Íslenskt samfélag hefur verið og er í stöðugri þróun. Breytt samfélag þýðir breyttar áherslur. Nýir tímar þýðir nýjar áskoranir. Krafan um ný stjórnmál, nýjar áherslur, nýtt fólk og ný vinnubrögð í stjórnmálum hefur aldrei verið háværari og hún hefur sjaldan verið réttmætari.
Við lifum á tímum þar sem stjórnmálamenn hafa orðið uppvísir að spillingu en sitja sem fastast. Við lifum á tímum þar sem flokkar þessara stjórnmálamanna mælast samt sem áður með óskiljanlega hátt fylgi. Stjórnmálamenn sitja sem límdir við stóla sína á sama tíma og við horfum upp á landflótta ungs fólks, húsnæðismarkað sem er í molum, ónýtt heilbrigðiskerfi og aðför að menntakerfinu.
Áherslan hefur verið á kolranga hluti, stofnanir samfélagsins eru rúnar trausti og fólkið í landinu er komið með upp í kok af aðgerðarleysi stjórnvalda í málum sem snerta hagsmuni almennings en það reynist erfitt að finna hópa í samfélaginu sem ekki eru enn að berjast fyrir bættum kjörum, virðingu og réttlæti árið 2016.
Sérhagsmunaöflin og auðvaldið hafa alltof lengi ráðið för í samfélaginu og við hin höfum um of langan tíma þurft að lúta í lægra haldi. Kerfisbreytingar reynast ómögulegar, loforð eru svikin, gagnsæið er ekkert og lýðræðið hefur orðið undir í keppninni um völd og auð. Íslensk stjórnmál hafa ekki endurspeglað þá fjölbreytni sem finna má í íslensku samfélagi um langan tíma og hinn almenni borgari hefur lítið sem ekkert að segja um stöðu mála. Það hefur valdið því að trúin á stjórnmálunum er horfin og fáir stjórnmálamenn njóta trausts.
Gamaldags flokkapólitík, klíkuskapur og Alþingi sem virðist oft á tíðum ekki vera í neinum tengslum við samfélagið er einfaldlega ekki í lagi lengur. Það er mikilvægt fyrir þá stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn sem ætla sér að ná eyrum fólksins í landinu að fylgja eftir þeirri þróun sem á sér stað í samfélaginu. Flokkur jafnaðarmanna er engin undantekning þar á.
Samfylkingin var stofnuð sem umbótaafl fyrir íslenskt samfélag og til höfuðs sérhagsmunaöflunum. Mikilvægt er að hún svari því ákalli sem heyrist í samfélaginu um ný stjórnmál og ný vinnubrögð. Samfylkingin þarf að verða aftur sá sterki jafnaðarmannaflokkur sem hún var stofnuð til þess að vera. Jafnaðarmannaflokkur sem hefur grunngildin um frelsi, jöfnuð og samstöðu ávallt í hávegum og berst fyrir hagsmunum allra, réttindum almennings og þeim breytingum sem fólkið vill sjá eins og nýja stjórnarskrá, betri lífsgæði, jafna skiptingu auðlinda og uppbyggingu samfélags þar sem ungir Íslendingar geta og vilja byggja sína framtíð og hinir sem eldri eru vilja vera áfram hluti af.
Liður í því að svara þessu ákalli um ný stjórnmál og ný vinnubrögð eru kynslóðaskipti. Því er oft haldið fram að ungt fólk hafi ekki áhuga á pólitík og málefnum samfélagsins. Það gæti þó ekki verið fjarri sannleikanum. Það höfum við til dæmis séð með hverri samfélagsbyltingunni á fætur annarri sem hefur komið frá ungu fólki. Unga fólkið, rétt eins og flestir aðrir, hafa bara minni áhuga á stjórnmálaflokkum sem minna frekar á safngripi en hreyfiafl í samfélaginu, úrelt flokkakerfi og þrætupólitík og því nennir það til dæmis ekki að mæta á kjörstað.
Það þýðir þó ekki að við séum ekki að velta því fyrir okkur hvernig samfélag við viljum byggja og eiga. Við höfum flest öll miklar áhyggjur af stöðu mála og við viljum flest hafa áhrif á samfélagið til hins betra og koma í frekara mæli að ákvarðanatöku í samfélaginu enda eru fáir betur til þess fallnir að skapa framtíð ungs fólks og komandi kynslóða en við sjálf. Við erum öll að spá í framtíðinni sem við viljum að verði okkur og öðrum áhyggjulaus og frjáls.
Það hefur viðrar vel til byltinga að vori síðustu ár. Nú er kominn tími á að bylta úreltu stjórnmálakerfi úr sessi. Við þurfum að losna við sérhagsmunaöflin og gamaldags pólitík og gera stjórnmálin betri, skemmtilegri, aðgengilegri og aðlaðandi fyrir þátttakendur sem og kjósendur. Breytingar gerast ekki að sjálfu sér, við þurfum að vera sú breyting sem við viljum sjá. Hvort Samfylkingin verði hluti af þessu ferli verður svarað með því hvort hún sé tilbúin til þess að hleypa næstu kynslóð jafnaðarmanna að borðinu!
Höfundur er formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og frambjóðandi til varaformanns Samfylkingarinnar.