Það er um margt merkilegt, að íslenska ríkið sé með um 80 prósent markaðshlutdeild í fjármálaþjónustu hér á landi, í gegnum hlutafjáreign sína í Landsbankanum (98,2%), Íslandsbanka (100 prósent), LÍN, Íbúalánasjóði og Byggðastofnun. Auk þess á ríkið ennþá eignarhluti í sparisjóðakerfinu og 13 prósent hlut í Arion banka.
Á skömmum tíma hefur ríkið því fengið fjármálakerfið næstum allt í fangið, og stendur frammi fyrir því að geta endurskipulagt kerfið.
Stokka spilin
Ekki er vanþörf á því að hugsa málin upp á nýtt þegar fjármálakerfið er annars vegar. Eitt blasir við öllum: Íslenska fjármálakerfið er í öllum meginatriðum ólíkt fjármálakerfum í öðrum löndum. Ekki nóg með að hér sé minnsta myntsvæði heimsins, einangrað innan hafta - sem ekki stendur til að afnema – heldur er líka öllum augljóst að íslenska bankakerfið mun aldrei aftur þenjast út á alþjóðleg markaðsvæði. Til viðbótar er síðan sú grunnhugmynd í gildi að Seðlbankinn er banki bankanna þegar á reynir. Skattgreiðendur eru kallaðir til í þegar í óefni er komið, óháð eignarhaldi.
Útrásin er aðeins í boði fyrir fyrirtæki í fjármálaþjónustu, sem ekki njóta neinnar ríkisábyrgðar, beinnar eða óbeinnar. Má þar nefna sérhæfð fyrirtæki á sviði fyrirtækjaþjónustu, rekstri sjóða eða eignastýringar. Það er hið besta mál að þau bjóði upp á alþjóðlega þjónustu, og má nefna GAMMA því til staðfestingar, sem nú er farið að hasla sér völl í London.
Hvernig þjónar það almenningi best?
En til framtíðar hlýtur þetta að vekja stjórnmálamenn, alveg eins og alla aðra, til umhugsunar um hvernig kerfið á að vera og hvernig ríkið, sem eigandi þess og ábyrgðaraðili þegar á reynir, ætlar að hafa kerfið þannig að það þjóni íslenskum almenningi sem best.
Þetta ætti að vera helsta kosningamálið í komandi kosningum. Því miður virðist fátt benda til þess að svo verði. Þess í stað er rætt um hvernig eigi að standa að sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálakerfinu eins og það er núna.
Það verða að teljast ótímabærar spurningar á meðan ekki liggur fyrir hvort það standi raunverulega til, eftir það sem á undan er gengið, að breyta ekki fjármálakerfinu neitt sem heitið getur og aðskilja með öllu starfsemi sem eðlilegt getur talist að njóti einhverrar ríkisábyrgðar, og síðan aðra starfsemi sem ekki á að njóta neinnar slíkrar ábyrgðar. Aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi er þetta oft kallað, en það má líka tala um aðskilnað starfsemi sem eðlilegt er að njóti einhverrar ríkisábyrgðar og síðan starfsemi sem ekki ætti að njóta neinnar ríkisábyrgðar.
Ríkið heldur sjálft úti samkeppniseftirliti og ætti því að þekkja þessi sjónarmið mæta vel, og hvenær það getur talist beinlínis hættulegt hagkerfinu, ef það er komin bein eða óbein ríkisábyrgð á starfsemi. Fjármálakerfið er kerfislega nauðsynlegt, og því blasir við að öll álitamál er varða það ættu að vera forgangsmál.
Launamálin bíða þess einnig að vera skoðuð, því ríkið getur varla talið það eðlilegt, að borga ríkisstarfsmönnum í fjármálaþjónustu mun hærri laun heldur en öðrum vel menntuðum starfsmönnum ríkisins sem sinna mikilvægum störfum. Eiga til dæmis starfsmenn hjá ríkinu í fjármálaþjónustu að fá hærri laun en sérfræðingar hjá Lyfjastofnun? Ef svarið er já, þá af hverju? Það má vera að einhver telji það vera heilagan sannleika, að bankastarfsmenn eigi að fá hærri laun en aðrir, en þetta er ný staða sem nú er komin upp. Fjármálakerfið er einangrað, að mestu í eigu ríkisins og með bakábyrgð þess. Það þarf að ræða um grundvallaratriðin út frá þessari stöðu, og launamálin eru þar á meðal.
Treystum fólkinu
Eins og staða mála er nú þá er íslenska ríkið með fólk í vinnu við að miðla hlutabréfaviðskiptum. Út frá ímyndinni þá eru fá stöf jafn steríótýpísk kapítalismastörf og miðlun hlutabréfa. En svona fór þetta hjá okkur, þegar við beittum neyðarréttinum og fjármagnshöftum til að koma í veg fyrir algjört hrun fjármálakerfisins með þroti hagkerfisins. Aðeins þungi ríkisvaldsins bjargaði málum.
Það er eðlilegt að hugsa þessi mál upp á nýtt, og velta því upp hvort ekki megi brjóta fjármálakerfið meira upp, og treysta því ágæta starfsfólki sem sinnir ýmsum störfum, sem ekki ættu að njóta neinnar ríkisábyrgðar, til þess að standa á eigin fótum á markaðnum. Það á við um miðlun hlutabréfa og ýmislegt fleira.
Það ætti ekki að vera neitt að óttast, og það er eðlilegt að skoða þessi mál vel.