Í heiminum hefur 1,2 milljarður manna ekki aðgang að rafmagni. Til að gera sér í hugarlund hversu miklu máli skiptir að hafa áreiðanlegt aðgengi að rafmagni þarf ekki nema að líta í kringum sig og ímynda sér hvernig lífið væri án rafmagns. Ekki þarf að reyna mikið á ímyndunaraflið, því hægt er að skoða sögu Íslands og aðstæður þeirra sem bjuggu hér fyrir tíma rafvæðingar. Engin uppþvottavél, þvottavél, útvarp, sjónvarp, tölva eða sími. Ekki einu sinni hægt að elda mat án þess að fylla eldhúsið af reyk. Þetta er enn raunveruleikinn sem um 17 prósent af íbúum jarðar búa við. Þessu fylgja alvaraleg áhrif á heilsu, menntun, tækifæri og lífsgæði þeirra.
Á sama tíma og brýnt er að draga úr umhverfisáhrifum af mannavöldum þurfum við að finna leiðir til að beisla meiri raforku – auka hagkvæmni, bæta nýtingu og dreifingu. Komandi kynslóðir munu ekki hafa sömu forréttindi. Þær munu ekki geta reitt sig á eldsneytisforða sem hefur safnast í jarðlögum á tveimur milljörðum ára. Jafnvel á Íslandi þar sem við búum yfir miklum ónýttum orkulindum er vert að hafa hugfast að þær eru ekki óþrjótandi.
Það eru því góðar fréttir að í fyrra var sett met í hnattrænum fjárfestingum í nýtingu á endurnýjanlegri og hreinni orku; upphæð sem nam tæplega 30 billjónum íslenskra króna. Það samsvarar rúmlega fimmtánfaldri vergri landsframleiðslu Íslands. Það eru margvíslegar ástæður fyrir því að árið 2015 var sérstaklega gott ár fyrir nýsköpunarfyrirtæki í orkugeiranum. Til að gera langa sögu stutta þá er ávinningurinn af hreinni orku orðinn ljós – ekki einungis í fjarlægri framtíð heldur einnig fyrir þá jarðarbúa sem hafa ekki aðgang að rafmagni.
Í haust verður viðskiptahraðallinn Startup Energy Reykjavík haldinn í þriðja sinn. Markmiðið er að leggja þeim lið sem vilja framkvæma viðskiptahugmyndir á sviði orkumála í sinni breiðustu mynd. Við hvetjum alla þá sem vilja sporna gegn loftslagsbreytingum, bæta aðgengi að hreinni orku eða skapa og stuðla að framþróun á sviði vísinda og tækni í orkutengdum iðnaði til að sækja um!
Upplýsinga um Startup Energy Reykjavík veitir starfsfólk Icelandic Startups.
Höfundur er verkefnastjóri Icelandic Startups