Íslenska ríkið rekur nú umfangsmikla fjármálaþjónustu fyrir landsmenn, í gegnum dótturfyrirtæki sín, en á bilinu 2.200 til 2.300 starfsmenn vinna við fjármálaþjónustu á vegum þess, í Landsbankanum (1.100 starfsmenn), Íslandsbanka (1.000 starfsmenn), Íbúðalánasjóði (100 starfsmenn), auk Byggðastofnunar og LÍN.
Einstakt tækifæri
Ísland stendur nú frammi fyrir sögulegu tækifæri til að breyta fjármálakerfinu og takmarka ábyrgð ríkisins á fjármálaþjónustu. Ástæðan fyrir því að þetta er hægt núna, má rekja til neyðaralaganna, endurreisnar bankakerfisins, fjármagnshafta og nú síðast áætlunar um afnám hafta.
Ísland er líklega eina þróaða ríkið í heiminum sem getur tekist á við „Too Big To Fail“ vandann, það er að einkareknir bankar séu það stórir og umfangsmiklir, að ríkissjóðir og seðlabankar verði að bjarga þeim ef þeir eru reknir illa og lenda í vandræðum. Íslenska ríkið á næstum allt bankakerfið, er með það innsiglað í höftum, og getur gert breytingar ef vilji er til þess, þar sem þetta vandamál er leyst, eða að minnsta kosti minnkað verulega að umfangi.
Lokaniðurstaða: Íslenskur lokaður markaður
Segja má að nú sé komin lokaniðurstaða úr tilrauninni sem stjórnmálamenn stýrðu á árunum 1998 til 2003, þegar þeir töldu skynsamlegt að hvetja þá sem stýrðu fjármálafyrirtækjum og bönkum, til þess að veita bankaþjónustu erlendis á grunni íslenskra lögaðila, þar sem vitað var að Seðlabanki Íslands væri þrautavaralánveitandi og banki bankanna. Þetta voru megin rökin fyrir sölu íslenska ríkisins á bönkunum á sínum tíma, og margtuggið var mikilvægi þess að tengsl við erlenda fjármálamarkaði yrðu efld, meðal annars á grundvelli EES-samningsins. Útrásin byggði beinlínis á þessum hugmyndum.
Tilraun sem mistókst
Það sem er vitað núna – eftir fordæmalaust hrun og neyðarlög
til að verja efnahagslegt sjálfstæði landsins – er að þessi tilraun var byggð á
röngu mati á stöðunni. Íslenskir bankar munu líklega aldrei aftur fara til
útlanda, safna innlánum hjá almenningi þar og hefja útlánaþjónustu í miklum
mæli. Nema það komi til miklar breytingar í peningamálastefnu þjóðarinnar og ný
mynt tekin upp. Þá hugsanlega mun það gerast, en samt er ekkert víst að það
gerist.
Þetta er ekki eftirsóknarverð staða, enda býður hún hættunni af einangrun heim,
í alþjóðavæddum heimi. Stjórnmálamenn hafa ekki sýnt því mikinn áhuga að breyta
um peningamálastefnu og hafa engin frumvörp komið fram um það í þinginu, eða
umræða farið fram sem heitið getur. Skiptar skoðanir eru á meðal
stjórnmálamanna um hvort það eigi að taka upp aðra mynt, og ekki fyrirsjáanlegt
að miklar breytingar séu framundan. Á meðan svo er, þarf að huga að því hvernig
megi endurskipuleggja kerfið, og hvaða þættir fjármálaþjónustunnar eigi að vera
með ríkisábyrgð og hvaða þættir ættu ekki að vera með ríkisábyrgð.
Hefðbundin þjónusta á sérstæðum markaði
Hin hefðbundna bankaþjónusta, nærþjónustan við fólk og fyrirtæki, verður fyrst og fremst á Íslandi og þeim örmarkaði sem landinu tilheyrir. Ísland er rúmlega 170 þúsund manna vinnumarkaður með eigin mynt, sem er staða sem þekkist hvergi. Meðal annars af þessari ástæðu er ekki hægt að bera Ísland saman við önnur ríki þegar kemur að uppbyggingu fjármálamarkaða. Bankarnir hafa stigið lítil skref þegar kemur að því að sækja fé á erlenda markaði, og ekki er fyrirsjánanlegt að þeir muni veita alhliða bankaþjónustu utan Íslands á næstunni, enda hræða spor sögunnar í því samhengi.
Erlendir bankar nú þegar með bestu bitana
Erlendir bankar eru nú þegar með flesta „bestu bitana“ í íslenska hagkerfinu, ef svo má að orði komast. Þeir eru stærstu lánveitendur orkugeirans (Landsvirkun og Orkuveita Reykjavíkur), stærstu alþjóðlegu fyrirtækja landsins (Marel og Össur) og hafa sótt í sig veðrið í íslenskum sjávarútvegi. Ástæðan er sú að þeir geta boðið betri kjör og þjónustu, dýpri tengsl við fjármálamarkaði og trúverðugri sóknaráætlanir til framtíðar, eins og fyrir alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki.
Draga línuna
Í þeim aðstæðum sem nú eru, getur íslenska ríkið ákveðið
hvar sé best að draga línuna, þegar ríkisábyrgðin á fjármálaþjónustu er annars
vegar. Aðskilnaðurinn á milli viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi er mögulegur, og ólíkt flestum ríkjum
heimsins þá hafa lobbýistar á Íslandi enga stöðu til að marka sér gagnvar
stjórnvöldum og almennningi. Fjárfestingabankastarfsemin þarf þó að vera
vel skilgreind.
Staðan er sú, að íslenska ríkið á nú um 80 prósent íslenska
fjármálamarkaðarins, þegar kemur að hefðbundinni nærþjónustu við fólk og
fyrirtæki. Arion banki er í söluferli, en ríkið mun fá söluandvirði hans til sín.
Ef að lífeyrissjóðirnir koma sér saman um að kaupa hann, eins og sagðar hafa verið fréttir af, þá verður það færsla
úr einum vasa almennings í annan.
Þetta þýðir að almenningur er kominn með allt kerfið í hendurnar. Eigið fé er
yfir 600 milljarðar og innlán, miðað við lok síðasta árs, voru yfir 1.700 milljarðar króna.
Tækifæri fyrir einkaaðila – án ríkisábyrgðar
Í þessari stöðu felast tækifæri fyrir vel menntað fólk með mikla reynslu, sem nóg er af í fjármálakerfinu, sem getur tekið til sín stóran hluta þeirrar þjónustu sem bankar ríkisins veita í dag. Má þar nefna dótturfyrirtæki Landsbankans og Íslandsbanka, VÍB og Landsbréf, en þessi fyrirtæki mætti selja út úr bönkunum, og þau yrðu þá alveg sjálfstæð og án allrar ríkisábyrgðar. Þess vegna mætti gera það í gegnum kauphöllina, þar sem allir áhugasamir fjárfestar sitja við sama borð.Eignastýringar- og sjóðsstýringarþjónusta, og fjárfestingaráðgjöf af ýmsu tagi, þarf ekki – og ætti ekki – að vera undir verndarvæng fyrirtækja sem njóta ríkisábyrgðar þegar illa gengur. Fyrirtæki eins og GAMMA, Íslensk verðbréf, Arctica Finance, Fossar og Virðing eru dæmi um fyrirtæki sem rekin hafa verið með hagnaði, en eru um margt að sinna þjónustu sem dótturfyrirtæki íslenska ríkisins þurfa ekki að sinna, þar á meðal er umfangsmikil eignastýringarþjónusta, miðlun og ýmislegt fleira. Með endurskipulagningu á markaðnum, gæti komið aukinn kraftur í þessa hlið fjármálaþjónustunnar, og þá á réttum forsendum.
Hið opinbera þarf síðan að gera það upp við sig - og þar koma stjórnmálamenn óhjákvæmilega til sögunnar - hvernig það geti réttlætt það gagnvart ýmsu sérfræðimenntuðu fólki, að borga því samkvæmt BHM-kjarasamningum, en að starfsmenn hins opinbera í fjármálaþjónustu njóti allt annarra og betri kjara. Þetta virðist vera alveg skýr þversögn, og til lengdar litið mun þetta vafalítið ala á tortryggni og vantrausti, á örmarkaðnum íslenska, sem ekki hreyfist eða þróast í takt við alþjóðlegt samkeppnisumhverfi.
Í þeirri starfsemi sem sannarlega er alfarið á ábyrgð eigenda fyrirtækjanna, þá má vel vera með annan launaveruleika eða aðra launastefnu. Það er verkefni þeirra sem reka þau fyrirtæki, að móta launastefnuna.
Afmörkun þjónustunnar
Nærþjónustuna við fólk og fyrirtæki, á hins vegar vel heima hjá ríkinu, einkum og sér í lagi á meðan það er óumdeilt, að Seðlabanki Íslands er banki bankanna, og að innlán almennings njóti ríkisábyrgðar þegar á reynir. Á meðan þetta er í gildi, þá er órökrétt að bjóða fjárfestum upp á að einkavæða gróðann en síðan verði tapið þjóðnýtt ef hlutirnir ganga ekki upp.
Stjórnmálamenn hafa þetta í höndum sér, en enginn ætti að velkjast í vafa um það, að nú er tækifæri til enduruppstokkunar. Það er hægt að afmarka almannaþjónustuna annars vegar, sem hið opinbera sinnir á meðan það liggur fyrir að ríkisábyrgð virkjast ef illa fer, og síðan þá þjónustu sem ekki nýtur neinnar ríkisábyrgðar og er á ábyrgð fólks sem hefur þekkingu og þor til að bjóða þjónustu sína á eigin ábyrgð.