Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, Ívar Guðjónsson, fyrrum forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, Júlíus S. Heiðarsson, sem var sérfræðingur í sömu deild, og Sindri Sveinsson, sem starfaði við eigin fjárfestingar hjá Landsbankanum, voru allir dæmdir sekir um markaðsmisnotkun í Hæstarétti 4. febrúar síðastliðinn.
Án þess að farið sé út í málsatvik í smáatriðum að þessu sinni, þá beindust spjótin að fjármögnun bankans á eigin hlutafé. Sigurjón fékk 18 mánaða fangelsi, Ívar tveggja ára fangelsi og Sindri og Júlíus eins árs fangelsi.
Hæstiréttur hefur nú ítrekað dæmt bankamenn seka um lögbrot, vegna fjármögnunar bankanna á eigin hlutafé. Það gerðist í Al Thani-málinu, þar sem Kaupþingsmenn voru dæmdir sekir, Imon málinu þar sem Landsbankamenn voru dæmdir sekir, og BK-málinu, þar sem Glitnismenn voru dæmdir sekir. Svo einhver mál séu nefnd til sögunnar, en fleiri mál, þar sem fjármögnun eigin hlutabréfa bankanna er annars vegar, bíða þess að fá lokarniðurstöðu í Hæstarétti. Þar á meðal er markaðsmisnotkunarmál í Kaupþingi, sem þegar hefur verið sakfellt fyrir í héraði, og einnig Stím-málið svokallaða, sem einnig hefur verið sakfellt fyrir í héraði.
Þó skal tekið fram að hvert mál er einstakt og forsendur geta verið ólíkar, sem til umfjöllunar eru í hverju máli. Menn eru saklausir uns sekt er sönnuð, vitaskuld, og oft þurfa dómarar að meta margvísleg gögn sem ekki endilega er einfalt að greina. En það er sameiginlegt með þessum málum öllum, að fjármögnun á eigin hlutafé er til umfjöllunar.
Samtals nema fangelsisdómar í þessum málum, sem hafa verið til lykta leidd og nefnd hér að ofan, meira en 30 ára fangelsi. Hæstiréttur er því að draga djúpa línu í sandinn með það, hvað sé leyfilegt og hvað ekki, þegar kemur að fjármögnun á eigin hlutafé.
Oft hefur fjármögnun bankanna á eigin hlutafé komið til umræðu á umliðnum árum, frá því að Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið birti frumgögn um hvernig hlutafé bankanna var fjármagnað, og kom þá fram að allir bankarnir þrír fjármögnuðu mun meira en 10 prósent af eigin hlutafé, sem var hámarkið samkvæmt íslenskum lögum. Erlendis er hámarkið víðast hvar 5 prósent.
Athygli hefur vakið, í þeim málum sem komið hafa til kasta dómstóla, að engin erlend fordæmi hafa verið nefnd til sögunnar, sem sýna viðlíka fjármögnun á eigin hlutafé eins og var fyrir hendi hjá íslensku bönkunum. Ástæðan er líklega sú, að engin dæmi eru til erlendis frá um viðlíka stöðu eins og átti sér stað hjá íslensku bönkunum, enda er það óeðlileg staða - sem skapar mikla fjártjónshættu - þegar bankar fjármagna stóran hluta af eigin hlutafé. Fyrir skráð fyrirtæki er það augljóslega til þess fallið að bjaga og falsa markaðsverð.
Með ólíkindum verður að teljast að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hafi ekki greint þessa hættu sem skapaði stórt innanmein í bankakerfinu, ekki síst vegna krosslána frá einum bankanna til annars. Í ljósi þess að þetta fékk að viðgangast, þá magnaðist vandinn upp með tímanum, og gaf stjórnendum bankanna einnig engin skýr skilaboð um hvað má og hvað ekki. Í því felst rík ábyrgð hjá þessum lykilstofnunum á fjármálamarkaði.
Í dómi Hæstaréttar frá 4. febrúar, er vitnað til tölvubréfa sem Sigurjón Árnason sendi á Björgólf Thor Björgólfsson, fjárfesti og þá stærsta eiganda Landsbankans, ásamt föður sínum. Í póstinum er meðal annars verið að ræða mögulega sameiningu Straums og Landsbankans. Í dómnum segir: „Þá hafa verið lögð fram tvö tölvubréf sem ákærði Sigurjón sendi BTB í ágúst og september 2008. Með fyrra tölvubréfinu 22. ágúst 2008 fylgdi kynning á því í formi glæra hvernig haga mætti hugsanlegri sameiningu Landsbanka Íslands hf. og Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf., en sá banki mun að stórum hluta hafa verið í eigu félaga sem BTB og BG réðu yfir. Síðara tölvubréfinu 17. september 2008 fylgdi minnisblað sem ákærði hafði tekið saman um þennan hugsanlega samruna bankanna tveggja. Þar sagði meðal annars: „Kjarni málsins er að það er of mikið flot á bréfum hvors banka fyrir sig, þ.e. okkur vantar í endakaupendur af bréfum sem og fjármögnunaraðila á bréfin almennt ... Landsbankinn á erfitt með að kaupa meira af eigin bréfum án eiginfjáraukningar ... Sameining við Landsbanka býður hins vegar upp á að færa eiginfjárhlutfallið sameinaðs banka í c.a. 11% en við það losnar um ríflega 600 milljónir evra af eigin fé. Þetta er einmitt það eigið fé sem við höfum gert ráð fyrir að nota annars vegar í að þurrka upp eigin bréf og hins vegar til að leysa ákv. mál ... Jafnframt verður að hafa í huga að skv. reglum eru báðir bankarnir takmarkaðir af því að fjármagna eigin bréf við 10% af nafnverði hlutafjár.
Það eru hins vegar minni takmarkanir á að fjármagna bréf hvors annars beint og óbeint ... Þetta hafa bankarnir verið að gera í töluverðum mæli. Þannig að það er umtalsvert magn af rými til fjármögnunar hlutabréfa sem fellur út við sameiningu þar sem lán út á Straumsbréf koma til með að flokkast sem lán út á eiginbréf eftir sameiningu og lán út á Landsbankabréf í Straumi verða lán út á eigin bréf í sameinuðum banka ... Þegar þetta er skoðað þá verður niðurstaðan sú að lán út á Straumsbréf/Samson Global í Landsbanka sem verði áfram til eftir sameininguna og lán í Straumi út á Landsbanka/Samson ehf. verða um 10% af hlutafé sameinaðs banka. Þetta er auðvitað vandamál þar sem til viðbótar eru auðvitað núverandi lán Landsbankans út á eigin bréf sem verða eftir sameininguna um 7-8% af heildarbréfum bankans þrátt fyrir að ég geri ráð fyrir að fella niður umtalsvert magn bréfa. Samtals er þetta um 17-18% sem auðvitað er nokkuð yfir 10% mörkunum. Þetta verður ekki leyst nema í samvinnu við KB og Glitni. En í því samhengi er rétt að muna að við erum núna að semja við Glitni um að taka 27 milljarða á Samson ehf. sem ekki er meðtalið í þessari umræðu.“
Þetta eru áhugaverðar upplýsingar, og ljóst að Björgólfi Thor var haldið upplýstum um þetta innanmein, í það minnsta sem snéri að Landsbankanum.
Þó allir bankamenn neiti sök, þegar kemur að hrunmálunum, þá ætti það ekki að koma neinum á óvart, að fjármögnun bankanna allra á eigin hlutafé, og framkvæmdin á þeim viðskiptum þar sem slíkt er gert, sé að rata inn á borð dómstóla og þeir líti svo á að um ólöglegar aðgerðir sé að ræða. Þegar fyrirtæki fjármagna eigin hlutafé langt út fyrir lögleg mörk þá er verið að hola þau að innan, og senda út röng skilaboð um markaðsvirði þeirra og fjárhagslegan styrk.