Á dögunum átti ég áhugavert samtal við kunningja minn frá Egyptalandi sem er í doktorsnámi við Columbia háskóla, og rannsakar sérstaklega líffræðilegar rannsóknir og áreiðanleika þeirra. Dýpra get ég nú ekki farið í þá sálma, sökum vanþekkingar, nema hvað hans sérsvið er tölfræði.
Námið er áhugavert, og töluverðir möguleikar sem bíða þeirra sem ljúka því. Tölfræðin nýtist víða.
Spekilekinn frá grannríkjunum
Fjögurra ára gamlir synir okkar eru góðir vinir, og bralla ýmislegt (Sonur minn kallar strákinn hans Jæja, en hann heitir Yahia. Oft skondið að heyra þá kallast á, Jæja og Haldooor).
Ég spurði hann út í stöðu mála í Egyptalandi. Hann var stoltur af landi sínu, og sagði að þau hjónin, sem bæði koma frá Egyptalandi, hefðu alltaf stefnt á að fara heim að loknu námi með stráka sína tvo, en fyrir um þremur árum hefði verið ljóst að það væri illmögulegt. Ástæðan er gríðarlega hraður og mikil spekileki (braindrain) úr landinu, sem hann hafði tilfinningu fyrir að væri eitt alvarlegasta vandamál Norður-Afríku um þessar mundir, og eitthvað sem fengi ekki nægilega mikla athygli.
Hans skoðun er sú, að með því að halda ekki hæfileikaríku fólki í löndunum, sem nú glíma við áhrifin af stríðsátökum í grennd, þá væri verið að dýpka vandamálin. Innviðafjárfestingar og stuðningur við nýsköpun, rannsóknir og þróun á hinum ýmsu verkefnum, væru því miður í lamasessi miðað við þörfina. Nýsköpun væri kröftug í kringum háskólana í Kaíró, ekki síst á sviði lista og vísinda, en það þyrfti að stórefla hana, og búa til áætlun til lengdar. Þar ætti alþjóðleg aðstoð að koma til – líka frá einkaaðilum.
Stórt land tækifæra
Fyrst aðeins um Egyptaland: Í landinu búa 89 milljónir manna
og almennt hafa aðstæður í landinu breyst hratt til hins betra á síðustu 35 árum,
samkvæmt úttekt Alþjóðabankans, þrátt fyrir ógnartilburði Hosni Mubarak, sem
steypt var af stóli 2011 (Pólitísk saga verður ekki gerð að aðaltriði í þessum pistli, en stóra myndin er sú að framfarir hafa verið nokkuð stöðugar í hagkerfinu). Hin djúpa saga landsins hefur afar sterka ímynd í
augum ferðamanna, en ferðaþjónusta hefur staðið undir um 10 prósent starfa í
landinu undanfarin fimm ár. Maðurinn sagði við mig að fólk í kringum hann, sem
hefði margt farið í háskóla eða stofnað til rekstrar, hefði gengið með þá von í
brjósti að nýir og betri tímar myndu taka við eftir hallarbyltinguna 2011, sem
var hluti af atburðarásinni sem kallað er arabíska-vorið.
Pólítískt hafi það alls ekki gerst, en þrautseigja í litlum fyrirtækjum – hjá venjulegu
fólki – væri mikil í landinu og
almenningur myndi leggja mikið á sig til að láta hlutina ganga upp, frá degi
til dags. Stjórnmálamenn væru frekar í því að halda aftur af umbótum, í það minnsta
eins og þessi maður talar (gremja).
Það má ekki gera lítið úr flækjustigi á vandamálum í Egyptalandi, sé einblínt á það sérstaklega. Landið á landamæri að Líbíu, Súdan og Gaza-ströndinni og Ísrael. Rauðahafið liggur meðfram landinu austan megin, og Miðjarðarhafið norðan við.
Dásamleg æska í fátækt
Kunningi minn ljómaði allur þegar talið barst að
Rauðahafinu, þar sem hann veiddi sem lítill drengur og bjó í grenndinni með
fjölskyldu sinni, í fátækt. Hann sagði æsku sína hafa verið dásamlega, og
fólkið hans hefði fórnað öllu til að láta börnunum líða vel. Fjórar fjölskyldur
hefðu búið þétt, og samtals hefðu verið sautján börn á skólaaldri bara á hans
heimili. Líf og fjör alla daga. (Þarna náði ég að skjóta inn í dásemdum Norðurlandsins
á Íslandi, og sagði honum að þau hjónin þyrftu að heimsækja Ísland við
tækifæri. Það er nú komið á lista þeirra. Ég gerði mér líka vel grein fyrir því
þarna, hversu mikil velmegunarbóla Ísland er, en það er önnur saga).
Í stórum hverfum í Kaíró, þar sem búa 7,7 milljónir manna, er mikil velmegun.
Hann sagði flesta vilja komast að í þeim borgarhluta, þar sem væri alþjóðlegt
yfirbragað og góðir skólar. Hann væri með um 400 þúsund íbúa, og þar væri mikil
uppbygging. Heilt yfir væri Kaíró með mikla möguleika, og það sama ætti raunar
við um mörg svæði í Egyptalandi. Það væri vel staðsett – þó stríðsátök mörkuðu
lífið þessa dagana í nágrenni landsins – og til framtíðar væri hægt að byggja
upp afar spennandi land.
Atvinnuleysi mælist nú 12,7 prósent, en það væri mögulegt að ná því niður, sagði maðurinn. Hann lagði mikla áherslu á að fólkið væri tilbúið að láta bjóða sér ýmislegt, eins og sagan sýndi, og það væri líka tilbúið að búa við kröpp kjör. „Mér er skítsama um peninga,“ sagði maðurinn, þegar honum var mikið niðri fyrir. Þetta snérist um að nýta tækifærin og búa þannig um hnútana að vel menntað fólk gæti fengið ögrandi verkefni heima fyrir. Vissulega kostaði þetta peninga, og einmitt í ljósi þess að alþjóðastofnanir og ríkisstjórnir heimsins væru að velta fyrir sér, hvernig mætti koma á stöðugleika í þessum heimshluta, þá gætu lausnirnar verið þær að stórefla grannríki stríðshrjáðu ríkjanna. Með því að fjárfesta í þeim, og koma í veg fyrir mikinn spekileka og sýna vilja til að taka á móti fólkinu sem hefur menntað sig erlendis og vill koma að uppbyggingu með því að flytja heim á nýjan leik, þá gæti skapast tækifæri fyrir grannríkin til lengdar litið. Allt væri þetta hluti af stórri heild sem væri sögulega tengdur.
Það er skelfilegt að horfa upp á milljónir manna flýja stríðshrjáð ríki, eins og Sýrland, Írak og Afganistan. Það er áhrifamikið og þyngra en tárum taki, að sjá myndirnar frá Miðjarðarhafi og Evrópu, þar sem mörg hundruð þúsund manns streyma svo til stanslaust í óvissuleiðangri í leit að betra lífi. Erfitt er að horfa upp á ósjálfbjarga börn í þessum aðstæðum, og eflaust ekki til sá einstaklingur sem þetta hreyfir ekki við.
Undir niðri er síðan alvarlegur hljóðlátur fólksflótti – sem má líkja við þungan straum í stórfljóti – sem kunningi minn telur að megi minnka verulega, með vel skipulögðum fjárfestingum í nýsköpun og rannsóknum, ekki síst frá einkaaðilum sem vilja láta gott af sér leiða. Það eigi að vera langtímasýn á þessi mál, og samhliða neyðaraðstoð á svæðunum þar sem milljónir manna halda sig, megi ekki vanrækja hlutina sem erfitt getur reynst að vinna úr í framtíðinni. Það á svo sannarlega við um það, þegar hæfileikaríkt fólk, í milljóna tali, flytur úr löndunum í kringum stríðshrjáðu ríkin og snýr ekki til baka.
Fjárfestar, skoðið þennan möguleika
Ég ætla leyfa mér að gerast svo djarfur hér, eftir að hafa talað í nokkur skipti um þessi mál við vinafólk okkar hér úti, að skora á fólk sem á peninga á Íslandi, og hefur áhuga á þróunaraðstoð, að kynna sér þennan möguleika þegar kemur að fjárfestingarmöguleikum, þegar höftum léttir. Það er að líta á það sem fjárfestingartækifæri, að fara að vinna með frumkvöðlum í Egyptalandi og víðar, í nágrenni við hin stríðshrjáðu ríki. Margfeldisáhrifin af slíkum verkefnum skila sér út í hagkerfin, sem síðan geta virkað eins og sáraumbúðir um stríðshrjáð svæði til lengdar.