Stórfyrirtækið Rio Tinto, sem er eigandi álversins í Straumsvík, hefur hug á því að fara með vinnustöðvun hafnarverkamanna, sem getur hamlað útflutningi á áli, fyrir félagsdóm. Þetta kom fram í fréttum RÚV.
Með öðrum orðum, þá ætlar fyrirtækið að fara í hart við starfsmennina sína. Í ljósi þess hvernig fyrirtækið hefur komið fram að undanförnu, þá verða óbeinar hótanir um að allir starfsmenn í Straumsvík missi vinnuna líklega ekki langt undan.
Það verður að teljast með nokkrum ólíkindum að stjórnvöld í landinu, verkalýðshreyfingin öll (líka Vilhjálmur Birgisson) og Samtök atvinnulífsins, hafi ekki komið sér saman í fylkingu um að berjast gegn ömurlegum aðferðum þessa stórfyrirtækis, í kjaradeilum starfsmanna þess og fyrirtækisins. Forstjóri Rio Tinto, Sam Walsh, ákvað að aftengja starfsemi Rio Tinto úr íslenskum vinnurétti með einhliða ákvörðun sinni um launafrystingu fyrirtækisins, til að bregðast við erfiðu rekstrarumhverfi í augnablikinu.
Fyrir vikið er fyrirtækið ekki að starfa á grunni áratuga venju um að virða kjarasamninga og samkomulag aðila vinnumarkaðarsins. Það sem er líka alvarlegt í þessu samhengi, er að allur þunginn í umræðunum fer frá stjórnendum í Straumsvík og beint inn á borð forstjórans á heimsvísu, og yfirstjórnar fyrirtækisins. Þetta er ekki lítið mál, og starfsmennirnir í Straumsvík, sem eru þekktir fyrir trygglyndi og dugnað, standa nú frammi fyrir því að geta með engu móti náð eyra þeirra sem ráða ferðinni hjá viðsemjandnum. Hroki sem þessi á sér fá dæmi hér á landi, og algjör óþarfi að leyfa honum að koma fram án mótmæla.
Sérmeðferðin sem fyrirtækið hefur fengið, ekki síst eftir að lög um fjármagnshöft voru samþykkt í nóvember 2008, er algjörlega óumdeild og mikilvægt að fólk átti sig á því, að það eru takmörk fyrir yfirganginum sem alþjóðleg stórfyrirtæki geta sýnt hér á landi.
Rannveig Rist, forstjórinn á Íslandi, og hennar næstu undirmenn hér á landi - svo ekki sé nú talað um upplýsingafulltrúann sem enga vigt hefur - ráða ekki neinu um framvindu mála í þessum deilum, og svo virðist sem hin sjálfstæða stjórn hér á landi geri það ekki heldur.
Það þarf að standa vörð um áratugauppbyggingu íslensks vinnumarkaðar, og þar eiga atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin mikla og ríka sögu sem hefur skipt miklu máli. Í þessu tiltekna máli starfsfólksins í Straumsvík er nýjum aðferðum beitt, sem tengjast grundvallaratriðum á vinnumarkaði á Íslandi. Vonandi tekst þeim sem eiga hagsmuna að gæta, fyrir hönd starfsfólksins á gólfinu í Straumsvík, að stilla sér upp sameiginlega gegn yfirgangi Rio Tinto.