Þyrnirósarlýðræði

Auglýsing

Síðustu daga hefur verið klifað á því að í haust standi til að „virkja lýðræðið“ með því að kjósa til Alþingis áður en kjörtímabilið sé úti. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur endurtekið þennan frasa nokkrum sinnum eins og til að leggja áherslu á mikilvægi lýðræðislegra stjórnarhátta. Í þessum orðum (og meðfylgjandi gjörðum) birtist afar sérstök sýn á lýðræði sem ég vil gera þrenns konar athugasemdir við.

(1) Lýðræði sem stjórnskipan er alltaf virkt. Hugmynd Bjarna virðist vera að lýðræðið sofi á milli kosninga en að tilteknir ráðamenn geti vakið það upp ef sérstakt tilefni er til. Þetta mætti kalla Þyrnirósarlýðræði því svefninn langi er þá eitt megineinkenni þess.

En lýðræðið er alltaf virkt og aldrei sofandi. Það er hvorki sérstakt hlutverk forsætisráðherra eða fjármálaráðherra, eða annarra í ríkisstjórn, að virkja lýðræðið. Endanlegt vald liggur hjá kjósendum og löggjafarvaldið (Alþingi) og framkvæmdarvaldið (ríkisstjórn) vinnur á endanum í umboði kjósenda. Þetta umboð gerir ráð fyrir trausti og því er sú spurning í rauninni alltaf möguleg hvort viðeigandi sé að rjúfa þing og boða til kosninga áður en kjörtímabil er liðið. Yfirleitt er það ekki viðeigandi, heldur þvert á móti eðlilegt að alþingi og ríkisstjórn starfi út kjörtímabil á sömu forsendum og leiddu til þess hverjir voru kosnir í seinustu kosningum. En ef traust er ekki lengur fyrir hendi, skortir yfirvaldið það lýðræðislega réttmæti sem gerir beitingu hins lýðræðislega valds, bæði löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, ásættanlega fyrir þá sem þurfa að lúta valdinu (sbr. það sem Elvira Méndez Pinedo kallar „þjóðmæti“).

Auglýsing

(2) Lýðræði er meira en útdeiling valds. Úr orðum Bjarna má lesa hugmynd um að lýðræði varði fyrst og fremst útdeilingu valds – að hlutverk kjósenda sé að velja í valdastóla en þess á milli sofi þeir vært. Svefn borgaranna einkennir lýðræðislega þátttöku og því getum við aftur talað um Þyrnirósarlýðræði. Samkvæmt þessu er pólitíkin fyrst og síðast valdatafl og hið lýðræðislega vald er í eðli sínu lyklavöld. Stjórnskipanin skilgreinir tilteknar valdastöður og tilgangur hins lýðræðislega ferlis er fyrst og fremst að velja í þær. Valdinu má svo beita að vild svo framarlega sem valdhafinn stígi ekki út fyrir ramma laga. Það sem stundum er kallað „lýðræðislegt aðhald“ felst þá eingöngu í því að standa skil gjörða sinna þegar lýðræðið verður virkt í kosningum.

En lýðræði snýst ekki bara um útdeilingu valds heldur einnig um meðferð valds. Í lýðræði er jafnan óviðeigandi að réttlæta valdbeitingu á þeim forsendum að tiltekinn einstaklingur hafi verið þess bær að beita valdinu vegna þess að hann hafi verið handhafi valdsins. Slík réttlæting segir einungis til um lögmæti valdbeitingar en ekkert um það hvort valdbeitingin hafi verið lýðræðislega réttmæt. Lýðræðislegt réttmæti gerir ráð fyrir því að lýðræðisleg gildi séu höfð í heiðri, að ákvarðanir séu teknar með gegnsæjum hætti og að þær megi réttlæta á forsendum sem ekki mismuni borgurunum. Hugmyndin um lýðræðislegt réttmæti (sem er annað en lögmæti) hefur verið lykilatriði í frjálslyndum lýðræðishugmyndum Vesturlanda allt frá tímum Rousseaus og frönsku byltingarinnar. Sá sem beitir valdi í krafti stöðu (kannski í krafti lögmætis), án tillits til lýðræðislegra gilda, varpar fyrir róða grunnstoðum hinnar vestrænu lýðræðishefðar. Slík afskræming lýðræðisins birtist okkur nú með skýrum hætti, t.d. í Rússlandi, Tyrklandi, Ungverjalandi og Póllandi. Og kannski ættum við að líta okkur nær.

(3) Lýðræðisleg stjórn er ekki eins og stjórn í fyrirtæki. Í hugmyndum Bjarna birtist hugmynd um lýðræðislegar kosningar sem séu sambærilegar við kosningar í stjórn fyrirtækis á aðalfundi þess. Sitjandi stjórn leggur fram ársreikning félagsins og á grundvelli hans falast hún eftir áframhaldandi stjórnarsetu. Ársreikninginn – eða árangurinn – er svo fegraður eftir bestu getu á meðan gagnrýnendur draga fram neikvæðar hliðar og reyna að gera ásýndina sem versta. Umræðan verður einhvers konar blekkingarleikur – að vísu gengur ekki hvað sem er, en menn seilast eins langt og kostur er. Aðalatriðið er samt að umræðan miðar ekki að því (a) að leita að því sem fólk geti sameinast um, (b) að fólk skilji hvert annað, eða (c) að komast að því hvert eigi yfirleitt að stefna. Markmið umræðunnar er einfaldlega að fá umboð til að stjórna fram að næstu kosningum á meðan hinn óbreytti hluthafi – pöpullinn – sefur (sbr. atriði 2). Lýðræðisleg umræða verður hreint kapphlaup um lyklavöldin. Hér birtist Þyrnirósarlýðræðið enn einu sinni, en nú á skammvinnri vökustund – brátt mun tímabil svefnsins aftur taka við.

En lýðræðisleg stjórn ríkis er ekki eins og stjórn í fyrirtæki. Fyrirtæki eru stofnuð í kringum tiltekna starfsemi og fólk velur að ganga til liðs við fyrirtæki eða snúa við þeim baki. Fólk velur ekki að ganga til liðs við samfélag heldur fæðist það inn í samfélag. Og samfélagið er ekki stofnað utan um tiltekin verkefni eða til að vinna að afmörkuðum hagsmunum, heldur er það vettvangur allra sem því tilheyra til að lifa góðu lífi. Þess vegna er réttlæti æðsta dygð í stofnunum samfélagsins á meðan fyrirtækjarekstur lýtur oft frekar hagkvæmnis- og arðsemissjónarmiðum.

Vegna þess að fólk fæðist inn í samfélag sem síðan er umgjörðin um gjörvalla leit þess að hinu góða lífi, er lýðræði ekki bara tæki til að taka ákvarðanir í ljósi andstæðra skoðana og jafnvel átaka, heldur háttur á að lifa saman þar sem leitast er við að ná sáttum, ekki bara málamiðlunum. Og sættirnar byggjast á sameiginlegri leit að skilningi á því sem er gott fyrir samfélagið og einstaklingana sem þar búa, og sameiginlegri leit að leiðum að þeim markmiðum sem stefnt er að. Hér skiptir höfuðmáli að í lýðræði er leitast við að hafa alla með, líka þá sem eru í minnihluta.

Andstætt Þyrnirósarlýðræðinu er til hugmynd um lýðræði sem gerir ráð fyrir því að fólkið – það sem hið lýðræðislega vald á rætur í – sé alltaf vakandi, alltaf virkt og alltaf þátttakandi í umræðunni. Stundum er talað um samræðulýðræði eða rökræðulýðræði (sbr. kaflann „Prútt eða rök og réttlæti“ í bók minni Náttúra, vald og verðmæti, sjá líka Ritið, 4. árg. nr. 1, 2004). Samkvæmt þessari hugmynd (a) varðar lýðræði ekki bara útdeilingu valds, heldur líka meðferð valds, (b) forsenda valdbeitingar er að valdhafinn njóti trausts og viðurkenningar sem lýðræðislegur valdhafi, ekki er nóg að hafa lyklavöldin, (c) lýðræðisleg samræða hefur gagnkvæman skilning og samstarf að markmiði en er ekki blekkingarleikur – einhvers konar sölumennska eigin ágætis – á fjögurra ára fresti, og (d) lýðræðislegt réttmæti byggist á hófsemd og virðingu, ekki á því að vera handhafi lyklavalds.

Rökræðulýðræði verður ekki að veruleika með því einu að fylgja formlegri stjórnskipan Íslands. Aðrar forsendur verða að vera til staðar og þá einkum ein: Valdhafar – þ.e. þeir sem ráða mestu um hvernig valdi er beitt, hvaða valdmörk þeir sem hafa lyklavöldin virða, hvernig pólitísk umræða er iðkuð og hvernig ákvarðanir eru réttlættar – verða að hafa það sem við gætum kallað lýðræðislega sómatilfinningu. Eiginlegt lýðræði verður aldrei að veruleika nema valdhafar sjái sóma sinn í því að virða lýðræðisleg gildi og starfa í anda þeirra. Því miður hefur reynslan oft verið sú – ekki síst síðustu vikurnar – að valdhafar reyna eftir fremsta megni að sniðganga lýðræðisleg gildi til að halda í völdin.

Höfundur er heimspekingur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None