Borgunar-málið svokallaða hefur nú fengið ákveðinn lokapunkt með því að bankaráð bankans, sem Tryggvi Pálsson leiddi er að hætta, og mun nýtt bankaráð að öllum líkindum taka til starfa 22. apríl, þegar kosningu þess lýkur. Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, dró framboðs sitt til setu í bankaráði bankans til baka, eftir að borgaryfirvöld, þá væntanlega Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, komu þeim skilaboðum til Birgis að þeim þætti það ekki fara saman að vera í bankaráði Landsbankans og síðan fjármálastjóri borgarinnar.
Atkvæðagreiðslu um bankaráðið var því frestað til fundar sem fram fer 22. apríl næstkomandi.
Tryggvi, sem er þrautreyndur bankamaður og hefur gegnt yfirmannastöðum í bankakerfinu hér á landi, bæði á einkamarkaði og í seðlabankanum, áratugum saman, fór ítarlega yfir rekstur Landsbankans í skýrslu sem hann tók saman fyrir aðalfundinn, og gerði grein fyrir stóru myndinni. Hún er sú að endurreisnarstarfið í Landbankanum hefur gengið vel, og fjárhagsstaða bankans er nú traust. Það er eitt og sér mikið atriði, og það var ekki augljós eftir hrunið, að staðan yrði eins og hún er nú, þar sem eigið fé bankans nemur um 260 milljörðum króna. Sem er meira en hjá nokkru öðru fyrirtæki í landinu. Landsvirkjun kemur þar næst á eftir með ríflega 250 milljarða.
Hann ítrekaði það sem hann hefur áður sagt um Borgunar-málið svonefnda, að það hefði verið betra að auglýsa 31,2 prósent hlutinn í fyrirtækinu í opnu söluferli, og stuðla þannig að meiri sátt um söluna þegar hún fór fram, í lok árs 2014. „Aðalatriði svonefnds Borgunarmáls eru í raun einföld eins og þau snúa að Landsbankanum. Við hefðum betur selt hlutinn í opnu söluferli og séð fyrir mögulega hlutdeild Borgunar í söluandvirði Visa Europe. Mikilvægast er að engir annarlegir hvatar lágu að baki þeirri ákvörðun bankans að selja hlutinn á þann hátt sem gert var, heldur einvörðungu hagsmunir Landsbankans eins og þeir voru metnir á þeim tíma. Landsbankinn er búinn að birta opinberlega þær upplýsingar sem að honum snúa og Fjármálaeftirlitið og Bankasýsla ríkisins hafa fjallað um það og sagt sitt álit. Framundan er umbeðin úttekt Ríkisendurskoðunar. Bankinn hefur dregið lærdóm af þeirri umræðu sem varð í kjölfar umræddra viðskipta og allt verklag þessu tengt er í endurskoðun. Fyrir tveimur vikum síðan breytti Landsbankinn með samhljóða ákvörðun bankaráðs stefnu sinni um sölu eigna og skilgreindi nýja stefnu vegna orðsporsáhættu,“ sagði Tryggvi.
Þetta er rétt hjá Tryggva. Áhrifamáttur þess að auglýsa eignir til sölu, sem almenningur á, er ekki aðeins til að auka gagnsæi og draga úr tortryggni. Heldur ekki síður til að stuðla að samkeppni um greiningarmatið á virðinu. Því fleiri sem eru að berjast um eignirnar, því líklegra er að ítarlegra mat fari fram á virði þess sem er verið að selja. Einfalt en áhrifamikið, og alltaf til hagsbóta fyrir seljanda. Þetta voru því augljóslega mikil mistök hjá Landsbankanum.
Þetta er ekki léttvægt atriði, heldur mikilvægt, og því eðlilegt að fjölmiðlar beini spjótunum að þessu atriði sérstaklega, það er sjálfri aðferðarfræðinni í söluferlinu.
Kjarninn hefur greint ítarlega frá Borgunar-máli frá fyrsta degi, og öllum hliðum þess. Allir fjölmiðlar í landinu hafa vitaskuld gert það sömuleiðis, en þegar stjórnmálamenn létu sig málið varða - með beinum yfirlýsingum og afskiptum - þá varð málið strax að stærra máli. Auk þess er stefna Landsbankans, þegar kemur að sölu eigna, mikilvægt mál fyrir almenning í ljósi þess að hann á bankann, eða ríflega 98 prósent hlut í honum.
Það sem lítið hefur verið rætt um, er hvort þessi pólitísku afskipti af bankaráðinu, í gegnum Bankasýslu ríkisins - eftir beinum undirliggjandi skipunum frá Bjarna Benediktssyni, efnahags- og fjármálaráðherra - séu rétt leið til að taka á svona málum. Skipun um að reka bankastjórnn, Steinþór Pálsson, sem greint hefur verið frá, er undir sama hatti í þessum efnum.
Þetta er erfið lína að feta, og sagan dæmir oft hlutina með öðrum hætti, þegar rykið hefur sest og yfirsýnin er meiri og atburðarásin sömuleiðis. Stjórnmálamenn þurfa að fara varlega, ekki síst í ljósi þess í hvaða veruleika íslenska fjármálakerfið er nú, þar sem ríkið á Landsbankann að nánast öllu leyti, Íslandsbanka 100 prósent og 13 prósent í Arion banka. Við bætast svo lánasjóðir eins og Íbúðalánasjóður, LÍN og Byggðastofnun. Samtals er ríkið með nærri 80 prósent hlutdeild á fjármálamarkaði.
Þetta er viðkvæm staða, svo ekki sé meira sagt, og vonandi átta stjórnmálamenn sig á því.
Stjórnmálamenn þurfa líka að líta í eigin barm í þessu máli, og velta því upp hvernig megi gera lög og reglur skýrari, þegar kemur að sölu á eignum bankanna. Það er full þörf á því, en Fjármálameftirlitið hefur til þessa gefið bönkunum mikinn slaka í þessum málum, og leyft þeim að stunda óskyldan rekstur í gegnum eignarhald á fyrirtækjum í atvinnulífinu, árum saman. Þetta er bannað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nema með undanþágu FME og hefur henni verið beitt frjálslega á undanförnum árum. Þetta er eitt þeirra atriða sem Alþingi hefði getað markað betur með skýrari löggjöf. Það er hverstu lengi bankarnir geta haldið á fyrirtækjum í óskyldum rekstri. Næg eftirspurn er eftir eignum, svo það ættu ekki að vera rök í málinu, að bankar eigi að fá endanlausan tíma til að reyna að hámarka virði eignanna. Til lengdar er það fráleit staða að bankarnir séu lánveitendur fyrirtækja á samkeppnismarkaði, og rekstraraðilar þeirra sömuleiðis.
Alþingi hefði átt að leggja betri línur fyrir FME og bankanna í þessum efnum, eigendastefna Bankasýslunnar hefði þá haft sterkari grunn til að byggja á.
Þessi efnisatriði, samantekin, eru mikilvæg þegar kemur að því að endurheimta traust í samfélaginu og þá sérstaklega á fjármálakerfinu. Vonandi tekst nýju bankaráði í Landsbankanum vel upp í rekstri bankans á næstunni, og markar sér á sama tíma skýra stefnu um að breyta bankanum ekki í stofnun sem útdeilir peningum undir pólitískum þrýstingi. Það er hrollvekjandi tilhugsun.