Föstudaginn 19. febrúar voru undirritaðir nýir búvörusamningar. Þeir gilda til ársins 2026 og munu kosta skattgreiðendur um 13-14 milljarða króna á ári. Ofan á það er íslenskum landbúnaði veitt tollvernd, sem kostar neytendur um tíu milljarða króna til viðbótar. Þar sem samningurinn er til tíu ára munu næstu þrjár ríkisstjórnir verða bundnar af ákvörðun núverandi ríkisstjórnar. Samningurinn mun vitanlega hafa mest áhrif á neytendur í landinu og því verður að teljast furðulegt að enginn fulltrúi þeirra hafi verið aðili að gerð samninganna. Einungis stjórnmálamenn og fulltrúar bænda komu að gerð þeirra.
Mikil leynd býður upp á gagnrýni
Á bak við luktar dyr var ákveðið að binda skyldi hendur þjóðarinnar næstu tíu árin, sem er raunar svipað og landbúnaðarráðherra reyndi að gera með makrílfrumvarpið fræga þegar átti að úthluta kvóta til sex ára. Á bak við þessar dyr var svo líka ákveðið verðtryggja þessa fjárskuldbindingu skattgreiðenda - og það komandi frá flokknum sem berst hvað mest gegn verðtryggingunni.
Þegar svo mikilvægar ákvarðanir eru teknar á bak við luktar dyr er skiljanlegt að gagnrýnisraddir heyrist. Nú þegar ríkir of mikil leynd varðandi mikilvægar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Landbúnaðarkerfið á Íslandi einkennist einmitt af þessu leyndardómsfulla og oft á tíðum óeðlilega sambandi milli hagsmunasamtaka bænda og ráðuneyti landbúnaðar. Hagsmunasamtök sem hljóta gífurlega fjármuni á ári hverju, sem þó er ekkert endilega óeðlilegt í sjálfu sér. Þau hafa hins vegar verið gagnrýnd harðlega fyrir það hvernig farið hefur verið með þetta opinbera fé. Þar ber helst að nefna rekstur þeirra á Hótel Sögu, sem þykir umdeildur meðal annars í ljósi þess að skattfé var notað árið 2014 til að koma hótelinu á réttan kjöl.
Neytendur sitja eftir með sárt ennið
Neytendur fengu ekki sæti við samningaborðið og það sýnir sig einmitt best í því að lítið bendir til þess að þeir muni hljóta góðs af þessum nýju samningum. Samtök verslunar og þjónustu telja raunar að samningarnir munu kosta skattgreiðendur meira en margir gera sér grein fyrir. Þau benda á að ofan á þann beina stuðning, sem landbúnaðurinn fær, bætist við óbeinn stuðningur í formi verndartolla. Í heild sinni getur stuðningurinn því verið upp á 22 til 24 milljarða á ári. Þegar slíkar tölur eru yfirfærðar á tíu ára tímabil er verið að tala um upphæð á bilinu 220 til 240 milljarða króna. Upphæðina má svo umreikna í fjölda rekstrarára Landspítalans. Hún jafngildir til að mynda um 5 ára rekstrarkostnaði spítalans. Þegar hugsað er til þess að ein helstu rök fyrir verndun landbúnaðar eru lýðheilsurök á borð við þau að tryggja þurfi fæðuöryggi, þá er varla nokkuð sem ógnar heilsu landsmanna jafn mikið og fjársveltur Landspítali, sem hefur því miður verið raunin síðustu árin. Raunar má færa rök fyrir því að þessar tölur séu jafnvel enn hærri, en þjóðhagslegur kostnaður vegna búvörulaga er talinn nema 35 milljörðum króna fyrir árið 2014.
Að undanförnu hefur hið opinbera þurft að skera verulega niður fjármagn til grunnstoða samfélagsins, en samt sem áður munu framlög til landbúnaðar nú aukast gríðarlega með gerð nýrra samninga. Samanborið við aðrar atvinnugreinar er einnig ósanngjarnt að landbúnaður búi við jafn mikla vernd og raun ber vitni. Á almennum markaði hefur samkeppni reynst helsti hvati til þróunar á vörum. Annað ætti ekki að gilda um landbúnað. Til öryggis er þó best að skoða reynslu annarra landa.
Ísland í samanburði við önnur lönd
Aðeins fjögur ríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) niðurgreiða landbúnað meira með styrkjum heldur en Ísland. Íslenskir skattgreiðendur greiða þannig um tvöfalt hærri styrki til landbúnaðar en ríki OECD gera að meðaltali. Stuðningurinn hér á landi nemur um 48% af tekjum bænda á meðan hann er að meðaltali um 17% innan OECD-ríkja, svipað og í Evrópusambandinu. Styrkir hér á landi hafa einnig að mestu verið framleiðslutengdir og þar af leiðandi samkeppnishamlandi og markaðstruflandi. OECD telur raunar að hlutfall markaðstruflandi landbúnaðarstyrkja hafi að undanförnu verið um 70% á Íslandi, til samanburðar er sú tala um 25% í ESB. Þar að auki má hér finna svo háa verndartolla fyrir landbúnaðarvörur að Ísland trónir nánast á toppnum hvað það varðar í samanburði við helstu ríki heims. Þess má svo geta að með afnámi slíkra tolla gætu útgjöld til matarinnkaupa meðalfjölskyldu á Íslandi lækkað um liðlega 19%.
Það er algeng villa í umræðunni að halda því fram að landbúnaður muni leggjast af með breytingum á núverandi styrkjakerfi- eða tollakerfi. Umbætur nágrannalanda okkar á landbúnaði hafa einmitt sýnt að það er vel hægt að lækka kostnað skattgreiðenda og um leið skapa betra landbúnaðarkerfi með því að ýta undir skilvirkni, þróun og nýjungar í landbúnaði. Hægt er að taka reynslu Nýja-Sjálands sem dæmi. Áður fyrr var stuðningur skattgreiðenda þarlendis um 40% af tekjum bænda, en nú er hann einungis 1% af tekjum bænda. Þó blómstrar landbúnaðurinn þar og halar inn meirihluta útflutningstekna landsins. Sömuleiðis hefur grænmetisframleiðsla hérlendis blómstrað eftir að tollar á grænmeti voru lækkaðir eða afnumdir.
Það má einmitt færa rök fyrir því að kerfið hérlendis sé ekki einungis slæmt fyrir neytendur, heldur einnig fyrir bændur. Rannsóknir hafa sýnt að núverandi kerfi felur í sér hækkun framleiðslukostnaðar hjá bændum til lengri tíma, sem svo dregur úr aðhaldi í framleiðslu. Auk þess er mjög lítil verðmætasköpun í núverandi landbúnaðarkerfi þegar það er borið saman við aðrar atvinnugreinar.
Kerfið einkennist af fákeppni
Landbúnaðarkerfið á Íslandi er ekki einungis dýrt og óhagkvæmt, heldur leiðir það líka af sér fákeppni. Svo tekið sé dæmi kaupa Mjólkursamsalan og Kaupfélag Skagfirðinga nær alla mjólk sem bændur á Íslandi selja. Þessi tvö fyrirtæki vinna náið saman og eru með einokunarstöðu á markaði. Samkeppnin er því varla til staðar. Raunar var Mjólkursamsalan sektuð af Samkeppniseftirlitinu fyrir að brjóta gegn samkeppnislögum með því misnota markaðsráðandi stöðu sína. Hvernig stendur á því að sá fjármálaráðherra, sem oft hefur talað um mikilvægi þess að samkeppni skuli ríkja á frjálsum markaði, skuli skrifa undir nýjan búvörusamning og þannig vinna gegn breytingum í landbúnaðarkerfinu?
Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2015 er mjólkurframleiðsla á Íslandi gagnrýnd harðlega. Þar kemur fram að á árunum 2011 til 2013 hafi kerfið kostað íslenska ríkið 15.5 milljarða króna á ári að jafnaði. Til samanburðar hefði innflutt mjólk á sama tíma kostað að jafnaði 7.5 milljarða króna með flutningskostnaði. Stuðningur íslenskra neytenda við framleiðslu nemur því um átta milljörðum króna á ári. Þessi stuðningur er fyrst og fremst til kominn vegna þess hve dýr íslenska mjólkin er í framleiðslu.
Núverandi kerfi gerir mjólkina miklu dýrari í framleiðslu heldur en þekkist annars staðar. Þar að auki er framleidd meiri mjólk fyrir innanlandsmarkað en þörf er á. Þessi offramleiðsla kostar neytendur til viðbótar um milljarð króna á ári. OECD tekur í sama streng og bendir á að íslensk mjólk sé að jafnaði um 30% dýrari en innflutt mjólk. Ljóst er að breytinga er þörf á mjólkurframleiðslu landsins. Skýrsluhöfundar lögðu reyndar til ýmissa breytinga. Ein þeirra var meðal annars að magntollar af mjólkurvörum yrðu afnumdir og verðtollar lækkaðir úr 30 prósentum í 20 prósent, svo framleiðsla nágrannalanda yrði samkeppnisfær við íslenskar mjólkurafurðir hér á landi. Þannig hefðu neytendur úr fleiri vörum að velja en nú.
Það þarf að umbylta kerfinu
Um það á málið einmitt að snúast. Fjölbreytni og samkeppni verður að ríkja svo neytendur fái sjálfir að velja, enda eru þeir stærsti hagsmunahópurinn í þessari jöfnu. Vafalaust yrði íslensk gæðavara oft fyrir valinu, en það þarf þá fyrst og fremst að vera ákvörðun neytenda sjálfra. Ljóst er að núverandi landbúnaðarkerfi hentar ekki neytendum og er hvort tveggja óhagkvæmt og dýrt. Þess vegna þarf að auka hagkvæmni og tryggja aukna verðmætasköpun. Stuðla þarf að sjálfbæru kerfi og með markvissum breytingum, einna helst á styrkjakerfinu og tollaumhverfi, er það vel hægt. Slíkt yrði ekki bara til hagsbóta fyrir neytendur, heldur einnig bændur. Nýtt kerfi er ekki fjarlæg útópía hugsjónarmanna, heldur þvert á móti eitthvað sem getur vel orðið að veruleika. Slíkur veruleiki hefst um leið og almenningur í landinu hafnar núverandi kerfi og varðhundum þess í næstu þingkosningum.