Ferðamenn björguðu íslenskum efnahag. Á því er enginn vafi. Það gerðu þeir án aðkomu stjórnvalda. Á síðustu fimm árum (2011-2015) fjölgaði þeim úr tæplega 500 þúsund í 1,3 milljónir. Í ár er búist við því að þeir verði langleiðina í 1,7 milljónir. Forstjóri stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins telur að við getum tekið við 3-5 milljónum ferðamanna í nánustu framtíð.
Fyrirtæki hans, Icelandair Group, hagnaðist um rúma 14 milljarða króna í fyrra. Bláa lónið, sem fær rúmlega 900 þúsund gesti á ári sem borga á bilinu 5.600 til 27.500 krónur fyrir að baða sig í gamla affallinu frá orkuveri HS Orku í Svartsengi, hagnaðist um 2,3 milljarða króna. Kynnisferðir, sem hagnast aðallega á því a ferja ferðamenn frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur fyrir 2.200 til 2.800 krónur ferðina, hagnaðist um 1,2 milljarða króna á árunum 2013 og 2014. Fyrirtækið hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2015.
Þetta eru bara örfá dæmi um þann mikla hagnað sem er að verða til í ferðaþjónustu, enda jukust tekjur af ferðamönnum um 90 milljarða króna á milli áranna 2010 og 2014 (fóru úr 68,5 milljörðum í 158,5 milljarða króna). Tekjurnar í fyrra, og í ár, verða mun meiri, enda gert ráð fyrir að ferðamenn í ár verði 70 prósent fleiri en þeir voru árið 2014. Ef miðað er við að tekjurnar hækki í sama hlutfalli þá munu þær verða um 270 milljarðar króna í ár. Það eru 200 milljörðum meira en þær voru fyrir sex árum.
Þessi dæmalausa staða hefur orsakað mikinn hagvöxt, eytt atvinnuleysi og búið til gríðarlegan gjaldeyri fyrir hagkerfi sem þurfti sárlega á honum að halda. Vöxtur ferðaþjónustunnar upp í að verða stærsta stoð íslenska hagkerfisins hefur t.d. gert það að verkum að Seðlabanki Íslands hefur náð að safna sér 400 milljarða króna í óskuldsettan gjaldeyrisforða sem hann getur notað til að bræða aflandskrónusnjóhengjuna í næsta mánuði, ef eigendur hennar spila með.
Störfin ekki að verða til fyrir Íslendinga
Samkvæmt nýrri könnun Stjórnstöðvar ferðamála vinna nú rúmlega tíu prósent starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði í ferðaþjónustu. Um 22 þúsund manns að vinna að jafnaði í ferðaþjónustu á þessu ári. Um 40 prósent þeirra koma erlendis frá vegna þess að ekki er til vinnuafl á Íslandi til að vinna störfin. Alls verða erlendir starfsmenn greinarinnar um sex þúsund á þessu ári. Ef afleidd störf þeirra sem starfa í geirum sem hafa meginþorra tekna sinna af ferðamönnum eru talin með hækkar þessi tala ugglaust um nokkur þúsund. Þá er ótalið t.d. allur sá fjöldi útlendinga sem fluttir eru til landsins til að vinna við allar þær miklu framkvæmdir sem eru í gangi, og snúast að mestu um að þjónusta ferðaþjónustuna með hótelbyggingum.
Að langmestu leyti er um að ræða láglaunastörf að ræða sem krefjast ekki menntunar. Verkamannastörf, ræstingar, sölu- og afgreiðslustörf, fólksflutningar eða allskyns störf í eldhúsi. Nánast öll ný störf sem verða til á Íslandi eru af þessum toga.
Þetta eru ekki störfin sem Íslendingar eru að sækjast eftir. Þvert á móti fjölgar Íslendingum sem ljúka háskólanámi ár frá ári. Ungt íslenskt fólk er að skuldsetja sig og sérhæfa til að vinna störf sem eru ekki að verða til í landinu sem það býr í. Og þess utan er menntun ekki metin til launa á Íslandi á sama hátt og hún er metin hjá helstu nágrannaþjóðum okkar. Á Íslandi borgar sig einfaldlega að fara ekki í langtímanám, ef verið er að horfa á hversu mikið af peningum viðkomandi getur komist yfir á lífsleiðinni. Hagkvæmast er líklegast að keyra rútu alla ævi.
Hið ömurlega ástand á húsnæðismarkaði
Á undanförnum árum hefur skapast hreint ömurlegt ástand á íslenskum húsnæðismarkaði. Í fyrri könnun sem kynnt var í vikunni kom fram að yfir 80 prósent Íslendinga eru óánægðir með framboðið á markaðnum og mikill meirihluti þeirra sem leigja myndu gjarnan vilja eiga húsnæði, en geta það ekki.
Ástæður þessa eru margháttaðar. Í fyrsta lagi var lítið sem ekkert byggt á árunum eftir hrun og við það skapaðist umfram eftirspurn. Í öðru lagi hafa fjármagnshöft gert það að verkum að fjárfestar hafa farið að versla með íbúðarhúsnæði sem hverja aðra fjármálaafurð. Þar hafa verið stórtækastir lífeyrissjóðir landsins, með óbeinum hætti í gegnum allskyns sjóði sem stundað hafa stórtæk uppkaup á þúsundum íbúða. Fjárfestar gera eðlilega arðsemiskröfu til fjárfestinga sinna og þessi þróun hefur því ýtt upp verði bæði á eignar- og leigumarkaði.
Í þriðja lagi ákvað ríkisstjórnin að millifæra 80 milljarða króna á valin hóp fólks, aðallega eldra fólk sem átti töluverðar eignir, vegna þess að það kom verðbólguskot á Íslandi. Unga fólkið sem horfir á foreldra sína og þeirra kynslóð fá aukið skotsilfur, naut þessarar aðgerðar ekki með neinum hætti. Þvert á móti gerðu ruðningsáhrif hennar unga fólkinu enn erfiðara fyrir en ella við að koma þaki yfir höfuðið.
Í fjórða lagi hefur aukning ferðamanna auðvitað haft gríðarleg áhrif á húsnæðismarkaðinn. Fjöldi húsnæða sem auglýst voru til leigu á vef Airbnb.com jókst til að mynda um 124 prósent milli janúarmánaða 2015 og 2016. Í byrjun þessa árs var þar að finna 3.903 auglýsingar fyrir íslensk gistirými. Því má ætla að mörg þúsund íbúðir sem gætu verið á almennum markaði, og Íslendingar gætu búið í til lengri tíma, séu það ekki vegna þess að þær eru fyrst og síðast í útleigu til ferðamanna. Ljóst er að þessi staða mun bara versna á komandi árum þar sem uppbygging hótelherbergja mun ekki með neinu móti halda í við þá fjölgun sem búist er við að verði á ferðamönnum. Því má með góðu móti ætla að enn fleiri íbúðarhúsnæði muni fara undir hýsingu á ferðamönnum en nú er í framtíðinni, enda hagnast eigendur þeirra meira á slíkri útleigu en annarri nýtingu.
Stórar pólitískar spurningar
Ferðaþjónustan hefur bjargað okkur efnahagslega. Það er staðreynd og við eigum að vera þakklát fyrir hana. Við eigum hins vegar ekki að vera það þakklát að við látum sem að við skuldum ferðaþjónustunni að láta hana óáreitta við að hámarka arðsemi af verkum sínum þegar hún er bersýnilega farin að skaða önnur lífsgæði í landinu. Atvinnuvegurinn er enda að nýta sameiginlega auðlind okkar. Hún nýtir húsnæði, náttúru, innviði og nær öll önnur samfélagsleg gæði. Auðvitað hefur sú nýting bein og mikil áhrif á þá sem hér búa og deila nú þessum gæðum með milljónum ferðamanna.
Þrátt fyrir að þessi staðan hafi blasað við allt þetta kjörtímabil hefur ótrúlegt, og raunar vítavert, verkleysi einkennt þau ráðuneyti sem fara með ferða- og húsnæðismál. Engin skýr stefna eða regluverk liggur fyrir og ekki hefur verið brugðist við með nægilega miklu viðbragði við að styrkja innviði sem eru við þolmörk.
Sú staða sem er uppi vekur upp stórar pólitískar spurningar sem verður að svara. Ísland er auðlindadrifið hagkerfi, ekki mannauðsdrifið. Þótt sérfræðingar, t.d. ráðgjafafyrirtækið McKinsey, hafi ítrekað bent á að Ísland eigi að nota auðlindir sínar til að auka hagsæld með aukinni uppbyggingu hugvitsgeira, þá hefur slíkt því miður aldrei ratað inn í pólitíska sýn íslenskra stjórnvalda. Hér er vaðið áfram við að skapa eins miklar tekjur og hægt er af hverjum auðlindageira á sem skemmstum tíma. Hagkerfið hagnast auðvitað á því og það gera eigendur atvinnufyrirtækjanna sem fá að nýta þessar auðlindir líka.
En fjölmargir Íslendingar, sem vilja mennta sig í sérhæfðum störfum og búa annars staðar en hjá foreldrum sínum eða í iðnaðarhúsnæðum í Hafnarfirði þegar þeir verða fullorðnir, finna sér ekki stað í þessari tilveru. Störfin eru ekki til og húsnæðið er notað undir ferðþjónustu.
Það eru tvær leiðir til að takast á við þessa stöðu. Við getum einfaldlega dregið úr hvötum til menntunar og reynt að „afmennta“ vinnuaflið þannig að það henti betur þeim störfum sem eru að verða til hérlendis. Samhliða þyrftu stjórnvöld að segja það hreint út að það sé mikilvægara að ferðamenn nýti íbúðarhúsnæði landsins til að skapa gjaldeyri en að Íslendingar búi í eigin húsnæði.
Á hinn bóginn er hægt að grípa til lausna á þessari stöðu. Það er til að mynda hægt að takmarka mjög strax atvinnurekstrarmöguleika á íbúðarhúsnæði með því að setja hámark á þann dagafjölda sem leigja má það út til ferðamanna. Við það ætti nokkuð mikið magn íbúða að koma aftur inn á almenna markaðinn og leysa brýnasta vandamálið.
Það væri líka hægt að stórauka skattalega hvata og framlög til rannsókna og þróunar á Íslandi þannig að fyrirtækjum á borð við Össur, Marel, CCP, Nox Medical og Sólfar fjölgi og Ísland verði eftirsóknarverður staður fyrir sérhæft menntað fólk til að búa á.
Framtíðin er ekki þróun sem enginn möguleiki er að hafa áhrif á. Hún er val. Ef við förum ekki að móta hana sjálf heldur leyfum sérhagsmunaaðilum að gera það munu allt of margir Íslendingar leita tækifæranna annars staðar. Sá sem hefur hvorki atvinnutækifæri við hæfi né möguleika á húsnæði er enda varla nema hálfur samfélagsþegn, heldur gestur í eigin landi.