Já-kór Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, skipaður mörgum þingmönnum Framsóknarflokksins og ýmsum helstu stuðningsmönnum hans, er þagnaður. Það heyrist ekkert frá honum lengur, nema innantómt væl í einstaka manni. Eftir að ráðherra var afhjúpaður í þætti Kastljóss í gær, og staðinn að því að leyna tilvist félagsins Wintris á Tortóla fyrir þingi og þjóð sem lýsti 500 milljóna króna kröfum í bú hinna föllnu banka, þá virðist kórinn ekkert vita hvað hann á að gera.
Forsætisráðherra, sem er upp við vegg og virðist ekkert geta gert annað en að hætta sem ráðherra og boða til kosninga, er nú aðalfréttaefni fjölmargra alþjóðlegra fjölmiðla. Hann er sýndur í myndbandi reyna að ljúga til um Wintris, í samtali við sænskan rannsóknarblaðamann, og sést yfirgefa viðtalið þegar hann finnur að málið er óþægilegt fyrir hann.
Þetta er ekki góð landkynning, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Raunar er hún algjörlega skammarleg, og augljóst mál að ríkisstjórnin hangir á bláþræði vegna þess að málið eitt og sér, er að veikja orðspor Íslands erlendis.
Fleiri angar þessa máls eru nú orðnir skýrari.
Ömurlegt hefur verið að fylgjast með viðbrögðum þingmanna Framsóknarflokksins í aðdraganda þess að Kastljós sýndi þáttinn og upplýsingarnar komu fram. Meira efni er á leiðinni, en frumkvæðisvinna Reykjavík Media, í samstarfi við rannsóknarblaðamenn víða um heim, hefur gert mikið samfélagslegt gagn.
Nokkrir þingmenn, Karl Garðarsson og Þorsteinn Sæmundsson Framsóknarflokki þar á meðal, notuðu stór orð um fjölmiðlamenn sem skrifuðu með gagnrýnum hætti um stöðu forsætisráðherra, þegar upplýsingarnar komu fram um félagið sem hann hafði leynt þingi og þjóð. Þeir skrifuðu einnig um RÚV og starfsmenn þess, með afar ómaklegum hætti, og það sama má segja um okkur á Kjarnanum. Sagan mun dæma þessi skrif illa, og fyrst og síðast vera þeim til minnkunar sem þau létu frá sér. Eftir standa orðin tóm og dónaskapur þessara reynslulitlu þingmanna, sem virðast hafa sett sig strax í spunastellingar Já-kórsins, þegar upplýsingarnar komu fram.
Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar Já-kór er farinn að mynda innsta kjarna leiðtoga, hvort sem er í fyrirtækjum eða stjórnmálum. Það endar alltaf með ósköpum, misjafnlega alvarlegum. Í þetta skiptið er komin upp alvarleg staða, og trúnaðarbresturinn gagnvart þjóðinni er kristaltær. Já-kórinn er þagnaður og Sjálfstæðisflokkurinn er ekki með hreinan skjöld heldur, með tengsl Ólafar Nordal innanríkisráðherra og Bjarna Benediktssonar efnahags- og fjármálaráðherra við aflandseyjufélög á borðinu.
Nýtt upphaf virðist í sjónmáli á stjórnmálasviðinu.