Undanfarna mánuði hefur lítið borið á umfjöllun um gengistryggð lán í fjölmiðlum. Svo lítið að ætla mætti að deilur um slík lán væru allar leystar. Flestum deilum lauk auðvitað í kringum árið 2012. Þeir sem fylgst hafa með umfjöllun um endurútreikning gengistryggðra lána vita þó að ein lánastofnun, Lýsing hf., stóð lengi á annarri skoðun en önnur fjármálafyrirtæki og endurreiknaði lánasafn sitt eftir aðferðum sem voru lántökum óhagstæðari. Hæstiréttur staðfesti svo þann 5. mars 2015 að útreikningar Lýsingar væru ekki í samræmi við lög. Í kjölfarið voru gerðar dómsáttir í hundruðum mála gegn Lýsingu sem sett höfðu verið á bið í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Þarf lántaki að eiga frumkvæði?
Ætla hefði mátt að eftir þetta allt myndi Lýsing endurreikna lánasafn sitt, leiðrétta stöðu lána og endurgreiða þeim sem ofgreitt höfðu. Það höfðu hin fjármálafyrirtækin gert fyrir löngu. Sú varð hins vegar ekki raunin. Þess í stað ákvað Lýsing að endurreikna eingöngu lán þeirra sem sérstaklega óskuðu eftir því. Eflaust er því nóg til af fólki sem á kröfu á hendur Lýsingu en gerir sér ekki grein fyrir því og aðhefst því ekkert. Þetta geta ekki þótt góðir viðskiptahættir af hálfu Lýsingar. Afstaða fyrirtækisins virðist þó vera sú að lántaki þurfi að eiga frumkvæðið að endurútreikningum. Önnur fjármálafyrirtæki standa á öndverðum meiði.
Villandi skeyti
Annað er þó verra en framangreint og er það tilefni greinar þessarar. Nýlega tók Lýsing upp á því að senda ákveðnum lántökum skeyti. Um er að ræða fólk sem var með bílalán sem rift var vegna vanskila. Í skeytum þessum kemur fram að eftir fyrrnefnda dóma Hæstaréttar frá 5. mars 2015 séu réttarreglur um endurútreikninga lána orðnar skýrari. Þá er tilgreind skuld sem sundurliðuð er í höfuðstól og dráttarvexti og gefið upp reikningsnúmer sem greiða má inn á til að gera upp skuldina. Skuldin sem tilgreind er hefur hins vegar ekki verið endurreiknuð í samræmi við dómana sem vísað er til í skeytunum. Lýsing krefst því greiðslu á kröfu sem Lýsingu er fyllilega ljóst að hafnað yrði fyrir dómi. Fólk er í raun krafið um að greiða peninga sem það skuldar ekki. Ekki nóg með það heldur gefur tilvísun Lýsingar til dóma Hæstaréttar fólki tilefni til að ætla að búið sé að endurreikna lánin í samræmi við þessa dóma.
Hvort Lýsing hafi með þessu brotið lög þannig að það varði refsingu eftirlæt ég Fjármálaeftirlitinu og dómstólum að meta. Lesendur geta hins vegar sjálfir skoðað þessi tvö lagaákvæði og myndað sína eigin skoðun.
248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940
Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.
1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki
Fjármálafyrirtöku skal starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.
Því er svo við þetta að bæta að þessi skeyti varða oft samninga sem rift var fyrir mörgum árum. Það mætti því spyrja hvort það sé fjármálafyrirtæki sæmandi að láta svona kröfur liggja árum saman og safna dráttarvöxtum án þess að senda svo mikið sem greiðsluáskorun.
Verðmat á bifreiðum
Enn eitt sem vert er að benda á er það uppgjör sem Lýsing lét fara fram eftir riftun bílalána. Það fór oft þannig fram að bifreið lántakans var tekin, verðmetin lágt og frá verðinu dregin áætlaður viðgerðarkostnaður og fleira. Fjárhæðin sem þetta mat skilaði var svo dregin frá ætlaðri skuld lántakans og kostnaði vegna riftunarinnar. Hin ætlaða skuld lækkaði því oft lítið sem ekkert við það að bifreiðinni væri skilað. Þessi aðferð við uppgjör verður sérstaklega ósanngjörn þegar haft er í huga að ástæða þess að vanskil urðu var oft sú að greiðslubyrði lánanna hafði hækkað mjög vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar. Svo eru væntanlega einhver tilfelli þar sem samningum var rift og bifreiðar lántaka teknar þrátt fyrir að í raun hafi það verið Lýsing sem skuldaði lántakanum en ekki öfugt.
Eitt er í öllu falli víst. Viðskiptavinum Lýsingar er enn ekki óhætt að treysta Lýsingu og hafa fullt tilefni til að athuga stöðu sína. Augljóslega hefur hegðun Lýsingar undanfarin ár og sú fjölmiðlaumfjöllun sem henni hefur fylgt skaðað vörumerki Lýsingar. Það vekur því litla furðu að Lýsing kjósi í dag að auglýsa frekar nýja vörumerki sitt, Lykil.
Greinarhöfundur er lögmaður hjá Impact lögmönnum (áður gengislán.is) og hefur haft aðkomu að hundruðum mála sem varða gengistryggð lán, þar með talið þeim sem leiddu til dóma Hæstaréttar frá 5. mars 2015.