Afhjúpandi umfjöllun um Panamaskjölin svonefndu heldur áfram að gera mikið gagn fyrir samfélagið, en í gær var Kastljós RÚV með hluta gagnanna til umfjöllunar. Það hefur komið í ljós á þessum tímum að RÚV gegnir mikilvægu hlutverki, og það skiptir máli að þar sé vel haldið um þræði án nokkurs pólitísks þrýstings. Eiga blaðamenn RÚV hrós skilið fyrir góða vinnu.
Í þættinum var meðal annars fjallað um málefni framkvæmdastjóra tveggja lífeyrissjóða, sem áttu aflandsfélög án þess að upplýsa stjórnir þeirra um það, tengsl stjórnmálamanna við aflandsfélög, tengsl þáverandi formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands og einnig tengsl manna sem gegnt hafa trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálaflokka, ýmist sem starfsmenn eða forystumenn.
Þetta er stóra myndin, ef nöfn manna eru tekin út svo útlínurnar standi upp úr. Í ljósi þess sem Ísland hefur gengið í gegnum, með útrás fjármálakerfisins, hruni þess, neyðarlögum, setningu fjármagnshafta og síðan endurreisnarstarfi, þá verður ekki annað séð, en að þessi umfjöllun sé ekki aðeins mikilvæg fyrir íslenskt samfélag, heldur nauðsynlegur hluti af uppgjörinu við þessa miklu atburði. Það verður að fara í gegnum allt sem að þessu snýr. Vitaskuld er mesta alvaran í þeim alvarlegu lögbrotum sem þegar hafa verið staðfest með dómum Hæstaréttar, en það má ekki gleyma því að siðferðisleg álitamál skipta einnig miklu máli.
Brugðist var við því þegar það kom í ljós að Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar, hafði átt félag á Tortóla sem var í Panamaskjölunum, þvert á það sem skilja mátti af fyrri yfirlýsingum hans. Vilhjálmur er eigandi 15,98 prósent hlutafjár í Kjarnanum, og hefur reynst félaginu vel á stuttu æviskeiði, sem telur þrjú ár í ágúst næstkomandi, enda með mikla reynslu af nýsköpunarstarfi og rekstri fyrirtækja á uppbyggingartíma, og komið að ófáum slíkum verkefnum á sínum ferli.
Vék hann strax úr stjórn Kjarnans sökum þessa. Þetta var dómgreindarbrestur af hans hálfu, en hann hefur nú fjallað með mun ítarlegri hætti um þessi viðskipti en hann gerði áður, og meðal annars skýrt það að engin skattsvik hafi verið á ferðinni eða óeðlileg fyrirgreiðsla. Þetta hefði betur mátt koma fram fyrr.
Eins og vikið hefur verið að áður á þessum vettvangi, þá virðist það vera aðkallandi, að koma upplýsingum um viðskiptaleg tengsl allra þeirra sem gegna trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálaflokka - skiptir þá engu máli hvaða flokkur eða einstaklingur á í hlut - upp á yfirborðið. Best væri að gera þetta með lagaskyldu, þar sem fjárhagsupplýsingar og viðskipti væru uppi á borðum hjá öllum kjörnum fulltrúum á Alþingi og æðstu stjórn stjórnmálaflokka. Það ekki óeðlilegt að gera þessa kröfu í því mikla starfi sem býður stjórnmálanna hér á landi við að endurheimta traust. Það mun taka langan tíma til viðbótar, en það er áhrifamikið að láta gögnin tala. Hvort sem það eru fjölmiðlar sem draga þau fram, eða einstaklingarnir sjálfir.
Íslenskt atvinnulíf þarf síðan líka að horfa í eigin barm, og velta því upp hvernig æskilegast er að haga þessum málum. Ræða Björgólfs Jóhannssonar, formanns Samtaka atvinnulífsins (SA), á ársfundi SA á dögunum, var mikilvægt innlegg, en þar talaði hann með afar skýrum hætti gegn skattaskjólum og þeim athöfnum manna, að reyna að komast undan því að greiða skatta í sameiginlegan sjóð landsmanna.
Þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst upphaflega yfir gögnin frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca, og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavík Media og 109 öðrum fjölmiðlum víðsvegar um heim. Um er að ræða 11,5 milljónir skjala upp á tæp þrjú terabæti.
Kjarninn hefur ekki fengið aðgang að öllum gögnunum, heldur aðeins fjallað um hluta þeirra, í samstarfi við Reykjavík Media. Það var gert ítarlega og vel.
Umfjöllunin um Panamaskjölin er mikilvæg, eins og áður segir, og viðkvæm þess vegna. Það skiptir máli að þeir sem fjalla um skjölin og greina þau, einkum frumbirtingar á efni, vandi til verka og hlífi engum. Gögnin verða opinber á endanum, og þá mun fólk geta skoðað þau. Kjarninn mun vanda til verka þegar kemur að Panamaskjölunum, og halda áfram vönduðum vinnubrögðum, þar sem hagsmunir lesenda ráða för, en ekki neinna annarra.