Fjármálaeftirlitið (FME) sendir reglulega frá sér vefritið Fjármál, og í því nýjasta er umfjöllun um kvikmyndina The Big Short. Hún er afbragðsgóð eins og bókin hans Michael Lewis, sem lýsti stöðu mála á Íslandi í Vanity Fair undir fyrirsögninni Wall Street on The Tundra. Eins og Paul Krugman þá lýsti hann stöðu mála hér á landi sem nær fullkominni vitfirringu. Krugman notaði orðið brjálæði (madness) þegar hann talaði um stöðuna á ráðstefnu í Hörpunni.
Þessi umfjöllun er kannski ekki háfræðileg, en þarna fær almenningur ágæta innsýn í það sem gekk á í Bandaríkjunum, og gerir raunar enn. Greinar sem þessar eru góðar með öðrum dýpri og ítarlegri úttektum sem finna má í Fjármálum. Þannig hefur FME fjallað ítarlega um alvarlega stöðu lífeyriskerfisins, og hefur Kjarninn reynt að miðla þessum upplýsingum og svara spurningum sem vakna.
Í heimildarmyndinni Hank: Five Years From The Brink, þar sem John H. Paulson, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna er í forgrunni, lýsir hann hvernig honum leið, þegar hann frétti af því að stjórnendur bankanna á Wall Street hefðu greitt 18 milljarða Bandaríkjdala, ríflega eina og hálfa árlega íslenska landsframleiðslu, í bónusgreiðslur til stjórnenda árið 2008, nokkrum mánuðum eftir að skattgreiðendur í Bandaríkjunum höfðu verið látnir greiða fyrir fífldjarfa og glórulausa starfsemi bankanna. Hann varð brjálaður og trúði þessu varla, og sjálfur var hann forstjóri Goldman Sachs árum saman. Hann bara trúði ekki þessu stigi á siðleysi, eftir það sem á undan var gengið.
Hann hafði setið á móti bankastjórum allra stærstu bankanna, með Ben Bernanke sér við hlið, og horft á þá fullyrða að rekstur bankanna væri í lagi. Samt vissu þeir að hann væri það ekki, og voru ekki tilbúnir að horfa neitt í eigin barm. Settu upp bros, og forðuðu sér undan því að svara.
Andrúmsloft eins og þetta myndast oft þegar Já-kórinn hefur fylgt einhverjum í blindi. Þegar menn eru komnir í „Kaupthinking“, og hugsa „út fyrir boxið“, svo íslenskt dæmi sé tekið. Þá virðast þeir ósnertanlegir og óhugsandi að þeir geti misstigið sig. Og fá svo alltaf bónusgreiðsluna að lokum.
Í Big Short er einmitt fjallað um þetta atriði með Póker-líkingu og líka þegar körfuboltamenn halda að þeir geti bara alltaf hitt. Það hafi gerst áður og þetta hljóti að ganga áfram.
En svo kemur höggið. Menn hætta að vinna, hætta að hitta. Ekkert gengur.
Já-kórinn trúir þessu ekki, og heldur áfram með þá hugmynd í hausnum að hann sé yfirburðar. Enginn nái honum, hann viti alltaf betur.
Skrif og tilsvör sumra Framsóknarmanna, einkum þeirra sem litla reynslu hafa sem þingmenn, minna á þennan Já-kór og andrúmsloft afneitunar.
Sérstalega hefur þetta veri áberandi þegar kemur að sjálfsögðum og eðlilegum spurningum fréttamanna, vegna þeirrar uppljóstrunar að eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra eigi félag á Tortóla, með yfir milljarð í eignum, og að það hafi lýst 500 milljóna kröfum í bú föllnu bankanna þriggja. Án þess að nokkur hafi haft upplýsingar um það.
Eftir það sem undan er gengið, meðal annars pólitíska leiðsögn forsætisráðherra, ásamt Bjarna Benediktssyni, efnahags- og fjármálaráðherra, í málum er tengjast slitabúum föllnu bankanna, þá blasa við umfjöllunaratriði í fréttum, út frá eðlilegri blaðamennsku. Þar skipta pólitísk sjónarmið ekki öllu, heldur miklu frekar lög og reglur, trúnaður við almenning.
En Já-kórinn trúir engu slæmu upp á kórstjórann, og alls ekki að hann geti gert mistök. Hann telur sig - sem heild - ekki geta slegið feilnótu í neinu sem hann gerir, og allir þeir sem gagnrýna - einkum þeir sem dirfast að gera það innan kórsins - þeir eru sagðir vera í krossferð gegn kórnum eða viti einfaldlega ekki betur.
Alveg eins og í Big Short, þá ættu þessu hálfsjúku gagnrýnislausu einkenni á svörunum við sjálfsögðum spurningum fjölmiðla, að vekja upp spurningar um hvort það sé allt með felldu. Smátt og smátt munu fást svör við öllum spurningum sem máli skipta, og það þarf að fá þau fram, alveg óháð því hvað Já-kórinn segir. Hann þagnar kannski ekki alveg strax, en á endanum gerir hann það. Ef það er ekki allt með felldu.