Ef það væru stór göt í gólfi kennslustofu, myndi engri
heilvita manneskju detta í hug að hafa börn þar inni á hverjum skóladegi.
Krakkar gætu dottið niður um gatið og meiðst svo alvarlega að það fylgdi þeim fyrir
lífstíð. Þau gætu jafnvel dáið. Slík kennslustofa yrði löguð eins og skot, og
ekki notuð þangað til að lokað yrði fyrir götin.
Einelti í skólum er eins og stór göt í gólfi kennslustofu. En enginn virðist líta á það sem skyldu sína að laga það. Ef eitthvað er, þá virðist það vera kappsmál skólayfirvalda að koma börnunum eins fljótt aftur inn í kennslustofuna og hægt er. Börn sem eru fórnarlömb eineltis eru í lífsháska. Það þarf ekki að leita lengi á netinu til að finna vísindarannsóknir sem sýna fram á tengsl milli eineltis í skólum og sjálfsmorða.
Við erum mörg, fórnarlömb eineltis. Myndbandið af hræðilegri árás unglingsstelpna á samnemanda sinn hefur ýft upp gamlar tilfinningar hjá mér, eins og fleirum sem voru lögð í einelti í barnaskóla. Við sem lentum í þessu upplifðum útskúfun og einangrun í því samfélagi sem við vorum skikkuð til að vera í, grunnskólabekknum. Börn hafa ekkert val um að vera í skóla og því ætti það að vera algert forgangsatriði að tryggja öryggi þeirra.
Ég var lagður í einelti í Hlíðaskóla þegar ég kom þangað 9 ára úr Ísaksskóla. Eineltið var svo slæmt, að í upphafi þriðja skólaárs míns þar var eina ráðið að færa mig um set í Fossvogsskóla. Ég var langt í frá eina fórnarlambið sem þurfti að víkja úr hverfisskóla sínum. Ég var einnig lagður í einelti í Fossvogsskóla, enn verr ef eitthvað er, og því lauk ekki fyrr en ég var kominn í Austurbæjarskóla, 12 ára gamall.
Áhrif eineltis hverfa ekki þegar því lýkur. Ég þjáðist af viðvarandi þunglyndi öll unglingsár og langt fram á þrítugsaldurinn. Það tók mikla sjálfsskoðun, með og án hjálp sálfræðinga, að lækna þau sár sem eineltið hafði veitt mér. Og enn þann dag í dag þá geta þessar gömlu tilfinningar komið aftur í heimsókn, þó svo að nú séu þær ekki lengur ógnvænlegar. Líf mitt í dag er hamingjusamt. Sem betur fer ná flest fórnarlömb eineltis fullri sálarheilsu. Ef einhver nemandi í grunnskóla les þetta sem er núna lagður í einelti, þá vil ég segja honum eða henni að lífið mun breytast til batnaðar. Sá dagur mun koma að þú þarft ekki að fara í grunnskóla, og þú munt ráða því hvaða fólk þú umgengst dag frá degi. Ég vil líka segja þér að þessi kvöl er ekki þér að kenna. Þú berð ekki ábyrgð á henni.
Allan þann tíma sem ég var lagður í einelti fékk ég aldrei þau skilaboð frá kennurum eða skólastjórnendum að þau litu svo á að þetta væri eitthvað sem kæmi þeim við að nokkru leyti. Ef eitthvað var þá var viðmótið þannig að mér fannst ég vera vandamál sem þurfti að ýta út af borðinu. Það bað mig enginn afsökunar á því að ég hafi verið lagður í einelti í mörg ár, enginn kennari, enginn skólastjóri, né neinn annar stjórnandi í skólakerfinu. Ég þekki heldur ekki dæmi þess að aðrir nemendur sem lentu í einelti hafi verið beðnir afsökunnar á því, hvorki á meðan skólagöngu stóð eða síðar á ævinni. Í íslensku skólakerfi finnst kennarum og stjórnendum þeir ekki vera ábyrgir fyrir því að börnin sem eru skyldug til að vera í skólunum þeirra séu ekki lögð í einelti.
Nú nýverið framdi gamall kunningi minn sjálfsmorð. Hann var lagður í einelti í barnaskóla og glímdi við þunglyndi allt sitt líf. Frænka mín framdi sjálfsmorð þegar hún var nítján ára. Hún var lögð í einelti í barnaskóla. Þessi tvö dæmi úr nærsamfélagi mínu eru ekki einstök. Ég fór inn á vef Morgunblaðsins og fletti upp orðinu einelti í minningagreinum. Ég þurfti ekki að skrolla lengi gegnum niðurstöðurnar til að finna sögur af fólki sem hafði skaðast fyrir lífstíð vegna eineltis og frömdu að lokum sjálfsmorð.
Kennari sem segði barni að sitja í stól við hlið gats í gólfi kennslustofu væri rekinn. Skólastjóri sem léti það viðgangast að kennslustofur í skólanum sem hann stýrði hefðu stór göt í gólfinu væri rekinn. Yfirstjórnendur í skólakerfinu sömuleiðis. Ef þetta væri áratugagamalt vandamál sem lítið væri gert í myndu starfsfólk ráðuneyta vera látið fjúka. Og menntamálaráðherrar segðu af sér. En af því að börnin sem eru fórnarlömb eineltis bera sárin í huganum en ekki á líkamanum, þá er enginn ábyrgur.