Bréf til Ólafs Ragnars

Auglýsing

Manstu, Ólafur, eftir Keflavíkurgöngunni sumarið 1987? Þú varst nýorðinn formaður Alþýðubandalagsins, hélst barátturæðu yfir okkur sem höfðum safnast saman í upphafi göngunnar við aðalhliðið að herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Þú hvattir okkur til dáða, sagðir eitt og annað um mikilvægi málsins. Síðan gengum við af stað – en þú settist upp í bíl sem bar þig mjúklega til Reykjavíkur. Við hin gengum alla leið. Ég man að mér fannst þetta svolítið einkennilegt, því þú hafðir ekkert afsakað þig, bara horfið á braut. Sjálfur formaðurinn. Einhverjum klukkutímum síðar sígur gangan framhjá Skaftahlíðinni, með stefnuna á Lækjartorg. Og hver birtist þá skyndilega, göngumóður, í strigaskóm, í fremstu röð, nema þú, Ólafur Ragnar, eins og þú hefðir gengið hvert skref með okkur frá aðalhliðinu til Reykjavíkur, hinn staðfasti formaður, leiðtoginn sem tekur sér stöðu með fólki sínu.

Að hagræða staðreyndum

Við getum auðvitað haft okkar skoðanir á Keflavíkurgöngunni, andstöðunni gegn bandaríska hernum, en það skiptir ekki máli hérna. Það sem skiptir máli er breytni þín. Ég hef nefnilega oft hugsað um þetta. Auðvitað gastu haft þínar ástæður fyrir að taka ekki þátt í göngunni, sem þú studdir svo heilshugar, enda eitt af helstu baráttumálum þess flokks sem þú varst formaður fyrir. Góðar og gildar ástæður. En ég hef hugsað um það hvernig þú birtist þarna skyndilega meðal okkar, einmitt þegar styttist í komu fjölmiðla, og til fara eins og þú hefðir gengið alla leið. Það virtist sem þú vildir láta líta út fyrir að sú værir raunin. Að þú hefðir gengið alla leið. Þá má því segja að þú hafir verið að hagræða staðreyndum. Þetta var hegðun þess sem leggur áherslu að vera á réttum stað og fara stystu leiðina þangað.

Þessi Keflavíkurganga var farin fyrir næstum þremur áratugum. Eftir því sem árunum hefur undið fram hef ég ekki getað varist því að draga þá ályktun, að þessi atburður hafi sýnt í hnotskurn hversu langt hægt er að komast með því að hagræða hlutum sér í hag.

Auglýsing

Þú hefur setið lengi sem forseti. Greindur maður, slyngur, hefur líka átt þína góðu spretti; ánægður var ég með þig þegar þú stöðvaðir fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar, frumvarp sem hann virtist hafa samið í hálfgerðu bræðiskasti við eldhúsborðið. Ég var ánægður vegna þess að þar stöðvaðir þú einræðistilburði forsætisráðherra sem taldi sig ómissandi, hafa fullkomlega rétt fyrir sér í öllum málum, og fannst leikreglur lýðræðis og fagmennsku flækjast óþarflega fyrir. Síðan liðu ár.

Kemst skilgreiningin á íslensku lýðræði fyrir í þremur nöfnum?

Og góðærið kom. Þá voru veislur. Við þurfum ekki að rifja það upp. Samt hljótum við að gera það núna, þegar þú býður þig fram til embættis í sjötta sinn; hvernig þú notaðir stöðu þína og embætti til að auglýsa útrásarvíkinga víða um heim. Talaðir um þá sem snillinga, einstæða hæfileikamenn og fánabera Íslands. Ekki löngu síðar kom í ljós að margir þeirra eru með afar hæpna siðferðiskennd, og sitja nú sumir inni fyrir stórfelld svik. Þar fórstu illa með embættið, þar gerðir þú alvarleg mistök; lést siðlitla menn spila á þig eins og vel stillt hljóðfæri. Eftir hrunið var skrifuð mikil og vönduð Rannsóknarskýrsla þar sem þú varst gagnrýndur af festu fyrir þetta. Eðlilega voru fleiri gagnrýndir í því riti, full ástæða til, en tveir skáru sig úr þegar kom að viðbrögðum við þeirri gagnrýni: þú og þinn forni fjandvinur, Davíð Oddsson. Þar sýnduð þið dapurlegan skort á auðmýkt. 

Stundum virðist þið Davíð – maður með skítlegt eðli, sagðir þú einu sinni um hann úr ræðustól Alþingis – af sama meiði. Sem og hinn ungi Sigmundur Davíð. Menn sem að eigin mati gerið aldrei mistök. Fari eitthvað úrskeiðis kennið þið öðrum um. Alveg eins og þú kenndir útrásarvíkingunum um að misnota forsetaembættið, og þú stikkfrí, saklaust lamb. Það er vont að vera ófær um að viðurkenna mistök, og beinlínis hættulegt ef slíkt einkennir forystumann þjóðar. Þeir sem telja sig aldrei gera mistök verða of vissir með sig, líta á sig sem ómissandi og yfir flest lögmál hafna. Stundum brýst það út í hroka, eins og hjá Davíð Oddssyni. Stundum í einkennilegu samblandi af frekju og undarlegu dómgreindarleysi eins og hjá Sigmundi Davíð síðustu daga hans í því embætti sem þú leiddir hann í fyrir þremur árum. Og stundum, eins og í þínu tilviki núna, í þeirri botnföstu vissu að enginn annar meðal íslensku þjóðarinnar valdi embætti forseta landsins. Grikkirnir kölluðu slíkt hybris, það þýðir ofmetnaður, og hefur aldrei í sögu mannsins komið góðu til leiða.

Karlar sem virtust svo yfirfullir af sjálfsvissu og sjálfsöryggi að við trúðum ósjálfrátt á yfirburði ykkar, og völdum ykkur til forystu. Ykkur Davíð ítrekað. Er það þess vegna sem lýðræðið á Íslandi er svo vanþróað, vegna þess að við föllum svo auðveldlega fyrir körlum með of mikið sjálfstraust og þá sannfæringu að heimurinn farist án þeirra? Og skilgreiningin á íslensku lýðræði komist þar með fyrir í þremur nöfnum: Davíð Oddssyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni. 

Ert þú, Ólafur, eftir 20 ár í embætti, kannski ein ástæða þess að hlutirnir eru svo fjarri því að vera í lagi hér á Íslandi – eins og sannaðist svo átakanlega í beinni útsendingu og umfjöllun marga helstu fjölmiðla heimsins nú fyrir skömmu?

Maður fortíðar

„Helsta einkenni lýðræðisríkja“, skrifar Haukur Arnþórsson doktor í stjórnsýslufræðum „eru tíð mannaskipti í æðstu stöðum.“ Þannig virki lýðræðið, þess vegna höfum við kosningar á fjögurra ára fresti. Með öðrum orðum: það er ekki gott fyrir lýðræðið ef sami einstaklingur situr of lengi í valdamiklu embætti. Sama hversu fær hann er. Hættan er auðvitað sú að embættið muni litast of mikið af persónu hans, og að viðkomandi fari ósjálfrátt að líta svo á að embættið tilheyri honum. Þá stirðnar eitthvað í lýðræðinu. Þá hættir það að virka eins og það á og verður að virka.

Ég veit, Ólafur, að þú ert ánægður með þitt framlag, en eftir tuttugu ár í embætti forseta Íslands hefðu nær allir séð sæng sína upp reidda, þótt fyrr hefði verið, og yfirgefið sviðið. Þekkt sinn vitjunartíma. Haft það mikla virðingu fyrir lýðræðinu, og skilning á eðli þess. Og þú hefðir getað farið með sæmd. Þrátt fyrir þín mistök, loðnu yfirlýsingar og reglulega leikþætti í fjölmiðlum. En gerðir það ekki. Getur það verið að hégóminn og sjálfsvissan hafi blindað þig?

Helst vildi ég hvetja þig til þess að draga framboð þitt til baka, með þeim orðum að það sé lýðræðinu fyrir bestu að hleypa nýjum kröftum að. Þú gætir bætt því við að þú treystir þjóðinni algjörlega til að velja verðugan kandídat. En ég geri það ekki, það hefur ekkert upp á sig. Þú telur þig ómissandi. Doktor í stjórnmálafræði en hefur misst sjónar á grundvallarlögmálum lýðræðis; tíð mannaskipti. Eða öllu heldur; setur þig hærra þeim lögmálum. Þú ert orðin hindrun fyrir nauðsynlegar breytingar. En það má segja að þú kunnir að birtast á réttum stöðum, kannt að setja þig á svið – kamelljón, vindhani sem snýst áreynslulaust með vindinum. Þú virðist því miður ennþá vinna eins og sá Ólafur Ragnar sem hélt þrumandi ræðu yfir fólki í Keflavíkurgöngunni sumarið 1987, brýndir það í baráttunni, lést þig síðan hverfa en birtist aftur þegar það var búið að heyja baráttuna, og eignaðir þér heiðurinn. Sjálfstraust þitt, óhagganleg vissa um að þú hafir ætíð rétt fyrir þér, og þeir sem séu ósammála hafi þar af leiðandi alltaf á röngu að standa, er fyrirstaða eðlilegrar þróunar lýðræðis á Íslandi. Þeir sem kjósa þig eru þar með að kjósa hið gamla Ísland, þeir eru að kjósa samfélag Davíðs Oddssonar, Sigmundar Davíðs og Ólafs Ragnars. Þeir eru einfaldlega að kjósa gegn framtíðinni.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ráðherra sveitarstjórnarmála mun ekki hafa frumkvæði að sameiningum sveitarfélaga með færri en 1.000 íbúa eins og upphaflega var lagt til í frumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Hagræn áhrif fækkunar sveitarfélaga geti orðið fimm milljarðar
Nýlega voru breytingar á sveitarstjórnarlögum samþykktar en ein meginbreytingin felur í sér að stefnt skuli að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði ekki undir 1.000 manns. Upphaflega stóð til að lögfesta lágmarksíbúafjölda.
Kjarninn 20. júní 2021
Ferli Rauða barónsins lauk á sama stað og hann hófst, á Stokkseyrarvelli sumarið 2016, er hann dæmdi leik heimamanna gegn Afríku.
Saga Rauða barónsins gefin út á bók
Rauði baróninn - Saga umdeildasta knattspyrnudómara Íslandssögunnar er ný bók eftir fyrrverandi knattspyrnudómarann Garðar Örn Hinriksson. Safnað er fyrir útgáfunni á Karolina Fund.
Kjarninn 20. júní 2021
Helga Björg segist óska þess að það væri meiri skilningur hjá fjölmiðlum á valdatengslum og á stöðu fólks í umfjöllunum.
„Framan af var aldrei hringt í mig, enginn hafði samband“
Fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra og borgarritara gagnrýnir fjölmiðlaumfjöllun um eineltismál í ráðhúsinu en hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa í langan tíma.
Kjarninn 20. júní 2021
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu Seðlabankans.
Segir mikla verðbólgu bitna verst á tekjulágum
Varaseðlabankastjóri peningastefnu Seðlabankans segir áhrif mikillar verðbólgu vera sambærileg skattlagningu sem herji mest á lágtekjufólk. Samkvæmt henni er peningastefnan jafnvægislist.
Kjarninn 20. júní 2021
Tveir fossar, Faxi og Lambhagafoss, yrðu fyrir áhrifum af hinni fyrirhuguðu virkjun í Hverfisfljóti.
Auglýsa skipulagsbreytingar þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð Skipulagsstofnunar
Skipulagsstofnun ítrekaði í vor þá afstöðu sína að vísa ætti ákvörðun um virkjun í Hverfisfljóti til endurskoðunar aðalskipulags Skaftárhrepps sem nú stendur yfir. Við því var ekki orðið og skipulagsbreytingar vegna áformanna nú verið auglýstar.
Kjarninn 20. júní 2021
Christian Eriksen var borinn af velli eftir að hann hneig niður í leik Dana gegn Finnum um síðustu helgi.
Eriksen og hjartastuðið
Umdeildar vítaspyrnur, rangstöðumörk, brottvísanir eða óvænt úrslit voru ekki það sem þótti fréttnæmast í fyrstu umferð Evrópukeppninnar í fótbolta. Nafn Danans Christian Eriksen var á allra vörum en skjót viðbrögð björguðu lífi hans.
Kjarninn 20. júní 2021
Þórdís Kolbrún hafði betur í oddvitaslagnum í Norðvesturkjördæmi.
Þórdís Kolbrún sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
Öll atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi hafa verið talin. Haraldur Benediktsson, sem leiddi listann í síðustu kosningum, lenti í öðru sæti en hann sagði nýverið að hann hygðist ekki þiggja annað sætið ef það yrði niðurstaðan.
Kjarninn 20. júní 2021
Þórdís Kolbrún tilkynnti það síðasta haust að hún myndi fara fram í Norðvesturkjördæmi og sækjast eftir oddvitasætinu.
Þórdís Kolbrún leiðir eftir fyrstu tölur í Norðvesturkjördæmi – Haraldur þriðji
Kjörstöðum hefur nú verið lokað í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Talin hafa verið 798 atkvæði úr flestum en ekki öllum kjördeildum af um 2200 greiddum atkvæðum Teitur Björn Einarsson er sem stendur í öðru sæti.
Kjarninn 19. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None