Um allan heim er nú talað um þann vanda sem felst í
„financialisation“ í atvinnulífinu. Hugtakið er ekki auðþýðanlegt en lýsir því
þegar til verður peningaafurð sem auðgar þá sem yfir hana komast, án þess að
hún skapi nein ný samfélagsleg verðmæti. Það mætti kalla þetta „fjárpökkun“ því
þarna eru búnir til vafningar en það má líka hugsa hugtakið „ónytjafjársýsla“ –
því hér erum við að tala um fjársýslu sem þjónar ekki neinum hagsmunum
raunhagkerfisins en skapar iðnu fólki stöðu til að búa sér til fé með tryggingu
í annarra manna fé eða almannafé.
Íslenskt efnhagslíf er gegnsýrt af þessu og hefur verið alla tíð. Menn hafa auðgast á að komast yfir aðstöðu eða eignir ríkisins allan lýðveldistímann, án þess að eiga fyrir þeim.
Marshall-aðstoðin rann til útvalinna, útvaldir fengu einir að sinna verktöku fyrir Varnarliðið og rukka ógrynni fjár fyrir, útvaldir fengu að vita um gengisfellingar á undan öðrum og gátu átt viðskipti á gamla genginu, útvaldir fengu einir lóðir í Reykjavík, útvaldir fengu að eigngera kvótann þegar kvótakerfinu var komið á, útvaldir fengu að kaupa ríkiseignir á undirverði þegar einkavæðing ríkiseigna hófst á níunda og tíunda áratugnum og útvaldir fengu einir að kaupa bankana þegar þeir voru einkavæddir rétt fyrir hrun.
Þessu verður að breyta með nýjum grundvallarreglum í viðskiptalífinu. Við eigum að setja framleiðniaukningu en ekki bólugróða í forgang atvinnu- og efnahagsmálastefnunnar. Hagvöxtur og hagvöxtur er ekki það sama. Vöxtur sem byggir undir fjölbreytt atvinnulíf og stendur undir vel launuðum störfum fyrir venjulegt fólk er öllum til góða. Vöxtur sem byggir á bólugróða eykur misskiptingu, lyftir þeim allra ríkustu og skaðar almenna velsæld. Markaðsviðskipti eru af hinu góða, en það er ekki gott ef viðskipti byggja á því að vel tengdir aðilar véli með annarra manna fé og auðgist á því, hvorki frá hagfræðilegu né pólitísku sjónarmiði. Það á líka ekkert skylt við heilbrigðan markað.
Þess vegna er grundvallaratriði að tryggja almenningi í landinu arð af sameiginlegum auðlindum og arð af ríkiseignum og gefa ófrávíkjanleg fyrirmæli um samkeppni um sölu þeirra. Við þurfum líka að innleiða fyrningarleið í sjávarútvegi, sem allir hljóta nú að sjá að er besta leiðin til að tryggja nýliðun, samkeppni og fullnægjandi arð af auðlindinni til almennings.
Við þurfum líka að nýta það tækifæri sem nú er að opnast með ráðandi umsvifum ríkisvaldsins á fjármálamarkaði til að laga bankakerfið að þörfum almennings, heimilanna og verðmætaskapandi fyrirtækja. Þess vegna hefur Samfylkingin boðið hinum heimsfræga hagfræðingi, John Kay, til landsins 24. apríl nk. Kay hefur nýlega skrifað merka bók sem ber nafnið „Other people‘s money“ og fjallar um það öngstræti sem fjármálakerfi Vesturlanda er komið í og vandann sem fjárpökkun eða ónytjafjársýsla skapar á kostnað alls almennings. Í því skyni þarf að hugsa stórt. Við höfum oft talað um aðskilnað fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, en það er langt frá því að duga. Það þarf miklu stórtækari breytingar. Eignastýring á í öllum tilvikum að fara út úr bönkum, enda eiga bankar ekkert með að fjárfesta fyrir annarra manna fé. Það þarf líka að banna beinar fjárfestingar banka í fyrirtækjum. Svo þarf að verja sérstaklega innstæður almennings og aðskilja þær annarri starfsemi banka.
Besta dæmið um það hvernig við höfum gleymt okkur í úreltri umræðu er sú staðreynd að enginn talar á Íslandi í dag um að allra handanna sjóðir sinna nú í reynd bankastarfsemi með útlánum til fyrirtækja, án þess að lúta neinum reglum af hendi hins opinbera. Það er undarleg afleiðing hertra reglna um bankastarfsemi eftir alþjóðlega fjármálakreppu að stærri hluti útlánaviðskipta en nokkru sinni fyrr lúti alls engum leikreglum!
Við þurfum að takast á við veruleikann eins og hann er. Íslenskt efnahagslíf þarf grundvallarbreytinga við og tækifærið til að gera þær er núna.