Starfsmenn ríkisskattstjóra unnu 8.795 yfirvinnutíma á árunum 2014 og 2015 vegna leiðréttingarinnar. 19 voru í fullu starfi þegar mest var en lengst af störfuðu 16 til 17 starfsmenn embættisins við framkvæmdina. Alls komu 90 starfsmenn að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Frá þessu greindi RÚV í gær, og vitnaði til svars Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.
Hin svonefnda leiðrétting, sem fólst í 80 milljarða millifærslu á peningum úr ríkissjóði inn á verðtryggðar fasteignaskuldir sumra, aðallega fólks á höfuðborgarsvæðinu, lítur svolítið einkennilega út núna. Fá borgarsvæði í Evrópu, ef þá einhver, hafa upplifað aðrar eins hækkanir á fasteignaverði og höfuðborgarsvæðið, á undanförnum misserum. Ekkert lát virðist vera á hækkunum, og er því spáð að verðið muni hækka um 20 prósent á næstu tveimur árum, og síðan áfram töluvert.
Það er sanngjarnt að spyrja því, svo ekki sé meira sagt, hvort nýta hefði mátt þetta fé með betri og skynsamlegri hætti. Líklega mun koma í ljós í næstu kosningum, hvernig fólk horfir til þess, þar sem þetta var eitt stærsta mál þessa kjörtímabils.