Ræða Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í gær, var merkileg fyrir margra hluta sakir. Hún var ítarleg, og fjallaði um hvernig peningastefna í landinu yrði rekin til framtíðar, eftir að höft hafa verið losuð.
Eitt blasir við. Krónan er ekki að fara fljóta á markaði frjáls og óheft, eins og hún gerði á árunum 2001 og fram í nóvember 2008. Þá var búið í örvæntingu að reyna að festa gengisvístitöluna í 175, þegar fjármálakerfið var að hrynja, en allt kom fyrir ekki. Ekkert nema allur þungi ríkisvaldsins í gegnum lagasetningu, gat bjargað því að íslenska hagkerfið sogaðist ofan í skelfilega stöðu. Fjármagnshöftum var komið á.
Það er ekki ólíklegt að þetta tímabil, verði að stórum kafla í hagfræðikennslubókum framtíðarinnar, og eflaust eru þegar komnar nokkrar síður í mörgum þeirra, um þetta skeið. Eftir á að hyggja, var þetta líklega algjör fífldirfska, eins og útþensla bankakerfisins var sömuleiðis. Afleiðingarnar eru þekktar. Kerfishrun og neyðarlagasetning til að bjarga landinu frá næstum allsherjarþroti.
Framundan er lykilpunkturinn í áætlun um afnám hafta, sem gengið hefur vel til þess, og stendur þjóðarbúið eftir mun traustari fótum. Meira en sjö þúsund milljarða skuldir eru horfnar úr efnahagsreikningi þjóðarbúss eftir nauðasamninga slitabúa föllnu bankanna, og stöðugleikaframlögin til ríkisins styrkja stöðuna enn frekar.
En aflandskrónuútboðið er eftir, en með því verður mögulegt að formfesta nýja peningastefnu sem á að geta verið leiðarvísirinn inn í framtíðina.
Til einföldunar, á annars ítarlegri ræðu Más, þá má segja að hann hafi boðað peningastefnu þar sem Seðlabanki Íslands hafi meiri varúðartæki til að bregðast við aðstæðum, en hann bjó yfir fyrir hrunið. Þar á meðal er að grípa inn í þróun mála, ef innstreymi fjármagns verður of mikið, t.d. vegna vaxtamunarviðskipta.
Þá talaði Már einnig fyrir mikilvægi þess að halda í stofnanaumgjörð bankans, sem nú er notast við. Það er að peningastefnunefnd bankans taki ákvarðanir og upplýsi um rökstuðning með reglulegum hætti. Einn seðlabankastjóri sé síðan með aðstoðarseðlabankastjóra sér til stuðnings, sem báðir eiga sæti í peningastefnunefndinni.
Innan stjórnarflokkanna hefur verið vilji til þess að breyta þessu fyrirkomulagi, en ef það stendur til að gera það, þá verður það greinilega gert þvert gegn ráðleggingum Más. Spennandi verður að sjá hvað verður ofan í þessum efnum.
Már nefndi einnig, að það þyrfti að ljúka þessari vinnu, það er að búa til rammann um peningastefnuna, áður en farið yrði í það að losa um höft á almenning, eða innlenda aðila.
Þetta þýðir, að tíminn til þess að ljúka þessari vinnu er núna á næstu mánuðum, ef haftaferlið á ekki að tefjast. Vissulega getur þetta unnist hratt, óháð því hverjir eru við stjórnvölinn, en stjórnarkreppa, eins og hefur sést að undanförnu, eftir að forsætisráðherra sagði af sér, getur verið hættuspil. Hér vegast á ýmis sjónarmið, til dæmis hvort það sé yfir höfuð skynsamlegt að fresta kosningum, eða hvort stjórnmálaflokkarnir geti hugsanlega náð sáttum um þetta mál sérstaklega, fram að kosningum í haust.
Það eru almannahagsmunir í húfi, því eins og Már hefur sagt áður þá er lokahnykkurinn í þessari vinnu aðeins eitt skot. Það er engin önnur tilraun.
Vonandi tekst að vanda til verka, þrátt fyrir krefjandi aðstæður.