Þegar þú kemur heim eftir frí, fyrirgefiði ég ætla að byrja aftur þar sem námsmenn hafa ekki efni á að fara í frí (er ekki í lagi að vera með smá alhæfingar).
Þú opnar ísskápinn heima hjá þér og grípur mjólkurfernu og hellir úr fernunni á morgunverðardiskinn og út kemur kekkjótt og súr mjólk. Þú bölvar hugsanlega og tekur morgunverðardiskinn og tæmir hann, hendir innihaldinu í ruslið. Það er nefnilega þannig að það sem er súrt og kekkjótt, það er einfaldlega bara vont og vont verður ekkert betra þótt þú takir mjólkurfernuna, málir hana og breytir dagsetningunni og reynir að ljúga að sjálfum þér að nú sértu kominn með nýtt og betra og ósúrara (nýtt orð?) innihald.
Það er það sem hæstvirtur menntamálaráðherra herra Illugi Gunnarsson hefur samt gert með LÍN. Eins og ég lýsti í grein hér á Kjarnanum fyrir nokkrum vikum síðan, þá er LÍN ónýtt apparat og það sem þyrfti að gera væri að búta þetta dæmi niður í öreindir og byggja eitthvað nýtt á grunninum.
Illugi birtist í fjölmiðlum fyrir tæpri viku með atburðarás sem virtist vera hönnuð af almannatengslafyrirtæki því allstaðar voru fréttir þess efnis að nú væri svo sannarlega verið að gera eitthvað frábært fyrir nemendur og viðskiptavini LÍN. Fólk myndi fá styrk mánaðarlega sem í heildina hljóðaði upp á margar milljónir og mátti skilja af framsetningunni að nú gætu sko námsmenn farið að græða á daginn og grilla á kvöldin. (hvergi í þessum fréttum var að finna sjálfan lagatextann eða tilvísun í hann, svo ekki var hægt að fact-tékka fullyrðingarnar)
Ég hélt við þessar fréttir að Illugi hefði lesið greinina mína og ákveðið að fara að tillögum mínum. En er það virkilega svo? Það skal tekið fram að við hlustun vel framreiddra frétta þá hljómaði þetta ekki illa. Það væri kominn styrkur og fleira í þeim dúr. En þegar frumvarpið kemur fram hófst svo lesturinn og það verður að segjast eins og er að LÍN er enn nákvæmlega jafn súrt fyrirbrigði og áður, ef ekki enn súrara!
Nokkrir punktar úr þessu frumvarpi sem eru ámælisverðir.
· Búið er að setja hámark á hversu hátt lán er hægt er að fá, án þess að taka tillit til þess hvernig fjölskylduaðstæðum er háttað eða hver kostnaður er við skólagjöld.
· Vextir verða hækkaðir og sagt er að þeir séu samt lægri en á hinum Norðurlöndunum. Samt er það svo að aðrir Norðurlandabúar búa ekki við þá staðreynd að lánin þeirra hækki þrátt fyrir afborganir líkt og við Íslendingarnir, þar sem lánin eru verðtryggð.
· Styrkurinn svokallaði er tekjuskattskyldur.
· Samkvæmt frumvarpinu á að fækka einingum sem lánað er fyrir.
· Styttur verður hámarksnámstími úr 8 árum niður í 7 ár.
· Enn er til staðar tenging við bankana. Námsmenn þurfa enn að leita á náðir bankastofnana eða annara til þess að lifa námið af. Þetta á jafnt við framfærslu sem og styrkinn svonefnda.
· Framfærslan er enn skelfilega lág og ekki í neinu samræmi við raunveruleika flestra nemenda á Íslandi.
· Samkv. frumvarpinu hefst endurgreiðsla fyrr en hefur verið og verða afborganir jafngreiðslur, sem þýðir að tekjutenging er afnumin. Útreikningar í frumvarpinu gera ráð fyrir að eftir útskrift með MA gráðu sé viðkomandi með 500.000 í laun. Það þætti mér gaman að sjá að væri raunveruleikinn.
· Með þessu nýja frumvarpi á að gera hlutina þannig að nýtt skuldabréf myndast við hverja útborgun. Sem þýðir að 180 ECTS eininga nám skilar 6 skuldabréfum og við lokun hvers skuldabréf byrja vextir að tikka inn á það.
Mér finnst afskaplega sérstakt svo ég grípi ekki sterkar til orða að sjá forsvarsmenn stúdenta koma fram, jafnvel áður en frumvarpinu var dreift, og fagna þessu framtaki Illuga. Þetta frumvarp og þessar breytingar eru ekki til hagsbóta fyrir námsmenn. Það fullyrði ég.
Best væri að byrja á því að hækka framfærsluna og loka á þessa tengingu við bankana. Þegar það er búið og gert, þá er hægt að fara að vinna með hluti eins og styrki og einingafjölda og svo framvegis.
Mjólkin er enn jafn súr. Vont er alltaf vont. Gerum það sem er gott.
Höfundur er stjórnarmaður í Bjartri framtíð.