Biðlistar lengjast, barnið fær enga aukaaðstoð í skóla nema með greiningu og foreldrar eru ráðalausir. Barnið skynjar að það sé eitthvað að því vegna þess að það passar ekki inn í skólakerfið. Það fyllist vonleysi og í hvert sinn sem minnst er á skólann finnur það kvíðann magnast í maganum. Barnið hættir að geta sofnað kvöldin, verður þreytt í skólanum, fær óútskýrða magaverki eða höfuðverki og byrjar að missa úr skóla.
Greiningarstöð ríkisins kvartar yfir ónógu fjármagni og BUGL glímir við myglu í húsnæði svo starfsemin er einungis brot af því sem venjulega er. Hegðunar – og þroskastöðin í Mjódd getur heldur ekki annað öllu eins og þeir vildu.
En er við þessar stofnanir að sakast? Getur verið að hluti vandans liggi í skólakerfinu? Einn skóli fyrir alla er falleg hugsjón sem virkar kannski fyrir börn með líkamlegar fatlanir en ekki fyrir börn með geðraskanir.
Skólakerfið er sniðið að nemendum sem eiga auðvelt með að hlusta á kennara, hugsa línulaga, skipuleggja sig sjálfir og einbeita sér í stórum hópi. Ef barnið getur þetta ekki, hlýtur að vera eitthvað að barninu.
Á meðan kennarar eru að gera allt sem þeir geta til að koma á móts við þarfir hvers og eins eru endalausar kröfur um niðurskurð. Skólar eru sameinaðir til að spara laun skólastjóra og nýir skólar byggðir þannig að 50-60 börn eru saman í rými með tvo kennara. Þegar fjórðungur nemenda þarf sérstaka athygli og meðferð er ljóst að verkefnið er flókið. Allir þeir kennarar sem ég þekki eru fullir af hugsjón og vilja gera sitt besta. En það er erfitt þegar aðstæður eru eins og þær eru.
Börn með geðraskanir þrífast ekki í stórum einingum. Þau þurfa ró og næði, vera í litlum hópum, mikið utanumhald og öðruvísi kennsluhætti. Börn með ofvirkni halda bara út 20 mínútna lotur. Börn með ofvirkni og einhverfu þurfa stífan ramma sem helst aldrei er vikið útaf. Börn með athyglisbrest heyra ekki hvað kennarinn segir þegar 24 börn eru að setja niður í töskurnar eða finna einhvern til að leika við.
Brúarskóli er frábært úrræði fyrir börn með geðraskanir. Heildarfjöldi nemenda er um 20 og fjöldi starfsfólks er hinn sami. Mikil áhersla er lögð á verklega kennslu og listgreinar. Þar eru að hámarki fimm börn í bekk og tveir kennarar. Stundum er nemandi jafnvel einn með kennara í verklegum tímum. Mjög vel er haldið utan um öll samskipti milli barnanna til að forðast árekstra og starfsfólkið er allt sérþjálfað til að vinna með þessi börn. Í Brúarskóla er meira að segja hundur sem fær að fylgja eiganda sínum í skólann og sumir nemendur tóku ástfóstri við hundinn og hlökkuðu til að fara í þá tíma þar sem hundurinn var.
En eftir þrjá mánuði í Brúarskóla, loksins þegar börnunum er farið að líða betur, eru þau send aftur í venjulegan skóla þar sem þau upplifa sig gölluð og ómöguleg. Það eru fleiri svona lítil úrræði, til dæmis Skólasel, en þau eru einnig tímabundin, jafnvel bara til fimm vikna.
Af hverju aðlögum við ekki skólakerfið að þörfum þessara barna, í stað þess að greina börn þannig að eitthvað sé að þeim? Af hverju höfum við ekki sérstaka skóla fyrir „sérstök“ börn þar sem kennslan mætir þörfum hvers hóps svo börnin upplifi sig einstök og frábær, ekki úrhrök og gallagripi?
Það er von mín að hópur kennara og fólks með þekkingu á þessum málum taki sig saman og stofni skóla fyrir börn með geðraskanir með stuðningi frá yfirvöldum. Það er gífurlega erfitt að breyta heilu kerfi, en það er hægt að byrja með litla tilraunaskóla og þróa þá áfram.
Á höfuðborgarsvæðinu er nægur fjöldi barna með greiningar til að réttlæta tvo svona skóla, annars vegar fyrir börn með ADHD og hins vegar lítinn skóla fyrir börn með fjölþættan vanda. Það er ekki nóg að búa bara til deildir áfastar venjulegum skólum því það kallar á árekstra í frímínútum eða á leið heim úr skóla. Leyfum líka dýrum að koma í þessa skóla því þau hjálpa börnunum að fá útrás fyrir tilfinningar sínar.
Hættum að spara og skera niður í skólamálum. Hættum að greina börnin okkar sem vandamál og förum að álíta þau sem sérstök og einstök. Þessi börn eru oft viðkvæm og mjög skapandi einstaklingar og því ekki að hjálpa þeim að þroska hæfileika sína. Hættum að pína þau til að vera í hörðum og heftandi aðstæðum. Leyfum börnunum að vera þau sjálf og búum til aðstæður þar sem þau þrífast best.
Höfundur er rithöfundur og forsetaframbjóðandi.