Eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, greindi frá því á Facebook síðu sinni í gær - sem DV greindi síðan frá - að hún ætti félag sem skráð væri erlendis, sem heitir Wintris Inc., og heldur það utan um fjármuni sem hún fékk í arf. Peningana fékk hún eftir að Toyota á Íslandi, sem í 35 ár var í eigu P. Samúelssonar hf., fjölskyldufyrirtækis Önnu Sigurlaugar, var selt til Smáeyjar ehf. fyrirtækis Magnúsar Kristinssonar, í desember 2005.
Orðrétt segir í endursögn DV á skrifum Önnu Sigurlaugar: „Þegar við Sigmundur ákváðum að gifta okkur fylgdi því að fara yfir ýmis mál, þar á meðal fjárhagsleg. Bankinn minn úti hafði gengið út frá því að við værum hjón og ættum félagið til helminga. Það leiðréttum við á einfaldan hátt árið 2009 um leið og við gengum frá því að allt væri í lagi varðandi skiptingu fjármála okkar fyrir brúðkaupið. Félagið var því frá upphafi rétt skráð á Íslandi og hélt utan um séreign mína. Skráningin úti og leiðrétting hennar hafði því engin eiginleg áhrif[...]Þar sem ég er ekki sérfræðingur í viðskiptum þá hef ég áfram haft fjölskylduarfinn í fjárstýringu hjá viðskiptabanka mínum í Bretlandi og þar eru gerðar sérstakar kröfur til mín og þeirra sem mér tengjast vegna þessara reglna. Frá því að Sigmundur byrjaði í stjórnmálum hef ég beðið um að ekki sé fjárfest í íslenskum fyrirtækjum til að forðast árekstra vegna þess.“
Þetta eru um margt athyglisverð tíðindi, og mikilvægt að þetta sé nú komið upp á yfirborðið, að fjölskylduauður eiginkonu forsætisráðherra sé geymdur í útlöndum, en ekki innan haftanna á Íslandi.
Kjarninn hefur ítrekað beint fyrirspurnum til Sigurðar Más Jónssonar, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, þar sem óskað hefur verið eftir upplýsingum um hvort ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, eða fjölskyldur þeirra, eigi eignir erlendis.
Hinn 15. mars 2015, fyrir rúmlega ári, voru fyrirspurnir sendar til upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar þar sem fyrrnefnd fyrirspurn var borin upp. Sá sem svaraði fyrir hönd forsætisráðuneytisins, var Ágúst Geir Ágústsson, skrifstofustjóri. Hann neitaði að svara fyrirspurninni, og sagði það ekki í verkahring forsætisráðuneytsins að gera það, og lög krefðust þess ekki.
Fyrirspurnin var ítrekuð í nokkur skipti, eftir að eftirgrennslan ritstjórnar benti til þess að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ættu hugsanlega eignir erlendis, sem hvergi hefði verið greint frá. Það hefur reynst erfitt að sannreyna slíkt, og þá hafa ráðherrar í ríkisstjórninni ekki gefið það upp á hagsmunaskráningu sinni að þeir ættu eignir erlendis, og ekki heldur makar þeirra. Því var eðlilegt að skoða þessi mál nánar og spyrjast fyrir um málin hjá stjórnvöldum.
Eðlilegt er að beina fyrirspurninni almennt til allra ráðherra í ríkisstjórninni, í gegnum upplýsingafulltrúa hennar, fyrst það starf er til á annað borð.
Svarið sem kom frá skrifstofustjóranum, við fyrirspurn í byrjun síðasta mánaðar, var eftirfarandi.
„Eins og fram kom í svari til yðar 12. mars 2015 þá býr forsætisráðuneytið ekki yfir upplýsingum um eignir ráðherra, hvorki hér á landi né erlendis. Ráðuneytið benti hins vegar á að á vef Alþingis má finna upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf alþingismanna og ráðherra, sbr. reglur Alþingis um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings.
Forsætisráðuneytið bendir jafnframt á að því marki sem upplýsingabeiðni yðar kann að varða upplýsingar sem ekki ber að tilgreina í hagsmunaskráningunni þá myndu slíkar upplýsingar að öllum líkindum teljast til upplýsinga um „einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari“, sbr. 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.“
Svo mörg voru þau orð, og sjálfu sér ekkert sem kom á óvart í þessum svörum, eftir það sem á undan var gengið. Ráðuneyti Sigmundar Davíðs vildi ekki upplýsa um þetta, þar sem ekki var lagaskylda til þess, og vísaði á hagsmunaskráningarreglurnar og skráða hagsmuni ráðherra. Þar kom ekkert fram um það að eiginkona Sigmundar Davíðs væri með fjölskylduauð sinn í erlendu félagi. Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar vildi síðan ekki leita svara hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar um hvort þeir ættu eignir erlendis, og þá hvaða eignir, þrátt fyrir að óskað hefði verið eftir því.
Í reglunum sem vísað er til, er varða hagsmunaskráningu, kemur fram, að gefa þurfi upp „heiti félags, sparisjóðs eða sjálfseignarstofnunar í atvinnurekstri, sem alþingismaður á hlut í og fer yfir einhver eftirtalinna viðmiða: Verðmæti hlutar nemur að markaðsvirði meira en 1 millj. kr. miðað við 31. desember ár hvert. Hlutur nemur 1% eða meira í félagi, sparisjóði eða sjálfseignarstofnun þar sem eignir í árslok eru 230 millj. kr. eða meira eða rekstrartekjur 460 millj. kr. eða meira“. Vissulega er það svo, að eiginkona Sigmundar Davíðs á þessa fjármuni erlendis, en í ljósi þess að þau eru hjón, þá er eðilegt að gefa upp þessar eignir, og þingmenn geta gert slíkt ef þeir hafa áhuga á því.
Það er ekki amalegt að eiga mörg hundruð milljónir í útlöndum á meðan almenningur er innilokaður á Íslandi með sinn sparnað í höftum. Stjórnmálastéttin ætti að bera sig eftir því, að hafa alla svona hluti uppi á borðum, og taka vel í það upplýsa um eignir sínar erlendis, sérstaklega þegar hún hefur komið haftabúskap á almenning með lögum. Það á að gera strax. Alveg sama hvort eignir eru skráðar á þingmennina sjálfa eða maka þeirra. Ef einhverjir ættu að kannast við mikilvægi þess að upplýsa um svona hluti, nákvæmlega, þá er það stjórnmálastéttin, sem lítið traust mælist til í könnunum.
Anna Sigurlaug biður um það á Facebook-síðu sinni að „Gróa á leiti fái frí núna“, og vitnar til þess að einhver umræða hafi verið í gangi, um eitthvað óskilgreint, sem henni tengist. Sú umræða hefur farið framhjá langflestum væntanlega, enda hafa engar fréttir birst um Wintris Inc. eða að fjölskylduauður hennar væri geymdur á reikningum þess erlendis.
Vonandi munu stjórnvöld, og ráðherrar í ríkisstjórninni, sjá sóma sinn í því núna, fyrst eiginkona forsætisráðherra hefur nú upplýst um að hún geymi fjölskylduauð sinn erlendis, að upplýsa um hvort þeir eða makar þeirra eigi eignir erlendis, og tilgreini hverjar þær eru. Það er mikilvægt að fá upplýsingar um þetta fram, enda er sú óþolandi staða uppi - svo það sé ítrekað - að fjármagnshöft eru í gildi með lögum sem bitna á almenningi. Ráðherrar ættu að sjá sóma sinn í því að taka stöðu með fólkinu gegn kerfinu í þessu máli, og upplýsa um mál eins og þessi, þegar fjölmiðlar spyrjast fyrir um þau.