Hinn 24. september í fyrra greindi Kjarninn frá því að Landsbankinn, sem ríkið á rúmlega 98 prósent hlut í, neitaði að gefa um söluverð á 0,41 prósent hlut í Borgun sem seldur var í opnu söluferli, ólíkt því sem gert var um ári fyrr þegar 31,2 prósent hlut í Borgun var seldur til valinna fjárfesta, eins og kunnugt er og er nú mikið til umræðu, eftir ljóst þykir að kaupendur þess hlutar gerðu reyfarakaup.
Landsbankinn hyggst taka saman ítarlega samantekt um söluna á hlutnum í Borgun, og afhenda hana Alþingi.
Vonandi mun bankinn núna breyta algjörlega um stefnu þegar kemur söluverðinu á 0,41 prósent hlutarins. Því það skiptir máli að skoða hvaða verð fékkst fyrir hlutinn, í samanburði við það þegar 31,2 prósent hluturinn var seldur.
Landsbankinn auglýsti til litla hlutinn til sölu í maí í fyrra og seldi að lokum til félagsins Fasteignafélagið Auðbrekka 17 ehf., sem Guðmundur Hjaltason er í forsvari fyrir samkvæmt gögnum Ríkisskattstjóra. Þrír aðilar sýndu því áhuga að eignast hlutinn og komu þrjú tilboð í hann. Hluturinn var að lokum seldur hæstbjóðanda, að því er bankinn hefur upplýst, en eins og áður segir neitar bankinn að gefa upp á hvaða verði hluturinn var seldur, og ber því við að samkvæmt sölusamningi þá geti bankinn ekki upplýst um verðið nema með samþykki kaupanda.
Þann 29. mars 2015 var Sparisjóður Vestmannaeyja ses. sameinaður Landsbankanum hf. Við sameininguna eignaðist bankinn 1.806.611 hluti í Borgun hf. Eignarhluturinn nam um 0,41 prósent af heildarhlutafjár í félaginu.
Svar Landsbankans við fyrirspurn Kjarnans var þetta: „Hlutabréfin voru seld hæstbjóðanda. Verðið var í samræmi við verð í sölu Landsbankans á hlutabréfum í Borgun árið 2014, að teknu tilliti til arðgreiðslu og ávöxtunar á hlutabréfamarkaði í millitíðinni.“ Engar frekari eða nákvæmari upplýsingar fengust frá bankanum um hvert söluverðið hefði verið.
Þessi seinni hluti svarsins er um margt þokukenndur og erfitt að átta sig á því, hvað bankanum gengur til með honum. Borgun er ekki skráð á markað, og þá var arðgreiðslan úr félaginu, um fjórum mánuðum eftir að Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlutinn, upp á 800 milljónir króna, sú fyrsta úr félaginu frá árinu 2008. Það liggur lítið fyrir um það, hvað má lesa í það að arðgreiðslan hafi átt sér stað.
Eins og nefnt var hér að ofan, þá vonandi sér Landsbankinn nú - þegar öll spjót standa á bankanum - sóma sinn í því að upplýsa um hvernig hlutafé Borgunar var verðlagt þegar bankinn stóð fyrir opnu söluferli, svo það sé mögulega hægt að sjá hvort það er einhver munur á því verði, og því sem var þegar 31,2 prósent hlutur var seldur á 2,2 milljarða til valins hóps fjárfesta.