Þessa dagana er fjöldi manns frá Mið-Austurlöndum á vergangi í Evrópu. Flestir þessara flóttamanna eru að flýja ofbeldi, sem ógnar lífi þeirra og tilveru. Hver og einn getur sett sig í spor foreldra með börn sem leggur í langt og hættulegt ferðalag til að skapa sér og sínum ásættanlega framtíð. Kemur það til Íslands til að taka frá okkur vinnuna eða leggjast upp á velferðarkerfið? Nei, það væri frekar að menn hefðu það í huga að þjóðin er að eldast og fjölgunin okkar of hæg til að tryggja velferð okkar til langframa. Nú þegar eiga um tíundi hlut landsmanna uppruna sinn að rekja til útlanda í fyrsta eða annan lið. Þessir nýju landsmenn hafa sýnt sig að vera vinnusamir og harðduglegir, góðir námsmenn og góðir Íslendingar. Við þurfum á þeim að halda.
Evrópuþjóðir óttast það að vissu leyti að flóttamenn verði þeim efnahagsleg byrði en rannsóknir sýna þó hið gagnstæða. Þær sýna m.a. að flóttamenn fá vanalega minna í bætur en þeir leggja til með sköttum. Megnið af þeim gögnum sem tiltæk eru sýna að efnahagsleg áhrif þess að taka á móti flóttamönnum eru almennt af jákvæðum toga. Straumurinn er einnig talinn líklegur til þess að hafa jákvæð áhrif á atvinnumarkaðinn þegar við hann bætast flóttamenn sem hafa sérkunnáttu á ákveðnum sviðum og eru vel menntaðir, líkt og margir Sýrlendingar eru. Íbúar Evrópu verða einfaldlega stöðugt eldri og í mörgum löndum fer íbúafjölda þeirra fækkandi. Thomas Piketty, hinn merki höfundur bókarinnar Capital in the 21st Century, skrifaði nýlega að flóttamannavandinn væri „tækifæri fyrir Evrópu til þess að blása lífi í hagkerfi álfunnar.“ Að taka á móti flóttamönnum er ekki aðeins hið rétta í stöðunni, heldur felur það einnig í sér efnahagslegan ávinning fyrir þjóðina.
Ástæður þess að dyr margra þjóða eru lokaðar eru ekki vegna efnahagslegra ástæðna heldur af ótta við menningarleg áhrif innflytjenda. Sem dæmi tilkynnti Slóvakía í ágúst á síðasta ári að þar í landi yrði aðeins tekið á móti kristnum flóttamönnum.
Árið 2010 voru 1,6 milljarður múslima í heiminum. Raunin er sú að við fáum ákveðna birtingarmynd af íslam í gegnum fjölmiðla, þar sem það eru gjarnan skoðanir og aðgerðir öfgahópa sem fá að heyrast og endurspegla ekki skoðanir meirihlutans. Við höfum ákveðnar hugmyndir um múslima og tengjum þá jafnvel við hryðjuverkastarfsemi. Rannsóknir sýna þó að þessi ímynd er að miklu leyti ýkt. Samkvæmt gögnum frá FBI voru 94% hryðjuverka sem framkvæmd voru í Bandaríkjunum á árunum 1980-2005 framin af öðrum þjóðfélagshópum en múslimum. Allt í lagi, en hvað með Evrópu? Meirihluti hryðjuverka hljóta að hafa verið framin af múslimum þar! Rangt. Skv. gögnum frá Europol voru framin yfir þúsund hryðjuverk í Evrópu á árunum 2010-2015 og áttu minna en 2% þeirra rætur sínar að rekja til íslam. Við höldum að íslam séu ofbeldisfull trúarbrögð. Hvað með þá staðreynd að fimm af síðustu tólf friðarverðlaunahöfum Nóbels hafa verið múslimar?
Venjuleg Ali og Fatima frá Mið-Austurlöndum eru eftir atvikum trúuð svo sem gerist meðal venjulegra Jóns og Gunnu á Íslandi. Þau eiga sinn guð eins og við. Það sem er efst í þeirra huga er það sama og venjulegra Íslendinga - að sjá sér og sínum farborða, hlúa að börnum sínum og að vera góðir og nýtir þjóðfélagsþegnar. Við eigum nefnilega margt sameiginlegt með þeim þótt svo virðist sem mörgum sé ofar í sinni hvað greinir okkur að.
Um miðbik síðustu aldar voru Evrópubúar á vergangi. Margar milljónir Evrópubúa tóku það sem þau gátu borið og flúðu land sitt í von um öryggi og betra líf. Almennt þykir það hafa verið ósköp eðlilegt miðað við aðstæður. Nú heyrast hins vegar víða efasemdaraddir hvað varðar flóttamenn sem streyma úr Sýrlandi. Það er óeðlilegt, að gefa sér að fólki sé ekki treystandi því það er annarrar trúar en við eða hafi alist upp við önnur lífsgildi en við. Okkar verk er að halda fram okkar lífsgildum í samskiptum við þessa nýbúa og njóta þeirrar menningar sem þeir flytja með sér. Þegar upp er staðið erum við öll manneskjur þó hver um sig hafi sín sérkenni.
Höfundar eru nokkrir nemendur Magnúsar Þorkels Bernharðssonar í námskeiðinu Mið-Austurlönd: Saga, trúarbrögð og stjórnmál vorið 2016.