Innleiðingartími notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar var nýlega framlengdur um ár, öðru sinni. Umfjöllun um þessa framþróun í lífskjörum fatlaðs fólks hefur annars vegar fjallað um inntak þjónustunnar og hins vegar um krónur og aura. Um hið fyrrnefnda virðist ríkja sú almenna skoðun að NPA sé góður kostur, fólk öðlist aukna stjórn á eigin lífi og möguleikar þess til virkrar samfélagsþátttöku eflist. Um hið síðarnefnda heyrast oftar efasemdaraddir, þess efnis að hið nýja þjónustuform skapi aukinn kostnað.
Ábyrgð sveitarfélaga snýr að báðum þáttunum, gæðum og kostnaði. Sveitastjórnum ber að tryggja að þjónustan sé fagleg og í það minnsta jafngóð og aðrir kostir. Okkur ber jafnframt að tryggja að vel sé farið með almannafé og að hægt sé að færa gild rök fyrir ráðstöfun þess til allra handa verkefna.
Mannréttindi kosta
Mat á því hvort NPA feli í sér sparnað, óbreytt eða aukin útgjöld af hálfu sveitarfélaga er ekki allskostar einfalt og mikilvægt að það sé skoðað í víðu samhengi.
Í fyrsta lagi gætum við spurt okkur hvort réttmætt sé að krefjast þess að NPA kosti jafnmikið eða minna en önnur þjónusta. Höfum við hingað til verið að veita nógum eða of miklum fjármunum til þjónustu við fatlað fólk? Má þjónusta sem eykur sjálfstæði og sjálfræði einstaklinga kosta meira? Svari nú hver fyrir sig.
Sparnaður milli kerfa
Heilbrigðisþjónusta er á hendi ríkisins en þjónusta við fatlað fólk hjá sveitarfélögum. Ég treysti mér til að fullyrða að aðgengi að NPA þjónustu geti dregið úr notkun á úrræðum heilbrigðiskerfisins bæði hvað varðar innlagnir og lyfjanotkun. Breytt þjónusta af hálfu sveitarfélaga getur með öðrum orðum lækkað kostnað ríkisins þvert á málaflokka. Ég myndi vilja sjá þennan þátt reiknaðan inn í dæmið þegar mat er lagt á fjárfestingu í NPA.
Sparnaður hjá sveitarfélögum
Í NPA kemur þjónustan til notandans, öfugt við að notandinn komi til þjónustunnar eins og annars væri. Greitt er fyrir mönnun, ekki kaup eða rekstur innviða.
Bygging og rekstur húsnæðis af hálfu sveitarfélags er með öðrum orðum ekki forsenda fyrir veitingu NPA þjónustu, en oftar en ekki eru slíkir innviðir forsenda fyrir öðrum þjónustuformum. Þetta þarf að skoða þegar kostnaður ólíkra þjónustforma er borinn saman.
Fyrir hverja er NPA?
Ljóst er að NPA sem þjónustuform er komið til að vera, enda forræðishyggja og stofnanavæðing gagnvart fötluðu fólki góðu heilli á undanhaldi.
Núverandi innleiðingarverkefni var hugsað til tveggja ára og afmarkað hvað fjölda þátttakenda varðar. Slík takmörk er hægt að réttlæta til skamms tíma, en til lengri tíma litið leiða þau til misskiptingar gagnvart notendum. Sveitarfélög verða að geta boðið íbúum þjónustu á jafnræðisgrunni og því afar bagalegt að settar skuli hafa verið skorður á greiðsluþátttöku ríkisins gagnvart nýjum notendum í NPA. Hér þarf að taka af skarið sem fyrst og tryggja fötluðu fólki jöfn tækifæri.
Hafnarfjörður
Fjölskylduráð Hafnarfjarðar hefur að undanförnu unnið að samanburði á NPA og annarri þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu. Reynslan af þessari nýsköpun í opinberri þjónustu hefur verið jákvæð og Hafnarfjörður staðið framarlega hvað innleiðinguna varðar.
Nota þarf tímann vel á innleiðingatímanum sem nú hefur verið framlengdur öðru sinni og fá af því skýra mynd hvernig NPA reynist, faglega ekki síður en fjárhagslega. Í því samhengi skulum við ekki bara spyrja hvað NPA kostar, heldur líka hvað hún sparar.
Því fyrr sem framtíð þjónustuformsins er fest í sessi því betra, því sveitarfélögin verða að geta boðið íbúum jöfn tækifæri.
Höfundur er formaður fjölskylduráðs Hafnarfjarðar og forseti bæjarstjórnar.