum svo stuttu eftir komu og að hann voni að þeim eigi eftir að líða vel á Íslandi. Áhersla yfirvalda verði á að hjálpa flóttamönnum að byggja upp líf í nýjum heimkynnum, aðlagast íslenskum aðstæðum og að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.“ Sigmundur Davíð óskaði nýju Íslendingunum í kjölfarið alls hins besta á Íslandi.
Ekkert hafði verið gefið út um að Sigmundur Davíð ætlaði að taka á móti hópnum, og verður að segjast að það er vel gert hjá forsætisráðherra. Það sýnir vel hversu alvarlega Íslendingar taka mótttöku flóttamannanna að leiðtogi ríkisstjórnar landsins taki á móti þeim og gefi sér tíma til að taka myndir af sér með þeim fjölmörgu sýrlensku börnum sem tilheyra 35 manna hópnum.
Þar fetar Sigmundur Davíð í fótspor Justin Trudeau, hins ferska forsætisráðherra Kanada, sem tók á móti fyrsta hópi 25 þúsund sýrlenskra flóttamanna sem Kanada ætlar að taka við í desember síðastliðnum. Mótttaka Trudeau vakti heimsathygli, enda bretti forsætisráðherrann ungi bókstaflega upp ermarnar og eyddi drjúgum tíma með hinum nýju íbúum lands síns auk þess sem hann færði þeim ýmsar nytsamlegar gjafir á borð við vetrarfatnað.