Ég fékk hrunið á heilann. Fann stöðuga þörf til að skoða
þátt minn í atburðarásinni; fjárfestinguna í flatskjánum og vínarbrauð sem
lenti á vinnukvittun. Í góðærinu velti ég oft fyrir mér hvort það væri
merkingarlaus klisja að lífið sé hverfult enda sá ég ekkert í spilunum sem
studdi þá kenningu. Haustið 2007 hélt ég fimmtugsafmæli aldarinnar og í hroka
mínum skrifaði ég hástöfum á forsíðu prentaðs boðskorts: Á HÁTINDI LÍFSINS. Ári
síðar hafði ég fallið af tindinum ofan í efnahagskreppu og atvinnumissi,
heilsubrest og hjónaskilnað. Og ég fékk hrunið á heilann.
Það er tvennt sem einkum leitar á mig í persónulegu uppgjöri mínu. Annað er það að ég sagði eitt sinn í fyrirlestri í Kaupmannahöfn – að vísu góðlátlega en ansi drjúg með mig – að litla Ísland væri orðið stórveldi sem ætti Magazin du Nord. Enn í dag bið ég guð að fyrirgefa þessi ummæli. Hitt var alvarlegra. Ég varð þreytt á vælinu í konum sem ég kenndi og fannst þær sjá ofsjónum yfir auði útrásarvíkinganna. Ég sagði að þær yrðu að skilja að þessir menn kæmu með peninga inn í hagkerfið, öllum til hagsbóta. Ég gerðist málsvari brauðmolakenningarinnar í hópi fátækra kvenna. Mér skilst að guð sé ekki til viðræðu um iðrun og yfirbót fyrir þá synd.
Siðareglur og þakklætisæfingar
Októberdaginn þegar guð var beðinn að blessa Ísland setti ég mér siðareglur og samþykkti þær einhljóða. Þar stóð ýmislegt um flatskjái og vínarbrauð en rauði þráðurinn var sá að ég skyldi aldrei koma illa fram við aðra en að sama skapi aldrei láta neinn eiga neitt inni hjá mér. Á þessum degi hafði ég ekki hagfræðilegar forsendur til að ímynda mér annað en að kreppan hefði langvarandi skaðleg áhrif á pyngju mína og ríkiskassann. Ég sá ekkert í stöðunni annað en að íslenska þjóðin bæðist afsökunar á framferði sínu og borgaði skuldirnar. Seinna fyrirvarð ég mig fyrir þá afstöðu og uppnefndi sjálfa mig úrtölurödd. Í dag er ég glöð yfir að aðrar leiðir fundust. Sjálf er ég illa læs á upphæðir með mörgum núllum en ég lít upp til fólks sem kann að umbreyta hugmyndum í tölur og tölum í framkvæmd.
Ég hef vanið mig á að iðka þakklæti þegar ég leggst til svefns, svokallaðar bænir. Í huga mér dreg ég upp mynd af leiksviði og þar birtast þau Steingrímur og Jóhanna, Sigmundur og Bjarni. Þau haldast öll í hendur, hneigja sig djúpt og leyfa mér með lófataki að þakka sér fyrir að hafa bjargað mér úr bráðum háska. Í minningunni um björgunarafrekið geri ég engan greinarmun á hver gerði hvað, mér finnst þau hafa hjálpast að við að koma mér á lygnan sjó. Að baki þeim á sviðinu standa aukaleikararnir á Alþingi. Mér hefur dottið í hug að fara niður í þing og þakka hverjum kjörnum fulltrúa persónulega fyrir að vera þar fyrir mig.
En í leiðinni ætla ég að segja þeim hvernig þeir valda mér samfélagslegri sorg á hverjum einasta degi.
Ég vind mér beint í ríkisstjórnina
Eins og gefur að skilja er eðlilegt að gagnrýna fyrst þá sem fara með völdin hverju sinni.
Ég skrifaði eitt sinn grein um hina sérkennilegu sjúkdóma, átraskanir, og man að ég gat með engu móti skilið hvernig beinagrind getur horft í spegil og séð fitubollu. Afneitun var mér svo lokuð bók að ég afneitaði eigin afneitunum. Afneitun er nauðsynlegur varnarháttur en jafnframt algeng dánarorsök. Meðvirkni er annað nútímahugtak sem ég var áratugi að skilja. Samt er skilgreiningin sáraeinföld: Meðvirkni snýst um að styrkja óæskilega hegðun annarra þannig að það skaði mann sjálfan og viðhaldi hegðun hins.
Kæra ríkisstjórn, ég bið ykkur að horfast í augu við skaðleg áhrif Hönnu Birnu og Illuga nú þegar þið takist aftur á við atburði sem skerða traust til ykkar. Eitt sinn leit ég upp til Hönnu Birnu en eftir að hafa fylgst með henni þróa áhættuatriði sitt og hafa að engu aðvörunarorð okkar sem horfðum hrædd á finnst mér hún hafa rænt mig verðmætum. Hefði hún þegið ómeðvirka ráðgjöf til að horfast í augu við ranghugmyndir sínar um vandann hefði hún ekki tekið mikilvæga trú mína á stjórnmálin með sér í fallinu. Illugi Gunnarsson leitaði til jafnmeðvirkra ráðgjafa þegar hann festi augnaráðið í spegli afneitunarinnar. Ráðherra læsis virðist ekki skilja hvernig eitt N getur breytt merkingu orðs, að vanhæfi og vanhæfni er tvennt ólíkt. Ég held að umræðan um þetta N verði mikilvægasta samtal þjóðarinnar frá siðaskiptum. Drukkinn maður telst vanhæfur til aksturs þótt síðasta ökuferð hans hafi ekki borið vanhæfni hans vitni á óafturkræfan hátt. Það skiptir sköpum í íslensku þjóðfélagi að ráðamenn rugli ekki hugtökunum saman.
Samfélag okkar er blessunarlega að hætta að sætta sig við svona vandræðagang. Við köllum eftir siðareglum til að það megi verða ljósara hvað telst boðlegt og hvað siðlaust. Sjálf stóð ég mig að því að vorkenna aðstandendum Hönnu Birnu og Illuga fyrir að vera fórnarlömb illkvittinnar umræðu. Nú finn ég í djúpi sálar minnar að ég kæri mig ekki um að vera beðin um að vorkenna aðstandendum kjörinna fulltrúa sem koma sér í klípu á minn kostnað.
Af hverju verður sýningin að halda áfram?
Stundum vildi ég að við gætum haft Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem menntaðan einvald sem kæmi ágætum hugmyndum sínum í framkvæmd án þess að þurfa að rífast við þing og þjóð. Mér líður illa yfir því að allt sem forsætisráðherra segir og gerir vekur deilur og meinfyndni. Ástæður eru sjálfsagt margar en ein er hafin yfir allan vafa: Forsætisráðherra á við ímyndarvanda að stríða. Það sem ég skil síst í pólitík er hvers vegna stjórnmálamenn í hremmingum leita til spunameistara sem samkvæmt sápuóperum ráðleggja þeim helst að fella aldrei grímuna.
Aðrir fagmenn ráðleggja fólki að fella grímur. Fólk þarf að horfast í augu við hinn raunverulega vanda, rannsaka eigin þátt í honum og fá lánaða dómgreind til að öðlast þá auðmýkt sem þarf til að vinna bug á vandanum. Af hverju gilda önnur lögmál um stjórnmálamenn en okkur hin? Af hverju lendir samskiptavandi forsætisráðherra ekki inni á borði Vinnueftirlitsins þar sem alvarlegur samskiptavandi á vinnustað á heima? Af hverju breytast þingmenn Framsóknarflokksins í Sancho Panza og verja riddarann hugumprúða í stað þess að hjálpa honum að horfast í augu við hinn raunverulega vanda sinn? Mér finnst það ljótt. Af hverju er meðvirkni dyggð í stjórnmálum?
Fólk vill geta treyst
Ég hef enga skoðun á fjármálum Sigmundar Davíðs og þeirrar konu sem ég fyrir viku síðan hefði ekki þekkt á götu. Þannig á það að vera, hún á ekki að koma mér við. Ég vil vera fullkomlega örugg um að auðæfi hennar snerti ekki stjórnun landsins á nokkurn hátt.
Ég hef ekkert séð í fjölmiðlum sem sannar að eignir forsætisráðherrafrúarinnar hafi - eða hafi ekki - haft áhrif á athafnir ráðherrans né að athafnir ráðherrans hafi - eða hafi ekki- haft áhrif á eignastöðu eiginkonunnar. Ég veit líka að siðareglur þingmanna eru ýmist svo glænýjar eða ósamþykktar að tæknilega gilda þær ekki um málið.
Ég man þá tíð að fólk tékkaði gætilega á afstöðu annarra áður en það opinberaði eigin stjórnmálaskoðanir. Nú réttir fisksalinn mér skoðun sína umbúðalaust. Matreidd á kurteislegan hátt hljómar hún svo: ,,Reynslan segir að almennt séu fjárhagsleg tengsl á milli hjóna, að fólk ávaxti sitt pund í skattaskjólum af annarlegum ástæðum og að þeir sem meðhöndla almannafé verði að fyrirbyggja spillingu með því að gera þjóðinni fullnægjandi grein fyrir fjármálum sínum.“ Ég heyri fisksalann og aðra Íslendinga segja að þeir séu þreyttir á að vita ekki hvort hægt sé að treysta þeim sem við felum völdin.
Bréf sem hrópar á meðvirkni
Siðareglur eru til þess að hvorki þjóð né þjóðarleiðtogi þurfi að lenda í snörunni sem Sigmundur Davíð hefur nú um hálsinn. Sjálf bíð ég þolinmóð eftir umfjöllun erlendra blaða um íslensk auðæfi í skattaskjólum þótt ég vildi að íslenskir fjölmiðlar hefðu bolmagn til að sinna sjálfsagðri skyldu sinni um að kafa í þau mál. Ég bíð milli vonar og ótta af því að ég óska þess innilega að ekkert misjafnt komi í ljós um samspil auðs og valds á Íslandi en óttast jafnframt það sem kann að leynast í aflöndum.
Blogg forsætisráðherra blasti við mér sem ákall um meðvirkni. Mér fannst hann fara í manninn en ekki málefnið þegar hann setti eiginkonuna á milli sín og þjóðarinnar. Ég heyrði hann biðja mig um að vorkenna konu sinni og líta framhjá áhættuhegðun þeirra hjóna. Mér finnst raunverulegur vandi Sigmundar Davíðs felast í því hvernig hann bregst við máli sem enn væri hægt að takast á við með auðmýkt og reisn.
Kæru kjörnu fulltrúar
Af hverju tek ég ástandið svona nærri mér? Líklega vegna þess að ég fékk hrunið á heilann og skoðaði skaðann á eigin skinni. Líka af því að ég þekki fjölda grandvarra Íslendinga sem lifa eigin siðareglur um allt uppi á borðum. Ég lít ekki á stjórnmálamenn sem verur mér æðri, ég lít á þá sem samstarfsfólk til góðra verka. Ég vil ekki leynimakk og reyni að sýna ekki meðvirkni þegar ég sé að verið er að hámarka skaða með þögn.
Ég sakna neistans í stjórnmálunum, ég sakna kærleikans. Ég sé bara hagsmuni, ég sakna hugsjóna. Mig langar að benda ykkur, kæru þingmenn, á hugrænt tæki til að mála upp mynd af þeim veruleika sem maður vill sjá og hefur gagnast mannkyni í árþúsundir óháð trúarbrögðum. Hvernig væri að hefja þingfundi á að mála í sameiningu upp framtíðarmynd þar sem þið haldist öll í hendur og hneigið ykkur við lófatak þakklátra kjósenda?
Vissulega þarf sýningin að halda áfram en ég bið ykkur um að fella grímurnar og umskrifa handritið fyrir áhorfendur tuttugustu og fyrstu aldar. Takið leikhúsin til fyrirmyndar, þar fer prímadonnum fækkandi en leikhópar deila ábyrgðinni. Við nennum ekki lengur að horfa á dívur dingla í snörum eigin afneitunar.