Aðalfundum Landsbankans og Íslandsbanka hefur verið frestað, eins og fram kom í gær, eftir að Bankasýsla ríkisins óskaði eftir því. Jón Gunnar Gunnarsson, forstjóri Bankasýslunnar, ræður þar ríkjum.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is, sem sagði frá frestuninni í gær, er beðið eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins varðandi að sama valnefnd geti skipað stjórnarmenn í báðum bönkunum.
Formaður bankaráðs Landsbanka Íslands er Tryggvi Pálsson en Friðrik Sophusson, fyrrverandi forstjóri Landsvirkjunar og forystumaður í Sjálfstæðisflokknum til áratuga, er formaður stjórnar Íslandsbanka.
Fróðlegt verður að sjá hvort þeir halda áfram störfum sínum, eftir aðalfundina, en þetta eru fyrstu aðalfundirnir frá því að ríkið eignaðist báða bankana að fullu, en Íslandsbanki varð að ríkiseign skömmu eftir áramótin.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, sendi stjórn Bankasýslunnar bréf á dögunum, þar sem hann fjallaði meðal annars um sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun, sem hefur verið afar umdeild, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Í bréfinu segir orðrétt: „Það er mat ráðherra að umræða undanfarinna vikna vegna sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun sé til þess fallin að skaða bankann. Því sé nauðsynlegt áður en lengra er haldið í því ferli að hvaðeina er máli skiptir og varðar sölu Landsbankans á Borgun verði upplýst og málið afgreitt með þeim hætti að traust til bankans og stjórnenda hans verði tryggt.“
Er ráðherra að segja með þessu, með sínum pólitíska hætti, að skipta þurfi um bankaráð og stjórnendur í Landsbankanum? Í ljósi þess sem gengið hefur á, vegna sölunnar á hlutunum í Borgun, þá er sú ályktun ekki fjarstæðukennd.
Bankasýslan er nú með eigendastefnuna í skoðun, sem stjórnvöld leggja niður, þegar kemur að eignarhlutum ríkisins í fjármálakerfinu. Það voru líklega ekki allir sem áttuðu sig á því, hversu mikil völd myndu lenda hjá þessari stofnun, þegar um 80 prósent af fjármálakerfinu væri komið í hendur þess, eins og nú er orðin raunin. Án efa voru þó einhverjir, sem höfðu séð fyrir að mikið myndi reyna á stofnunina, og vildu af þeim sökum ekki leggja hana niður, eins og sumir þingmenn stjórnarflokkana töluðu um, Guðlaugur Þór Þórðarson, þar á meðal. Ítarleg skýrsla hennar um fyrirhugaða sölu ríkisins á hlut í Landsbankans, sýnir að miklu mun skipta hvern staðið verður að endurskipulagningu á fjármálakerfinu.
Pólitísk samstaða um hvernig skuli standa að henni er ekki fyrir hendi, og virðast stórnarflokkarnir ekki vera sammála um grundvallarmál, t.d. hvort það eigi yfir höfuð að sela hluti í Landsbankanum.