Atburðir síðustu daga afhjúpa ekki eingöngu vafasöm afhæfi einstakra stjórnmálamanna. Þeir eru birtingarmynd á rótgrónu vandamáli í íslenskum stjórnmálum sem ekki mun hverfa við það eitt að skipta út nokkrum embættismönnum. Vandinn liggur í óheilbrigðri stjórnmálamenningu sem endurspeglar ekki lýðræði heldur þingmenn sem sýna kjósendum ítrekaða vanvirðingu.
Við búum við fulltrúalýðræði. Á fjögurra ára fresti kjósum við þá einstaklinga sem við treystum best til að stjórna landinu okkar og verja hagsmuni þjóðarinnar. Þingmenn eru ekki fastráðnir heldur sitja þeir á Alþingi í umboði þjóðarinnar og viðvera þeirra veltur á trausti kjósenda. Það er því ótrúlegt að hugsa til þess hvernig þingmenn sýna fólki í landinu gríðarlega vanvirðingu hvað eftir annað með því að hagræða sannleikanum, misnota tímabundið vald sitt og taka ákvarðanir sem ganga þvert á vilja og hagsmuni almennings. Sama almenningi og mun í næstkomandi kosningum ákvarða hvort þessir þingmenn haldi starfi sínu á Alþingi eða þurfi að leita sér að nýjum vinnustað.
En svo virðist sem sumt stjórnmálafólk taki starfi sínu sem gefnu. Finnist þau jafnvel eiga rétt á því að sitja í embætti þrátt fyrir skort á trausti þjóðarinnar og gleymi því að hlutverk þeirra er að framfylgja vilja kjósenda – ekki að gæta hagsmuna flokksins, formannsins eða síns eigin. Stjórnarflokkar sem ákveða að sitja áfram í ríkisstjórn þrátt fyrir að traust almennings til stjórnarinnar og einstakra ráðherra sé í molum, eru greinilega ekki að hugsa um hagsmuni heildarinnar. Slík vinnubrögð ganga þvert á öll lýðræðisleg gildi – en lýðræði felur ekki eingöngu í sér að almenningur kjósi fólk til stjórnar heldur að hægt sé að leysa fólk frá starfi þegar því er ekki lengur treyst til þess að sitja við stjórnvölinn.
Með því að halda áfram völdum og ná mögulega að kreista örfáum stórum málum í gegnum þingið hafa flokkarnir tækifæri til að endurbyggja ímynd sína fyrir kosningar – og um það snýst málið. Að heilla kjósendur í nokkrar vikur á fjögurra ára fresti, skella réttu baráttumálunum á forsíður blaðanna, draga fram ´best of´ lista síðasta kjörtímabils og halda nokkur tertuboð. Í kringum kosningar eru kjósendur vinsælustu krakkarnir í skólanum – allir frambjóðendur vilja tala við þá og falla inn í hópinn. Á milli kosninga eru kjósendur hinsvegar kvöð og að þurfa að svara fyrir gjörðir eða útskýra ákvarðanir truflar þingmenn frá því að vinna að sínum málum. Stjórnmálamenning á Íslandi er með þeim hætti að þingmenn upplifa ekki pressu frá almenningi til að vera alltaf heiðarlegir eða standa við orð sín. Þegar upp hefur komist um óheiðarleika hafa afleiðingarnar hingað til ekki verið nægilega alvarlegar til að knýja fram breytt viðhorf þingmanna. Í ljósi yfirstandandi atburða er hagsmunaskráning þingmanna sérstaklega mikilvægt dæmi.
Stjórnmálafólki finnst ekki nauðsynlegt að upplýsa almenning um hagsmuni og persónuleg tengsl sem geta haft áhrif á störf þeirra. Þegar upp kemst um tilfelli þar sem eigin hagsmunir eða kunningsskapur hafa spilað hlutverk í ákvarðanatöku innan stjórnsýslunnar, heyrir til undantekninga að ráðamenn þjóðarinnar taki fulla ábyrgð. Algengara er að þeir reyni að hagræða sannleikanum, spili hlutverk fórnarlamba, ásaki fjölmiðla og stjórnarandstæðu um einelti eða reiði sig á hina klassísku afsökun „ég vissi þetta ekki“. Slík framkoma endurspeglar ekki eingöngu vanvirðingu við kjósendur sem treysta þessu fólki til að gæta hagsmunum þjóðarinnar. Hún sýnir einnig fram á óheilbrigða stjórnmálamenningu þar sem stjórnmálafólki finnst í lagi að ljúga að kjósendum til þess að tryggja veru sína í embætti. Við erum orðin slíkum óheiðarleika og tækifærissinnum vön að þegar stjórnmálafólk bregst við spillingu eða óviðeigandi hegðun með því axla ábyrgð og að segja af sér kemur það öllum í opna skjöldu, líkt og afsögn Júlíusar Vífils sýndi fram á.
Heiðarleg hagsmunaskráning er sérstaklega mikilvæg þar sem við erum fámenn þjóð. Fámennið felur í sér að fólk sest inn á Alþingi með ýmis fyrri störf og fjárfestingar í fararteskinu og samanlagt eru þingmenn eflaust með persónuleg tengsl inn í meirihluta stofnana og fyrirtækja á Íslandi. Hagsmunaárekstrar eru því nánast óumflýjanlegir. Fámenni réttlætir hins vegar ekki pólitík sem einkennist af óheiðarleika, vinagreiðum og hagsmunapoti. Í heilbrigðu lýðræði ættu þingmenn að vera hreinskilnir um þau tengsl og hagsmuni sem hafa áhrif á störf þeirra. Það er nefnilega ekki þannig að þeir sem eigi umtalsverða fjármuni eða skyldmenni í háttsettum stöðum séu minna hæfir til þess að gegna þingstörfum eða vinna að almennings hagsmunum. En að leyna slíkum upplýsingum dregur hinsvegar úr trúverðugleika viðkomandi þingmanna og trausti almennings á Alþingi í heild sinni.
Það er undir kjósendum og fjölmiðlum komið að krefjast aukins gagnsæis og þrýsta á þingmenn til að segja sannleikann um hagsmunatengsl. Enn fremur þarf stjórnkerfið sjálft að tryggja gagnsæi og lágmarka sveigjanleika fyrir fólk í valdastöðum til að leyna mikilvægum upplýsingum og hagræða reglum fyrir sig eða vel valda vildarvini. Panamaskjöl, Lekamál, Vafningsmál og önnur mál gefa til kynna að endurskoða þurfi vinnureglur og eftirlitsstörf fjölda stofnana í þessu samhengi.
Þetta er ekki í fyrsta og eflaust ekki síðasta skiptið sem embættismenn leyna hagsmunatengslum eða öðrum mikilvægum upplýsingum. Skrípaleikur síðustu daga gæti þó haft í för með sér jákvæðar afleiðingar ef hann verður til þess að draga athyglina að þeirri vanvirðingu við kjósendur sem einkennir íslenska stjórnmálamenningu í dag. Mótmæli, jafnt á Austurvelli sem og á netmiðlum, eru vísbending um vakningu kjósenda, en til þess að pólitíkin hér á landi breytist af alvöru er ekki nóg að þjóðin sé meðvituð um þetta vandamál í nokkrar vikur. Krafan um heiðarleika þarf að skila sér til stjórnmálafólks og hún má ekki fjara út eftir örfá ár þegar allir verða búnir að gleyma Panamaskjölunum.