Það var gleðilegt að heyra Barack Obama, Bandaríkjaforseta, gera átakið #AskGuðmundur að umtalsefni í Hvíta Húsinu í dag, þegar hann bauð þjóðarleiðtoga Norðurlandanna velkomna.
Ræða hans var birt í heild sinni á Twitter, en Obama er með 79,4 milljónir fylgjenda á Twitter, langsamlega flesta af öllum stjórnmálamönnum í heiminum og þann næstvinsælasta af öllum á eftir tónlistarkonunni Katy Perry, sem er með 88,4 milljónir fylgjenda. Þá birtist ræðan líka á Twitter síðu Hvíta hússins, sem er með 10,2 milljónir fylgjenda.
Ánægjulegt
Það skiptir því máli þegar Obama gerir átök um að draga fleiri ferðamenn til Íslands að umtalsefni, og óhætt að segja að það sé ánægjulegt.
Obama fór lofsamlegum orðum um Norðurlöndin, og gildi þeirra, talaði jafnframt fyrir mikilvægi fjölbreytileika og jöfnum tækifærum.
Ímynd Ísland skiptir máli, og orð eins og þessi frá Obama,
sem fara vítt og breitt á samfélagsmiðlum, skipta máli. Það er alltaf kærkomið
þegar Ísland kemst í opinbera umræðu erlendis undir jákvæðum formerkjum, og
eins Obama nálgaðist málin í ræðu sinni, þá er óhætt að segja að það hafi verið
raunin.
Eftir það sem á undan er gengið að undanförnu, vegna umræðu um Panamaskjölin og tengsl íslenskra ráðamanna við þau, þá var þetta ágætis tilbreyting. Barack Obama hefur sjálfur talað mjög endregið gegn aflandsfélögum og sagt þau grafa undan hagkerfum og bjóða upp á spillingu, og boðað harðar aðgerðir gegn þeim.
Sterk staða á sviði menningar
Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra geta vonandi gripið jákvæða strauma á lofti, og unnið með þá eins og kostur er.
Ímynd Íslands er sterk og stöðug á einum vettvangi sérstaklega. Það er á sviði menningar. Þetta hefur margsannast, og það eru ekki síst embættismenn í utanríkisþjónustunni sem staðfesta þetta sjálfir.
Stundum hafa erlendir listamenn dregið Ísland upp á yfirborðið í verkum sínum, og þau komist á mikið flug. Nefna má myndband Justin Vernons og félaga í Bon Iver við lagið Holocene. Það er tekið upp á Íslandi, og endurspeglar íslenska náttúru á stórbrotinn hátt. Myndbandið er nú með tæplega tuttugu milljónir áhorfa á Youtube.
Ísland skapar sér sína eigin ímynd sem birtist fólki nær og fjær, og styrking hennar er eilífðarverkefni.