Google tilkynnti á ráðstefnu sinni Google I/O í Kaliforníu á dögunum að fyrirtækið muni í haust setja í loftið viðbót við Android-stýrikerfi sitt og búnað fyrir sýndarveruleika. Nokkur fyrirtæki voru við það tilefni kynnt til leiks sem samstarfsaðilar Google á þessu sviði, þar á meðal íslenska leikjafyrirtækið CCP.
CCP hefur þegar gefið út sýndarveruleikaleikina Gunjack fyrir Samsung Gear VR og Oculus Rift, búnað Oculus VR fyrirtækisins, sem er í eigu Facebook, sem og EVE: Valkyrie fyrir Oculus Rift.
Þetta eru gleðileg tíðindi úr íslenskum hugverkaheimi. Tækifærin til vaxtar í sýndarveruleika virðast mikil, enda gefur sýndarveruleikinn beinlínis innsýn í nýjan heim, og þar er rétt búið að opna dyrnar. Íslenskt atvinnulíf þarf á því að halda að skapa fleiri störf í alþjóðlegum tæknigeira, og sýndarveruleikinn virðist góður staður til að þróa málin áfram.