Ég þekki mann sem hatast bæði við móður sína og dóttur og
kennir báðum um slæm samskipti við sig. Það gengur náttúrlega ekki upp af því
að samskipti kynslóða hljóta að vera á ábyrgð þeirra sem hafa yfirsýnina,
þekkja fjölskylduleyndarmálin og hafa á langri ævi þroskað með sér hæfni til að
tjá sig. Ábyrgðin á samskiptum kynslóða hvílir að miklu leyti á herðum hinna
eldri.
Í samskiptum almennings og stjórnmálaafls má gera því skóna að flokkurinn teljist eldri, vitrari og reyndari aðilinn, að óháð aldri og pólitískri reynslu sé flokkurinn fullorðni aðilinn með bjargráðin. Þjóðin er eins og unglingurinn – öðruvísi í dag en í gær. Almenningur er illskiljanlegur, áhrifagjarn og tækifærissinnaður hópur sem á jafnvel eignir í skattaskjólum. En það er til önnur hlið á almenningi og hún er umbótasinnuð og full kærleika og réttlætiskenndar. Almenningur er yfirleitt seinþreyttur til vandræða.
Ef annað segja stjörnur tvær
Stjórnmálaflokkur ber ábyrgð á því að viðskiptavinir hans skilji hann. Hann verður að þarfagreina kúnnann án þess að vera eins og skopparakringla í kringum almenningsálitið. Þroskaður þjóðmálaflokkur á að geta tekið vilja almennings með sér þegar hann gengur til góðra verka.
Þegar þingflokkur Framsóknarmanna hittist síðastliðinn mánudag voru þau boð látin út ganga að flokksmenn skyldu ekki myndaðir við komu sína til fundarins. Vitanlega er sjálfsagt að sýna fólki í áfalli virðingu til dæmis með því að festa ekki sorg þess á filmu. En ástæður myndunarbannsins voru aðrar. Mér skilst að að flokkurinn hafi óttast að þingmenn kynnu að missa tiltrú almennings vegna óformlegs klæðaburðar síns. Ég skal upplýsa að það sem ekki brann upp af trausti mínu til jakkafata í hruninu hefur fuðrað upp á síðustu dögum.
Nýjasta ástæða þess að ég teysti ekki jakkafötum er sú hvernig strákarnir í Framsóknarflokknum koma fram við Vigdísi Hauksdóttur. Að því sögðu neyðist ég til að fara í fataskáp Vigdísar til að sýna dæmi um ytri ásýnd sem er lýðræðislega óheppileg. Vigdís gagnrýndi á dögunum þingheim fyrir rangt val á vinnuklæðnaði, val sem henni þótti ekki samboðið virðingu þings og þjóðar. Með fréttinni birtust myndir af henni í loðfeldi. Sjálf á ég pels sem ég nota af því að skaðinn er skeður, dýrið er dautt, en ég er meðvituð um smáskilaboðin sem ég sendi samfélaginu með því að skreyta mig skinninu.
Loðfeldur formanns fjárlaganefndar er hins vegar enginn smáskilaboð. Fjöldi fólks sér í þingmanni sem skreytir sig dauðum dýrum þingmann sem skeytir ekki um dýravernd. Verra er þó að fjöldi fólks sér í pelsklæddum formanni fjárlaganefndar þingmann sem ekki skeytir um jöfnuð í samfélaginu. Jafnvel þótt Vigdís veifaði Kommúnistaávarpinu sæju margir bara þennan umfangsmikla loðfeld sem í aldaraðir hefur verið tákn um auð og völd.
Stjórnmálamenn þurfa að hyggja að óyrtri tjáningu sinni. Það gildir einu hvað þeir segja línuna sína oft ef umgjörðin er á skjön við orðin.
O tempora, o mores
Þjóðin upplifir sorg enn á ný. Almenningur er marghöfða þurs og ástæður sorgarinnar því misjafnar. Sjálf syrgi ég Framsóknarflokk sem ég lærði að tengja við menningarleg afrek þingeyskra bænda. Ég man sjálfa mig á gagnfræðaskólaárunum sitjandi í kjördeild fyrir flokk sem ég upplifði sem félagshyggjuflokk. Mér finnst ég svikin, jafnvel svívirt.
Það er ekki Framsóknarflokksins að ákveða hvað sé viðeigandi klæðnaður og því síður viðeigandi hegðun. Líklega fær hann heldur ekki í bráð tækifæri til að skilgreina hvað séu góð verk. Á meðan ríkisstjórnin var að vinna „sín góðu verk“ dundaði almenningur sér við að breyta áliti sínu. Þrátt fyrir allan sinn ófullkomleika er almenningsálitið áttaviti sem við verðum að treysta.
Hluti almennings á peninga í skattaskjólum sem er auðvitað til skammar og segir margt um aga- og ístöðuleysi Íslendinga. En einstaklingur sem skýtur undan skatti hefur samt allan rétt til að gagnrýna kjörna fulltrúa sem gera það sama og ekki síst þá sem bera mesta ábyrgð á þjóðarhag.
Sá yðar sem syndlaus er á ekki alveg við í samfélagsumræðunni. Ef enginn mætti opna munninn af því að hann er ekkert betri sjálfur væri samfélagið aðhaldslaust og svipt tækifærum til að þroskast. Almenningur má hafa skoðun og opinbera hana þótt honum hafi einhvern tíma orðið á í messunni. Almenningur má hafa aðra skoðun í dag en í gær. Skoðanir taka blessunarlega breytingum og færa okkur í átt til nýrra tíma, nýrra siða.
Áhrif stjórnmálamanna fara stöðugt minnkandi
Ég virði það að tilfinningar fullorðna fólksins í ríkisstjórninni séu tættar þegar hún lendir í uppgjöri sem á sér enga hliðstæðu. Ég get skilið fálmkennda hegðun hennar og misvísandi skilaboð til okkar barnanna. Ég átta mig á að þegar til skilnaðar kemur finnst flestum eðlilegt að loka kafla í lífinu áður en þeir yfirgefa vonlausar aðstæðurnar.
Ég geri heldur ekki lítið úr hagstjórnarárangri á kjörtímabilinu. En þegar það er margtuggið í eyru mín við einkennilegustu aðstæður að ekkert skipti máli nema góð verk ríkisstjórnarinnar verð ég að afsaka mig á meðan að ég æli. Vissulega er góð staða ríkisfjármála dýrmæt gjöf en sé hún pökkuð inn í lygar og svik hendir þjóðin henni óopnaðri á haugana. Þannig virkum við og óvart erum það við sem förum með völdin. Þroskuð stjórnmálaöfl verða að skilja hvar hin raunverulegu völd liggja.
Það eru engin smáskilaboð sem þjóðin sendir stjórnvöldum í skoðanakönnunum, mótmælum og fjölmiðlum. Þjóðin gargar í gjallarhornið að hún treysti ekki þeim sem komu okkur í vandann til að leysa hann. Ég hitti fólk sem grætur. Ég hitti fólk sem lýsir viðbrögðum sínum við frægu viðtali eins og fórnarlömb lýsa ofbeldi. Ég heyrði konu segja frá því hvernig hún upplifði áframhaldandi aðkomu fyrrverandi forsætisráðherra að stjórnun landsins á sama hátt og varnarleysi sitt þegar maðurinn sem braut á henni hélt áfram að stjórna henni. Þetta eru raunverulegar tilfinningar sem skipta máli í þroskaferli þjóðar. Almenningsálitið hefur kveðið upp þann dóm að ekki sé kúl að halda kúlinu. Við gerum þær kröfur til fullorðna fólksins að það hafi styrk til að geta sýnt tilfinningar eins og uppgjöf og eftirsjá.
Óstýriláti unglingurinn á þjóðarheimilinu vill alltaf breytingar. Hann vill aðlaga innréttingarnar að eigin þörfum og þeirri framtíð sem hann ætlar að skapa. Unglingurinn kann ekki alltaf að skilgreina þarfirnar og orða óskirnar og hann lendir iðulega í átökum við foreldra sem eru nýbúnir að sigra eigin foreldra í baráttunni fyrir breytingum. En þroskuð stjórnvöld verða að hlusta á unglingsraddir á öllum aldri af því að þær mynda alltaf þjóðkórinn í fyllingu tímans. Það nægir stjórnvöldum ekki að telja sig vita hvar þau eru stödd í góðu verkum sínum, þau verða að átta sig á hvert þjóðin stefnir.