Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um styttingu vinnudagsins. Þetta frumvarp, sem er lagt fyrir í annað sinn, er komið til umræðu í nefnd hjá Alþingi og því var kallað eftir umsögnum frá ýmsum hagsmunaðilum. Umsagnir bárust meðal annars frá Samtökum Atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands.
Merkilegt nokk, þá eru Samtök Atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands sammála um eitt varðandi frumvarpið, en það er ekki það að launafólk fái nú að vinna minna, heldur að frumvarpið beri ekki að samþykkja.
Það er vert að skoða betur af hverju samtökin leggjast bæði gegn frumvarpinu.
Byrjum á framlagi Samtaka Atvinnulífsins. Í umsögn þeirra segir meðal annars að greinargerð með frumvarpinu „einkennist af órökstuddum alhæfingum og misskilningi“. Ekki fylgir með í umsögn Samtaka Atvinnulífsins í hverju meintar alhæfingar og misskilningur felast, heldur er vaðið fram og til baka í sundurslitinni umræðu um hitt og þetta sem tengist vinnutíma.
Skoðum nokkur dæmi.
Samtökin segja að lögin sem voru sett árið 1971 um 40 stunda vinnuviku hafi verið upphaf „óðaverðbólgunnar sem ríkti næstu 10-15 árin“. Hér fylgir enginn rökstuðningur, engin ítarleg greining á þessu sambandi skemmri vinnuviku og óðaverðbólgu, og aukinheldur er hér algerlega litið framhjá þeirri hagstjórn sem ríkti á þeim tíma. Merkilegt nokk, þá saka Samtök Atvinnulífsins flutningsmenn lagafrumvarpsins um alhæfingar, en samtökin leyfa sér svo sjálf að varpa fram alhæfingum eins og þessari, og raunar gott betur, því þau varpa hér fram algerlega nýrri skýringu á þeim miklu verðbólgutímum í Íslandssögunni sem áttundi áratugurinn var.
En hér má ekki láta glepjast, því þetta er hræðsluáróður: Markmiðið er fyrst og fremst að hræða þingmenn á Alþingi Íslendinga til að hunsa frumvarpið, en jafnframt koma þeirri hugmynd að í hugum fólks að skemmri vinnutími muni orsaka verðbólgu. Samtökin segja líka að vinnutími hafi styst á undanförnum fjórum áratugum. Af hverju fjórum áratugum? Ef litið er á meðfylgjandi mynd, þá sést að vinnutími á Íslandi styttist mjög mikið milli 1970 og 1980, en síðan þá hefur lítið breyst. Samtökin bæta að vísu við að vinnutími hafi almennt styst um fjórar stundir á viku, undanfarna tvo áratugi.
Það er samt augljóst að Samtök Atvinnulífsins völdu þarna tímabil sem þeim hentar, til að láta sýnast sem svo að það sé framþróun í þessum málum, þegar í raun og veru hefur fjöldi vinnustunda fremur einkennst af stöðnun en öðru síðan 1980. Ekki má hér láta glepjast af eftir-hrunsárunum, því þar er um að ræða afleiðingu af því að fólk fékk ekki lengur að vinna jafn mikla yfirvinnu, og aukinheldur, þá ku fjöldi vinnustunda vera á uppleið á ný – eru ýmsir hagfræðingar himinlifandi yfir því.
Samtök Atvinnulífsins segja líka að það verði að miða við „virkan vinnutíma á Íslandi, en ekki greiddan vinnutíma sem felur í sér neysluhlé og eru eigin tími starfsmanna“. Þessi mantra, sem heyrist stundum frá andstæðingum skemmri vinnustunda, er orðin nokkuð gömul. Þarna er dregin upp einhver sú mynd að íslenskir launamenn eyði svo miklum tíma í „neyslu“, að engum mælingum á fjölda vinnustunda megi treysta.
Staðreyndirnar tala þó sínu máli: Vinnutími á Íslandi er lengri en í nágrannaríkjunum, og lengri en í ýmsum þróuðum evrópuríkjum, eins og Þýskalandi og Frakklandi – myndin sýnir þetta vel. Þessi mynd er teiknuð eftir gögnum frá The Conference Board, en þar á bæ hefur einmitt verið gerð ítarleg tilraun til að draga kerfisbundið úr hinum ýmsu skekkjum sem meðal annars verða til af „neysluhléum“. Þessi gamla mantra um að íslenskir launamenn eyði öðrum fremur löngum tíma i „neyslu“ á þvi varla við.
Samtök Atvinnulífsins reyna ekki í umsögn sinni að teikna upp nokkra raunsanna mynd af því hvernig Ísland stendur sig gagnvart öðrum löndum þegar kemur að vinnutíma – ekki út frá raungögnum í það minnsta. Það sem samtökin reyna að gera, öllu heldur, er að byggja sína umræðu á þvi hver umsaminn vinnutími er á Íslandi miðað við önnur lönd, og þar á Ísland að standa sig mjög vel – en, eins og allir vita sem hafa einhverntímann unnið handtak um ævina, þá eru gerðir samningar ekki sama og raunveruleikinn: Það gerist ótt og títt að samningar standast ekki, og alveg sérstaklega oft á Íslandi. Enga sérstaka umræðu er þó að finna í umsögninni um hvernig íslendingar standa sig í vinnutímamálum, í raun og veru, gagnvart öðrum löndum – ættu þó Samtök Atvinnulífsins að átta sig á þvi að samningar eru ekki sama og raunveruleiki, því þessi samtök hafa verið í eldlínu brostinna samninga svo árum skiptir.
Það sem samtökin gera enn fremur, er stórmerkilegt. Þau reyna að sýna fram á að fækkun vinnustunda yrði stórkostlega kostnaðarsöm fyrir fyrirtækin í landinu. Aftur er hér dregin fram klassísk mantra, í þetta sinnið sú sem atvinnurekendur hefja til lofts við hvert tilefni: Mantran um aukinn kostnað og verðbólgu. Samkvæmt Samtökum Atvinnulífsins myndi fólk í raun bara vinna jafn lengi og áður, þrátt fyrir lagasetningu um skemmri vinnudag, en að hluti vinnutímans yrði nú yfirvinna, sem er betur borguð – það yrði því kostnaðarauki fyrir fyrirtækin. Hér líta Samtök Atvinnulífsins, enn á ný, algerlega framhjá reynsluheiminum: Það sem yfirleitt gerist við styttingu vinnudags – og það er meðal annars reynslan frá mið-Evrópu – er að fólk fer að vinna öðruvísi, það fer að vinna vinnuna á hagkvæmari hátt, þannig að það megi gera jafn mikið, jafnvel meira, á skemmri tíma. Þannig fer fólk fyrr úr vinnunni, en sinnir sömu verkefnum – kannski fleiri. Við þetta þarf ekki að borga yfirvinnu, auðvitað, og engin sérstök kostnaðaraukning sem á sér stað. Til að þetta lukkist, auðvitað, þarf svolítið að hafa fyrir hlutunum.
Harma- og tárasöngur sem þessi er nú viðbúinn frá hagsmunasamtökum eins og Samtökum Atvinnulífsins. En nú leggst ASÍ gegn frumvarpinu líka, hvernig skyldi nú standa á því?
ASÍ er á móti frumvarpinu á þeim forsendum að Alþingi eigi ekki að skipta sér af vinnutíma, því það sé „ótímabært inngrip“ á „heildarendurskoðun aðila“ vinnumarkaðarins á vinnutíma. Lesist: ASÍ vill að það sé látið í friði á meðan það reynir að gera eitthvað ótilgreint með hagsmunasamtökum atvinnurekenda. Vandamálið sem ASÍ glímir við hér, er hreinlega það að ASÍ hefur ekki sýnt það í verki að sambandinu sé treystandi í þessum málaflokki: Lítið hefur þokast í þessum málum, eins og um getur að framan, en auk þess hefur ASÍ verið með tvær nefndir að störfum, aðra frá 1997 og hin frá 2006, báðar um vinnutíma – það er ágætt að halda því hér til haga að börn fædd 1997 verða bráðum tvítug. Það hefur því lítið hafa þokast með þessa vinnu – gögnin sýna það, svart á hvítu. Kannski er hreinlega best að menn fái vinsamlegt klapp á bakið með lagasetningu löggjafans – kannski þeir fari að vinna einbeittar að þessum málum, og slaki á í kaffidrykkjunni?
Þess ber að geta að önnur hagsmunasamtök, BSRB, lýsa yfir ánægju með frumvarpið og eru hlynnt samþykki þess.
Það er löngu kominn tími á raunverulegar aðgerðir með styttingu vinnutímans. Framlag þeirra alþingismanna sem settu fram hið títtnefnda frumvarp, er allt af hinu besta.