Hér verður kynnt til sögunnar nýtt hugtak, upplýsingasamfélag framtíðar. Það er samfélagsgerð sem gæti myndast með skipulegri hagnýtingu upplýsingatækni og netsins. Hún hefur margs konar einkenni sem breyta lífi okkar, á heimili, í skóla og í vinnu. Ekki verður hér staldrað við þau öll, heldur verður fókusinn áfram á hvað ríkið og opinberir aðilar þurfa að gera til þess að fylgja fordæmi fremstu nágrannaríkja.
Það sem einkennir upplýsingasamfélag framtíðar er að sameiginlegar upplýsingar eru aðgengilegar, hægt er að rækja erindi sín við opinbera aðila á netinu (þeir hafa formbreytt þjónustu sinni), samráð er haft við almenning og atvinnulíf og frelsishugmyndir netsins hafa áhrif á stjórnmál og ekki síður stjórnsýslu.
Ríkið leikur aðalhlutverk við myndun upplýsingasamfélags framtíðar. Forystuhlutverk þess felst m.a. í stefnumörkun, framkvæmdum, ekki síst á tölvusviðinu, breytingu á starfsháttum, myndun markaðar fyrir upplýsingatæknilausnir, myndun upplýsingatækniiðnaðar og endurskipulagningu skólanáms með áherslu á raungreinar.
Í síðustu grein var fjallað um mælingar á frammistöðu ríkisins.
Greina þarf á milli tölvuvæðingar á ríkisstigi og tölvuvæðingar á stofnana- og sveitarstjórnarstigi. Á meðan hið fyrrnefnda myndar upplýsingasamfélag framtíðar er hið síðarnefnda mikilvæg forsenda þess. Tölvuvæðing og gagnasöfn á stofnanastigi eru í ákveðnum tilvikum í ágætu lagi hér á landi (t.d. RSK og Landspítalinn), en sveitarfélögin eru víða á eftir. En það vantar nánast alla tölvuvæðingu á ríkisstigi eins og fram kom í síðustu grein. Ef hún er ekki fyrir hendi er hætt við því að ávinningur af tölvuvæðingu stofnana og sveitarfélaga nýtist ekki, t.d. að gögn þeirra séu ekki samkeyranleg.
Dreifstýring málaflokksins í anda NPM (New Public Management) er enn megineinkenni stjórnunar hans og hindrar einkum aðgerðir og framkvæmdir á ríkisstigi. „Markaðnum“ er ætlað að þróa upplýsingasamfélag framtíðar án afskipta ríkisins. Þetta þýðir að engin ríkisstofnun er ábyrg fyrir alvöru stefnumótun, áætlanagerð og framkvæmdum fyrir ríkið og þjóðfélagið eða tekur sér slíkt hlutverk. Þá er stöðlun ekki fyrir hendi þannig að opinberar upplýsingar eru ósamræmanlegar og forstjórar ríkisins hafa frjálsar hendur m.a. um form þjónustu. Í BNA eru fyrir hendi fyrirmæli um stöðlun opinberra upplýsingakerfa og upplýsinga sem heitir FEA (Federal Enterprise Architecture) og eru fyrirmælin vistuð og þeim haldið við af Hvíta Húsinu, enda grundvöllur þess að stjórna því stóra ríki.
Verkefni ríkisins í uppbyggingu tölvukerfa felst í myndun samþættra gagnagrunna á helstu málefnasviðum þess í samvinnu við þau ráðuneyti sem í hlut eiga, mikilvægast er þetta á sviði heilbrigðismála, félagsmála, menntamála, dómsmála og fjármála. Gögnin í þessum grunnum koma frá stofnunum og sveitarfélögum, auk ráðuneytanna sjálfra. Með þeim má mynda heildarmyndir af starfsemi á viðkomandi starfssviði - með beinum aðgangi að gögnum og óbeinum (tölfræði). Síðan þarf að tengja þessa grunna saman til þess að fá heildarmyndir fyrir ríkið í heild.
Með samþættingu opinberra gagna myndar ríkið nýtt stjórntæki sem einkum gagnast því sjálfu og er réttlætt vegna innri hagkvæmni, en það kemur líka almenningi til góða með fjölbreyttum hætti. Þetta stjórntæki er eitt mikilvægasta einkenni upplýsingasamfélags framtíðar.
Verkefni og ávinningur stjórnsýslunnar
Vorið 2015 fékk Cameron forsætisráðherra Bretlands nýtt „app“ í símann sinn sem sýndi helstu þjóðhagsstærðir breska ríkisins í rauntíma. Þar með var ákveðnum toppi náð í samþættingu opinberra upplýsinga. Framleiðandi Oracle setti fram hugtakið stjórnborð stjórnandans fyrir 1-2 áratugum þegar það kynnti möguleika samþættra gagnagrunna og segja má að kerfi Camerons sé glæsilegt stjórnborð fyrir þjóðarleiðtoga.
Heildarmyndir af hagstærðum, framkvæmd opinberra verkefna og upplýsingar um ríkisreikning, opinber mál og tölfræði allra opinberra gagna (líka gagna sem eru í persónuvernd) eru lykilatriði í nútíma stjórnun. Réttar og nýjar upplýsingar bera með sér skilvirkari og nákvæmar ákvarðanir en mögulegt var að taka með eldri vinnubrögðum. Tölfræði úr opinberum gagnasöfnum er lykillinn að réttri fjárhagsáætlanagerð. Allt fæst þetta með samþættum gagnagrunnum ríkisins.
Opinber framkvæmd verður skilvirkari og auðveldari í upplýsingasamfélagi framtíðar. Þar með talin framkvæmd sameiginlegrar stefnumótunar af öllu tagi. Sem dæmi má nefna að skráning atvinnulauss einstaklings í skóla ætti strax að geta haft áhrif á bótarétt hans. Slík félagsleg lagasetning er algeng í Danmörku. Hún verður varla framkvæmd nema gagnagrunnar á menntasviði og félagsmálasviði séu samþættir. Lítið er um lagasetningu sem grípur inn í líf almennings og beinir því í jákvæðar áttir hér á landi. Afardýrt eða jafnvel ógerlegt væri að framkvæma slík lög með núverandi vinnubrögðum.
Eftirlit á að verða auðvelt með samþættun gagna. Áhugasamur almenningur á að hafa eftirlit með opinberum málum (fréttamenn starfa í umboði hans).
Möguleikar Alþingis til þess að framkvæma eftirlitshlutverk sitt eru ekki nógu góðir. Eftirlit þess fer í dag einkum fram með fyrirspurnum og skýrslubeiðnum til framkvæmdavaldsins, en þær er stundum erfitt að vinna (ráðuneytin geta farið á hliðina við að svara fyrirspurnum Alþingis, sem þeim er þó skylt) vegna þess að gögnin eru ekki til, ekki til í stafrænu formi, ekki til strúktúreruð (bara í ritvinnsluformi) eða í ólíkum og ósamræmanlegum formum. Rökstyðja má að vöntun miðlægra opinberra gagnagrunna sé veruleg hindrun þess að Alþingi ræki eftirlitshlutverk sitt sómasamlega.
Mikilvægt er að ráðuneytin taki saman spurningar Alþingis, fréttamanna og almennings nokkur ár aftur í tímann og tölvuvæði og samræmi þau gögn sem þarf til þess að svara þeim og breyti vinnubrögðum starfsmanna þannig að gögnin verði til í daglegum störfum þeirra og birti þessar upplýsingar í rauntíma á vefjum sínum.
Fram hefur komið að bara bótasvik eru áætluð 10 milljarðar árlega og skattsvik 4 sinnum hærri upphæð. Samþætt upplýsingaöflun getur dregið úr þessu og hér er væntanlega að finna þann flöt þessa máls sem greiðir kostnaðinn við gerð upplýsingakerfanna hraðast til baka.
Eldri afgreiðsluform þurfa að hverfa s.s. afgreiðsla yfir borðið (staðbundin afgreiðsla), hliðræn tækni hverfur, síma- og póstþjónusta verður lögð af og samræmd stafræn þjónusta kemur í staðinn. Þeir sem ekki geta unnið á netinu fái aðstoð hjá bókasöfnum (það stendur til í Svíþjóð). Unnið er að verkefnum af þessu tagi í nágrannaríkjunum.
Með stórfelldum breytingum á framkvæmd sameiginlegs valds og sameiginlegra mála verða til spennandi nýsköpunarfæri fyrir sprotafyrirtæki. Mikilvægt að tölvudeildir ríkisins forriti ekki nýjar lausnir, heldur fyrirtæki sem geta gert þær að útflutningsvöru. Þá þyrfti að stórstyrkja tölvufræðikennslu í skólum og setja mætti upp tölvunarfræðibrautir úti á landi í stað stóriðju. Þær gefa meiri þjóðhagslegan afrakstur.
Ávinningur almennings og atvinnulífs
Mikilvægasti ávinningur almennings er gagnsæi opinberra starfa. Það er grundvöllur upplýstrar umræðu um sameiginleg mál og því forsenda alls samráðs og þátttöku hans í opinberum málum. Opnir gagnagrunnar eru einkenni gagnsæis. Um þetta var rætt í fyrri greinunum tveimur.
Samráð við almenning á einkum að framkvæma af stjórnsýslu en einnig af stjórnmálum. Það má spyrja sig hvaða form slíkt samráð tekur á sig, oft er miðað við samtal á félagsmiðlum. Það er þó kannski óraunhæft og slíkar samræður þurfa ekki að vera gefandi eða málefnalegar. Samráðið gæti líka verið meira óbeint, t.d. það að stjórnsýslan og stjórnmálin framkvæmi skoðanakannanir, þekki vilja almennings og fyrirtækja og framkvæmi hann.
Mikilvæg byrjun kann því að vera að mæta réttmætum væntingum samfélagsins, að stjórnvöld hafi þunnt eyra og framkvæmi vilja þess. Það getur falist í því að opinberir stjórnendur axli ábyrgð þegar eitthvað fer úrskeiðis og taki ákveðið á spillingu. Þá er einnig ljóst og hefur stundum komið fram í skoðanakönnunum og á annan hátt að almenningur vill styrkja heilbrigðiskerfið, draga úr fátækt og mismunun og láta þjóðina njóta afraksturs af auðlindum, svo nefnd séu ákveðin mál sem stjórnvöld hafa sterkara umboð til þess að vinna en öðrum.
Þá á upplýsingasamfélag framtíðar að auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að standa opinberum aðilum skil á sínu, draga úr kostnað þeirra og auka frelsi í búsetu. Eitt af því sem gera þarf til þess að ná þeim markmiðum er að mynda eina vefgátt fyrir sem flest erindi þessara aðila, hvort sem þau beinast að einstökum stofnunum, fleiri stofnunum eða ólíkum stjórnsýslustigum. Það er gert með samþættingu gagna og verulega aukinni samvinnu stofnana. Eina dæmið hér á landi um svona þjónustu eru tekjuskattskil einstaklinga sem nú eru auðveldari en nokkru sinni áður, þótt lagaumhverfið sé kannski flóknara en nokkru sinni fyrr. Þannig á ein gátt að gera opinbera þjónustu einfalda og auðskiljanlega þótt lagaumhverfi samtímans verði óhjákvæmilega sífellt flóknara. Þetta er ekki síður mikilvægt fyrir atvinnulífið en einstaklinga, en minni fyrirtæki kvarta undan því hvað samskipti við opinbera aðila eru erfið og mannaflsfrek.
Ávinningur á vinnumarkaði
Mikilvægt er að hafa í huga að upplýsingatæknivæðing lækkar valdapíramíða í stofnunum og fyrirtækjum, fækkar millistjórnendum og styrkir stöðu starfsmanna í aðgerðakjarna (svo notað sé fagmál skipulagsfræðanna), en þeir munu með upplýsingatækninni fá þær upplýsingar sem þarf til þess að afgreiða og taka samræmdar ákvarðanir í málefnum einstaklinga og fyrirtækja. Því munu færri erindi koma á borð stjórnenda sem fá í auknum mæli það hlutverk að verða leiðtogar; fremstir meðal jafningja. Eins og við þekkjum afgreiðir fólkið á gólfinu nú flesta viðskiptavini bankanna, en ekki bankastjórar eins og var.
Þetta hefur í för með sér valdefli og aukna starfsánægju starfsfólks, eykur samræmi í opinberri afgreiðslu og gæti því dregið úr geðþóttaákvörðunum æðstu yfirmanna og ráðherra. Þannig má hugsa sér að spillingartækifærum fækki. Aukin menntun helst í hendur við upplýsingatæknivæðingu, en úr háskólunum kemur nú sérhæft vinnuafl til starfa hjá stofnunum, sem getur tekið að sér aukna ábyrgð.
Hafa má í huga að firring og lítil starfsánægja (QWL, Quality of working life) er oftast tengd einhæfum störfum eins og kom frá í bíómynd Chaplins, Nútímanum, en þar var hin svokallaða vísindalega stjórnun hædd. Ef starfsmenn geta fylgt hverju máli lengur eftir en áður og haft yfirsýn yfir afgreiðslu- eða þjónustuferli þá eykst starfsánægja. Það gerist þegar starfsfólk fær þau upplýsingakerfi sem þarf til þess að það geti leyst verkefni sín til enda. Þetta kann að vera skýringin á því af hverju bankamenn hafa ekki mótmælt gríðarlegri mannaflsfækkun hvarvetna í heiminum.
Þá dregur upplýsingasamfélag framtíðar úr vinnutapi sem hlýst af því að erfitt er að eiga samskipti við opinbera aðila og þjónusta þeirra er uppbrotin, akstur í samfélaginu minnkar og annar þjóðhagslegur sparnaður eykst. Upplýsingasamfélag framtíðar gæti stuðlað að styttri vinnuviku.
Hverjum klukkan glymur
Stjórnsýslan myndar upplýsingasamfélag framtíðar og er það eitt af mikilvægustu verkefnum hvers ríkisvalds í dag. Þau eru á borði stjórnsýslunnar í flestum eða öllum öðrum ríkjum (sérstaklega Evrópuríkjum þar sem stjórnsýslan er sterk og fagleg) og stjórnmálin koma aðeins að lagasetningu. Í þessu ljósi má skoða niðurlagningu Hagsýslustofnunar sem starfaði á vegum fjármálaráðuneytisins fram á síðasta áratug síðustu aldar. Hún átti að endurnýja opinbera framkvæmd, sem síðan hefur dagað uppi hvað varðar upplýsingatækni. Nefna má að það styður ekki uppbyggingu upplýsingasamfélags framtíðar að kaupa tölvu og prentara og nota þau tæki eins og ritvél.
Það gæti verið hindrun í þessari þróun hvað mörgum stjórnmálamönnum er illa við stjórnsýsluna hér á landi og vilja veg hennar sem minnstan (margir alþingismenn líta á stjórnsýsluna sem óvin sinn); hvað stjórnmálin eru sterk hér og umlykjandi en fagmennska veik.
Endurskipuleggja þarf málaflokkinn, koma á virku stjórnskipulagi og fá að nauðsynlega þekkingu í Stjórnarráðið. Verkefni nýrrar stofnunar, tölvudeildar ríkisins, verði vel skilgreind. Þau eru auk stefnumótunar og áætlanagerðar verkefnastjórn, mat á verkefnum, myndun samkeppnismarkaðar um upplýsingatæknilausnir, að hvetja stofnanir til endurnýjunar vinnubragða og að stuðla að uppbyggingu sprotafyrirtækja á markaði. Síðast en ekki síst annist hún samþættingu allra opinberra gagna.
Tölvudeild verði fyrst og fremst stjórnunar- og greiningardeild fyrir ríkið og ríkisstjórninni og ráðuneytunum til ráðgjafar og stuðnings. Hún framkvæmi hins vegar, á eðlilegum forsendum, samráð við markaðsaðila (PPP, Public Privat Partnership) og hún þyrfti ekki að vista gagnasöfn sín sjálf eða tryggja öryggi þeirra. Sérhæfðir aðilar gætu verið hæfari til þess.
Fagmennska er aðalatriði. Gera þarf framkvæmdaáætlanir, kostnaðaráætlanir, móta stefnu í samskiptum við markaðsaðila og koma á virku eftirliti með framkvæmd verkefna. Taka verður fram að þau ríki sem náð hafa bestum árangri í samstarfi við markaðsaðila hafa veitt smáum og meðalstórum fyrirtækjum og fyrirtækjum í eigu kvenna forgang við útboð verkefna. Það hindrar ekki notkun stórra hugbúnaðarpakka s.s. Oracle eða SAP, sem þessi fyrirtæki kaupa af risunum.
Eðlilegt er að vista málaflokkinn hjá fjármálaráðuneytinu, það er gert í flestum ríkjum, enda eru fjármálaleg markmið mjög mikilvæg við framkvæmd hans og ráðuneytið hefur þau úrræði sem þarf til þess að framkvæmdin takist (t.d. að gefa þverlæg fyrirmæli fyrir ríkið allt og skilyrða fjárveitingar).
Lokaorð
Þar sem stjórnsýslan hefur hvorki skipulag né stofnanir til þess að byggja upp upplýsingasamfélag framtíðar eins og kom fram í síðustu grein má hugsa sér að stjórnmálin taki í taumana. En svo er ekki. Þau bregðast við í pólitískum skotgröfum ef málefni þess koma til umræðu og nota málaflokkinn til að auka pólitískar vinsældir sínar, benda þá á netkosningar (þótt alvöru kosningar séu óframkvæmarlegar með upplýsingatækni) og beint lýðræði (sem hefur lítið með upplýsingasamfélag að gera) en sjaldan eða aldrei á annað. Upplýsingasamfélag framtíðar fær því litla athygli frá stjórnmálamönnum eða úti í þjóðfélaginu og hafa ekki fengið síðan í búsáhaldabyltingunni, en þá hljómaði krafan um gagnsæi.
Gríðarlega mikilvægt er að koma faglegum sjónarmiðum í málaflokknum til umræðu og framkvæmdar og að loka ekki augunum fyrir forsendum framtíðar samfélags á Íslandi.