Í bakherberginu hefur undarfarið verið rifjuð upp Völvuspá DV fyrir árið 2016. Hún sagði meðal annars að árið framundan yrði mjög vont ár fyrir stjórnarandstöðuna og að Píratar myndu missa fylgi. Þetta yrði hins vegar gott ár hjá ríkisstjórnarflokkunum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson myndi styrkja stöðu sína. Fleiri myndu elska hann en færri hata.
Það er athyglisvert að bera þá spá saman við þann veruleika sem nú blasir við. Í þeim veruleika er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson búinn að segja af sér sem forsætisráðherra. Lykilmenn innan kjördæmis hans krefjast þess að hann segi líka af sér þingmennsku og formennsku í flokknum. Jóhannes Bjarnason, fyrrverandi oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri, sagði til dæmis við Kjarnann að Sigmundur Davíð hafi ekki áttað sig á að hann eigi ekki afturkvæmt í norðausturkjördæmi. Átta af hverjum tíu landsmönnum vantreysta honum og fylgi Framsóknarflokksins mælist undir átta prósentum. Einungis fjórðungur þjóðarinnar styður ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Píratar mælast hins vegar með um eða yfir 40 prósent fylgi í könnunum sem birtar voru í vikunni og stjórnarandstaðan með samtals tæplega 70 prósent fylgi.
Ljóst má vera af þessu að sýn þeirra sem halda um stjórnartaumanna hjá DV, og stóðu að baki þeirri óskhyggju sem boðuð var í Völvuspánni, á ekki mikið erindi í veruleikanum. Raunar má slá því föstu að hún sé í nær algjörri andstöðu við þá stöðu sem nú ríkir á landinu.