Bankasýsla ríkisins hefur svarað bréfi Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra, þar sem fjallað er um sölu Landsbankans á eignarhlut fyrirtækisins í Borgun. Í bréfi Bankasýslunnar segir að „sölumeðferðin hafi varpað verulegum skugga á árangur Landsbankans undanfarin misseri og að fagleg ásýnd bankans og stjórnenda hans hafi beðið hnekki.[...]Mikilvægt er að Landsbankinn endurheimti traust eigenda sinna, viðskiptavina og fjárfesta sem og almennings í landinu. Af þeim þeim sökum telur Bankasýsla ríkisins að bankaráð Landsbankans verði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að endurheimta það traust sem bankinn tapaði vegna sölumeðferðarinnar. Fer stofnunin fram á að hluthöfum í Landsbankanum hf. verði hið fyrsta gerð grein fyrir því með hvaða hætti bankaráðið telur rétt að bregðast við og ekki siðar en tveimur vikum fyrir aðalfund sem fram fer þann 14. apríl nk.“
Það er erfitt að skilja þetta öðruvísi en svo, þarna sé Bankasýslan að segja við ráðherra, að fátt annað en að bankaráð og forstjóri Landsbankans, verði að axla ábyrgð á málinu er tengist sölunni á hlutnum í Borgun, og hætta, til þess að nýtt fólk geti tekið við sem er traustins vert.
En þetta er vandmeðfarið, og stjórnmálamenn verða líka að horfa í eigin barm, þegar kemur að uppbyggingu fjármálamarkaðarins eftir allsherjarhrun hans haustið 2008.
Endurreisnarstarfið hefur um margt gengið vel, og það á meðal annars við um Landsbankann. Stjórnendur bankans get um margt verið stoltir af endurreisn hans, og því hvernig það starf spilar inn í endurreisn fjármálamarkaðarins.
En eins og
bankaráð bankans, þar sem Tryggvi Pálsson er formaður, hefur viðurkennt þá voru
það mistök að selja ekki 31,2 prósent hlut í Borgun í opnu ferli. Ekki aðeins
til að tryggja gagnsæi, heldur ekki síður til að skapa samkeppni um
greiningarvinnuna sem fer fram við sölu á eignum, þar sem áhugasamir fjárfestar
þurfa að leggja fram vönduð tilboð í hlutina.
Stjórnmálamenn virðast oft gleyma því, að þeir geta skapað traustari ramma en
þeir hafa þegar gert, þegar kemur að sölu eigna í fjármálakerfinu sem
almenningur á nú að mestu. Lagaskylda um gagnsæi við sölu á eignum og
afskriftir skulda, var eitthvað sem stjórnmálamenn hefðu getað kom á, strax
eftir hrunið, og geta gert enn. Bent hefur verið ítrekað á það í fjölmiðlum, að
gagnsæi væri lykilatriði til að endurheimta traust, og stjórnendur í
fjármálakerfinu hafa sumir hverjir tekið undir þetta í orði.
Fjármálaeftirlitið (FME) er lykilstofnun þegar að þessu kemur, en mega bankar
ekki stunda óskyldan rekstur samkvæmt lögum, nema með undanþágu frá FME. Þegar
bankar eiga eignarhluti í fyrirtækjum, þá reynir á þessu aðkomu. Meða skýrari
lögum hefði mátt komum þessum málum í annan farveg en raunin hefur verið.
Þó ekkert afsaki mistök bankanna – og það er sannarlega ekki meiningin að gera
það hér í þessum skrifum – þá þurfa stjórnmálamenn að horfa einnig í eigin
barm, og spyrja sig að því hvort þeir hafi gert nóg til þess að tryggja góðan
og traustan lagaramma utan um endurreisn fjármálakerfisins. Svarið við þeirri
spurningu er nei.