Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hafa tæplega átta þúsund fleiri Íslendingar flutt úr landi en til þess frá árinu 2009. Þetta eru sláandi tölur, sé mið tekið af því að aðeins 334 þúsund manns búa á Íslandi. Þrátt fyrir að hagtölurnar sýni mikinn efnahagslegan uppgang, og almennt ágæta stöðu, þá ættu þessar upplýsingar að vekja umtal um nokkur atriði.
1. Hvers vegna er svona mikill straumur úr landinu? Því miður er ekki hægt að svara því almennilega, vegna þess að Þjóðskrá og Hagstofan hafa ekki komið upp góðum ferlum, til að fylgjast með spekileka (braindrain) úr hagkerfinu. Hagstofan gerði þetta sjálf að umtalsefni frétt á vef stofnunarinnar 27. nóvember í fyrra, þar sem segir meðal annars: „Líkanið sýnir þó einungis fylgni en gefur ekki upplýsingar um orsök né heldur er það tæmandi. Aðrir þættir gætu hugsanlega varpað frekara ljósi á flutningsjöfnuð, t.d. menntun og starf, en þau gögn eru ekki tiltæk í dag.“ Best er að fylgjast með þessum atriðum með því að gera fólki sem er að flytja úr landi, að gefa upp reynslu á vinnumarkaði og menntun. Einfalt og skýrt. Þetta upplýsingar hjálpa við að greina hvað það er, sem er að gerast. Hagfræðistéttin, sem oft er nú að meta mikla óvissu, stendur algjörlega á gati varðandi þetta mál, og getur aðeins fjallað um þetta út frá tilfinningu. Með öðrum orðum: Það vantar betri upplýsingar um hvers vegna þessi straumur er frá landi sem sýnir mikinn hagvöxt og stjórnmálamenn tala um að sé á leiðinni inn í lengsta samfellda hagvaxtarskeið í lýðveldissögunni. Hver er bakgrunnur fólksins sem er að fara úr landi, og hver er menntun þess? Það er helst að einstaka fagfélög hafi reynt að kortleggja stöðuna innan sinna vébanda og má nefna Verkfræðingafélag Íslands í þeim efnum. Mikill straumur var úr landi úr þeirri stétt eftir hrunið, meðal annars til Noregs.
2. Útlendingar gegna afar mikilvægu hlutverki í íslenska hagkerfinu og ef heldur áfram sem horfir þá verða þeir orðnir 10 prósent af heildarfjölda landsmanna í lok næsta árs. Þeir voru um 27 þúsund í fyrra, eða um 8,3 prósent. Árið 2002 voru útlendingar 3,5 prósent af heildarfjölda, samkvæmt skýrslu félagsmálaráðuneytisins frá 2005, svo mikil breyting hefur orðið á skömmum tíma. Það vantar líka ítarlegri gögn um atvinnuþátttöku þeirra, en þeir eru afar mikilvægir í landvinnslu í sjávarútvegi víða um landið, og einnig í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Atvinnuþátttakan hefur verið mikil og ef eitthvað er, meiri en hjá Íslendingum. Útlendingar á Íslandi eru gegnum gangandi duglegt fólk sem leggur mikið á sig. Þetta er í takt við margar rannsóknir erlendis. Nákvæm kortlagning á menntun og reynslu liggur hins vegar ekki fyrir, en ljóst má vera að hún myndi gefa skýrari mynd því sem er að gerast í íslensku samfélagi. Greinilegt er á þróun mála að útlendingar – eða innflytjendur eins og þeir eru líka nefndir –munu gegna algjöru lykilhlutverki við gang efnahagsmála á næstu árum. Við reiðum okkur á miklu leyti á þá, ef horft er til gagna frá Hagstofunni.
3. Upplýsingarnar um þróun mála vekja upp spurningar um samstarf háskólasamfélagsins og atvinnulífsins. Getur verið að ójafnvægi í þessu mikilvæga samstarfi sé meðal þeirra þátta, sem eru að leiða til þess að fólk með góða menntun er að flytja úr landi, og útlendingar með minni menntun að streyma til landsins og ráða sig í láglaunastörf í staðinn? Eru sérfræðistörf að leka úr hagkerfi í miklum vexti? Er hagvöxturinn á Íslandi „æskilegur“? Er nægilega mikill vöxtur í „alþjóðageiranum“, það er í þeim hluta hagkerfisins þar sem alþjóðlega sérfræðiþekkingu þarf til að láta hlutina þróast áfram?
Því miður er það svo, að þessi skrif skilja líklega eftir sig margar spurningar í huga lesenda, sem ekki er svarað. Ástæðan fyrir því er sú, að upplýsingarnar hafa ekki verið teknar saman um þessi mál af nægilegri nákvæmni, og stjórnvöld hafa ekki komið upp ferlum í gegnum stofnanir ríkisins, til að kortleggja flæði þekkingar til og frá landinu. Þetta er alvarlegt, og gerir öllum erfitt fyrir við að átta sig á því hvort þróun mála er til góðs eða ills. Stjórnmálamenn hafa oft talað um „veislur“ og „góðar hagtölur“ án nokkurrar innistæðu. Það væri að betra að geta staðreynt yfirlýsingar þeirra, og um leið stuðlað að mikilvægri umræðu um hvert Ísland er að stefna.