Oft og lengi höfum við heyrt um myglu og leka í húsnæði Landspítalans, um langa biðlista eftir aðgerðum, um sjúklinga sem liggja á göngum vegna plássleysis, um úrelt og bilandi lækningatæki, um gríðarlegt vaktaálag starfsfólks, sem eykur líkurnar á mistökum o.s.frv. Nýjustu fréttirnar eru um hjúkrunarheimili sem ætla að leigja út dvalarrými aldraðra til ferðamanna og námsmanna vegna bágrar fjárhagsstöðu, því ekki aðstoðar ríkið.
Við lesum um margra milljarða spillingarmál tengt sölu ríkisbanka á kortafyrirtækinu Borgun og annað tengt sölu Arion banka á hlutabréfum í Símanum. Við lesum um lækkun veiðigjalda og mikinn og vaxandi hagnað útgerðarfyrirtækja og banka. Fjármálaráðherrann skellti sér til Kína til þess að gefa vilyrði fyrir milljörðum úr ríkissjóði í nýjan innviðafjárfestingabanka Asíu. Pawel Bartoszek sýndi okkur línurit sem sýnir að íslenska þjóðin sé yngri en sú sænska og sagði að þess vegna sé eðlilegt að Svíar verji hærra hlutfalli ríkisútgjalda í heilbrigðismál en Íslendingar.
En íslenska þjóðin er að eldast eins og margar aðrar, eldra fólki fjölgar hlutfallslega jafnt og þétt og eftir því sem fleira fólk þarf á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda, þeim mun dýrara verður kerfið í krónum talið. Ofan á þetta bætist kostnaður vegna áralangrar vanrækslu á viðhaldi húsnæðis, tækjakosti o.s.frv. (sem Svíar búa ekki við). Læknastéttin á Íslandi er líka að eldast og margir ungir læknar sjá ekki fyrir sér framtíð á Íslandi eins og staðan er í dag, þeir flytja úr landi í leit að betra lífi. Í fréttabréfi landlæknis frá nóvember 2015 segir: „árið 2000 voru tæplega 28% starfandi lækna yfir 55 ára aldri hér á landi en árið 2013 var þetta hlutfall komið í 41%“. Þar má líka lesa að hlutfall lækna yfir 55 ára var orðið hærra á Íslandi 2013 en í löndum OECD.
Hnignun heilbrigðiskerfisins undanfarin ár er líka ein af ástæðunum fyrir því að annað fólk flytur úr landi. Ef fólk veikist og þarf aðstoð vill það komast sem fyrst undir læknishendur, en ekki lenda á biðlista í marga mánuði til þess eins að komast kannski á endanum inn á sjúkrastofu með myglu eða gang. Þó að íslenska þjóðin (þ.e. íbúar Íslands í þessu samhengi) sé yngri en sú sænska núna getur hlutfallið fljótt breyst við það að fleira ungt fólk flytji úr landi. Endurreisn heilbrigðiskerfisins er fjárfesting til framtíðar og snýst um að byggja upp samfélag þar sem fólk vill búa. Eftir því sem vítahringur vanrækslu og skammtímalausna heldur lengur áfram, þeim mun dýrara og erfiðara verður að vinda ofan af honum. Það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í hann.
Að lokum vil ég hvetja þá sem ekki hafa skrifað undir áskorunina um endurreisn heilbrigðiskerfisins að gera það sem fyrst á endurreisn.is