Ég hef
alltaf elskað starfið mitt sem leikskólakennari og leikskólastjóri. Því miður
er sagan að breytast og þessa dagana horfi ég annað varðandi framtíð mína. Ekki
vegna þess að starfið mitt er ekki krefjandi og gefandi. Ekki heldur vegna þess
að ég er gráðug og vil fá meira kaup eða annan lífstíl. Heldur vegna þess að ég
er búin að fá nóg af misvísandi
skilaboðum frá samfélaginu og
yfirvöldum um hlutverk leikskóla og framtíð skólastigsins.
Í aðalnámskrá leikskóla og í lögum um leikskólastigið, kemur fram að leikskólar skuli vera samfélag þar sem yngstu einstaklingar samfélagsins njóti bernsku sinnar við leiki þar sem leikur er talinn mikilvægasta námsleið ungra barna. Leikskólinn á að vinna samþætt með uppeldi, menntun og umönnun. Við eigum að hlúa að börnum andlega, vitsmunlega og líkamlega eftir þörfum hvers og eins. Við eigum að tryggja að öll börn finni til sín, finni hæfni til að vaxa.
Sú umræða sem nú lætur hæst frá hendi yfirvalda er fælandi fyrir fagfólk leikskólans. Umræðan snýst um efnahagsleg sjónarmið m.a. gjaldfrjálsa leikskóla fyrir foreldra, um að leikskólinn taki inn yngri börn í stað þess að stjórnvöld takist á við að lengja fæðingarorlof. Og einnig er umræða um að fimm ára börn eigi betur heima í grunnskóla þrátt fyrir rannsóknir sem styðja hið gagnstæða, rannsóknir sem sýna fram á að börn vaxi best í umhverfi sem ekki er of stýrandi og einsleitt. Farsælt væri að menntamálaráherra myndi taka þátt í þessari umræðu af meiri krafti en nú er. Umræður um niðurskurð í leikskólanum í Reykjavíkurborg er auðvitað ekki hægt að forðast þessa dagana. Leikskólar hafa verið skornir niður inn að beini og nú er ætlast til þess að við tökum upp hnífinn einu sinni enn, en samt sem áður að eigum við að vernda grunnþjónusta og jafnvel bæta fagleg vinnubrögð.
Það læsisátak sem nú ríður yfir upplifum við mörg sem læsisárás. Við eigum að vinna með flókið læsi sem mælt er með einföldum viðmiðum um lestur. Auðvitað þurfa börn að læra að lesa, en þarf það að gerast á sama tíma hjá öllum börnum? Ég var læs fjögurra ára, bróðir minn sjö ára. En viti menn, við náðum svipuðum árangri í skólakerfinu þegar fram liðu stundir. Mér er sagt að markviss læsisskimun í leikskóla, strax á þriðja ári, sé ætlað að segja okkur hvaða börn eru í áhættuhópi varðandi lestur og þróun máls. Einfaldar mælingar þar sem horft er fram hjá að sum börn eru tvítyngd, önnur hafa lítinn áhuga á lestri eða koma kannski frá heimilum þar sem foreldrar glíma við „lífið sjálft“. Skólum, bæði leik- og grunnskólum, ber skylda til að mæta þessu fólki, efla það, styðja og hlúa að þeim á þeirra forsendum. Ekki greina það með einföldum mælitækjum, merkja það og hræða um lélega framtíðarmöguleika.
Er nauðsynlegt að hafa viðmið sem allir eiga að ná á sama tíma? Ef við náum ekki öllum viðmiðunum erum við þá í rauninni í vanda eða áhættu? Gæti það hugsanlega verið að leikskólabörn séu einstaklingar sem þroskast mishratt og hafi getu á mismunandi sviðum?
Ef grunnskólinn er einsleitur og býr ekki yfir svigrúmi til að kenna margbreytilegum hópi barna með fjölbreyttum kennsluaðferðum, er það þá hlutverk leikskóla að kenna börnum að lesa áður en þau stíga inn í kennslustofu? Er það raunverulegt hlutverk leikskóla að móta öll börn í sama mót?
Með tilliti til nýlegrar fréttar um stóraukinn kvíða barna tel ég að við verðum að staldra við og íhuga hvert við stefnum. Helga Arnfríður Haraldsdóttir sálfræðingur telur meðal annars, að börn hafa minni tími en áður til að leika sér og að þeim sé of mikið stýrt í skólanum, það valdi þeim streitu og kvíða. Í leikskólanum kallar núna margt á aukna stýringu, aukna einsleitni og aukna miðstýringu. Er ekki skekkja í þessu?
Ég heillast að leikskólakennarastarfinu vegna þess að hingað til hefur það veit mér tækifæri til að skapa samfélag með mismunandi fólki. Starfið felst í að skapa samfélag með ólíkum börnum og foreldrum þeirra og undirbúa börnin þannig fyrir þátttöku í stærra samfélagi. Ég óttast það samfélag þar sem við setjum viðmið sem tekur ekki mið af einstaklingum, viðmið sem margir uppfylla ekki. Ég óttast einnig samfélag sem setur kröfu á fyrstu skólastig enn er ekki reiðbúin að viðurkenna að það þarf einnig að hlúa að, styðja við og efla starfið sem þar fer fram og að það kostar þó nokkrar krónur.
Að því sögðu vil ég óska öllum til hamingju með Dag leikskólans.
Höfundur er leikskólastjóri í leikskólanum Ösp og formaður hverfisráðs Breiðholt.