Um daginn skrifaði kennari nokkur fésbókarfærslu eitthvað á þá leið að dóttir hans sæti grátandi sökum þess að kollegi hans úr stærðfræðigeiranum hefði sett henni fjörutíu dæmi og nú færi restin af kvöldinu í þessa úreltu og árangurslitlu iðju engum til gagns. Eftirmælin snérust mörg um ábyrgð foreldra og kennara ásamt umræðu um gildi heimavinnu sem slíkrar – hvort það væri úrelt kennslufyrirkomulag o.s.frv. Hvorki kennari né foreldri gat firrað sig ábyrgð fyrir menntun barna almennt en skiptar skoðanir voru um ágæti heimavinnu. Ég ætla ekkert að halda þeirri umræðu áfram, hins vegar ætla ég að sýna fram á að það er hellings lærdóm hægt að draga af aðstæðum sem þessum.
Þetta dregur mig að máli málanna. Lærdómur, þ.e. menntun er ekki bara að finna í skólabókunum. Það er annars konar skóli sem við og börnin þurfum að ganga í gegnum. Hann leggur áherslu á ræktun annars konar hæfileika og spyr annars konar spurninga, eins og hvað er þess virði að kunna? Hvað er þess virði að gera? Hvers konar persóna vil ég verða? Hvernig eru skyldur mínar og samskipti við annað fólk? Til þess að ná árangri á þessari námsbraut þarf sérstakan hæfileika sem hefur verið nefndur mörgum nöfnum í gegnum tíðina t.d. verkleg skynsemi, gagnrýnin hugsun, hyggindi, næmni, dyggðir, dómgreind en í augnablikinu finnst mér gott að setja þetta allt undir sama hatt og kalla þetta visku; hæfileikann til að gera rétta hlutinn á réttum tíma.
Það kom ekki fram hjá dauðþreytta föðurnum, hvort þau hafi haldið áfram með heimadæmin fram á rauða nótt eða sagt nóg komið og snúið sér að einhverju öðru – ég hallast að því síðarnefnda. Fyrir hvorri leiðinni sem er, geta verið góðar ástæður.
Kannski ætlaði hann að kenna dóttur sinni þrautseigju; það að gefast ekki upp þótt á móti blási. Við slíkar aðstæður væri viskulegt að bretta upp ermar og harka af sér en of mikil þrautseigja getur leitt til uppgjafar og vonleysis; það þarf visku til að greina þar á milli. Hugsanlega var hann að reyna að innræta hugrekki; sýna henni að stundum megi alveg brjóta reglurnar en of mikið hugrekki getur leitt til fífldirfsku; það þarf visku til að greina þar á milli.
Ég þekki ekki til heimilishaldsins þarna. Sjálfur á ég litla dóttur og mér hugnast eigi að láta einhvern kennara yfirtaka líf hennar samkvæmt einhverri kennsluáætlun, en það þýðir samt ekki að ég muni taka námið hennar einhverjum silkihönskum; það þarf visku til að greina þar á milli.
Um daginn heyrði ég af stríði gegn viskunni, að í hvert skipti sem eitthvað vandamál kæmi upp væri aðeins tvennt í stöðunni, að setja fram nýjar reglur eða nýja hvata. Hættum því. Ræktum viskuna. Þannig virkar skóli lífsins – þar er ekki hægt að kíkja aftast í bókina og sjá svörin.
Höfundur er faðir.