Í nýjustu skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn, sem birtist á vef stofnunarinnar í gær, má sjá hvernig staðan er á markaðanum.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að netnotkun í farsímum heldur áfram að aukast mikið. Aukningin í gagnamagni á farsímaneti var 67,6 prósent í fyrra, frá árinu 2014, gagnmagnsaukning var 122,8 prósent og netþjónusta á farsímaneti jókst um 46,2 prósent.
Það sem vekur einnig athygli er sú staðreynd, að Síminn er ekki lengur stærsta fyrirtækið á Íslandi þegar horft er til markaðshlutheildar á markaði með farsímaáskriftir. Nova er nú orðið stærsta fyrirtækið á markaðnum með 145.734 áskrifendur, miðað stöðu mála í fyrra, en Síminn kemur næstur með 145.126 áskrifendur. Það gerir 34 prósent hlutdeild hjá Nova, en 33,8 prósent hjá Símanum.
Áskrifendum fjölgaði um tæplega níu þúsund milli ára hjá Nova, en þeim fækkaði um rúmlega þrjú þúsund hjá Símanum.
Sé horft yfir síðustu þrjú ár þá hefur áskrifendum hjá Vodafone fjölgað um rúmlega tólf þúsund, tæplega 20 þúsund hjá Nova en þeim hefur fækkað um tæplega 800 hjá Símanum. 365 var með 3,4 prósent hlutdeild, og tæplega 14.500 farsímaáskrifendur í fyrra.
Þetta verða að teljast nokkur tíðindi á íslenskum fjarskiptamarkaði. Samkeppnin er þó hörð, ef marka má upplýsingar í skýrslunni, og getur staðan breyst hratt.