Ein af ástæðunum fyrir því að ég sá Ísland sem möguleika fyrir mig að búa á var sú að ég hafði lesið Draumalandið. Eftir 30 ára búsetu erlendis kom ég beint heim í hrunið - en vissi að hér var fólk með opinn huga og nýjar hugmyndir - og þar var Andri Snær Magnason fremstur í flokki. Ég hafði samband við hann og átti við hann skemmtilegt samtal í kaffihúsi á Laugarveginum.
Síðan var Þjóðfundurinn haldinn 2009 og þar var Andri Snær framarlega í flokki. Ég varð þeirrar ánægju njótandi að vera flokkstjóri og kenna þeim aðferðafræðina og upplifa þennan frábæra dag sem er dáður út um allan heim. Þjóðfundurinn varð síðan fyrirmynd Þjóðfundar um stjórnarskrá 2010, en niðurstöður hans urðu undirstaða nýju stjórnarskárinnar frá Stjórnlagaráði. Andri Snær vill draga þessa nýju lýðræðislega skrifuðu stjórnarskrá upp úr skúffunum og lenda henni farsællega til þess að unnt sá að byggja upp nýtt Ísland.
Seinna var mér boðið að vera í stjórn Framtíðarlandsins - sem hefur verið ánægjuleg reynsla vegna þess að þar eru listamenn á borð við Andra Snæ - og í stjórninni er skemmtileg hugarflugsvinna í fyrirrúmi. Sú samvinna okkar Andra Snæs hélt áfram með því að við sitjum bæði í stjórn Landverndar.
Nú er ég afar stolt af því að vera í stuðningshópi Andra Snæs til forseta. Hann er frjór hugsuður og hefur sterka framtíðarsýn um náttúruvernd með stofnun miðhálendisþjóðgarðs, styrkingu lýðræðisins með nýrri stjórnarskrá með rætur í Þjóðfundi og uppbyggingu menningar á grunni tungumálslins okkar og innflytjenda. Hann leggur áherslur á allar víddir sjálfbærni - sem eru mér mikið hjartans mál.
Nýsköpun er Andra í blóð borin. Hann ber langtímahugsun og framtíðina í fyrirrúmi. Hann eflir hugmyndaflug barnanna og unga fólksins í landinu og út um allan heim. Þess vegna er Andri Snær minn forseti.